Miðvikudagur 22. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Steinunn Ólína ver vin sinn Kára: „Sjálfsábyrgðin er harður húsbóndi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir tekur upp hanskann fyrir vin sinn, Kára Stefánsson, sem nýverið viðurkenndi að mögulega hefði verið nóg að gefa eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma, bóluefni gegn Covid-19 veirunni.

Steinunn Ólína.

Játning Kára Stefánssonar, sem var áberandi þegar heimsfaraldurinn gekk yfir Ísland, hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og eru margir afar reiðir vísindamanninum, fyrir að mæla með bóluefnum á sínum tíma, sem mögulega hafa valdið fólki tjóni.

Leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, vinkona Kára, skrifaði langa færslu á Facebook í gær þar sem hún ver vísindamanninn. Þar segir hún meðal annars að Kári, auk annarra lækna hafi gert það sem þeir „töldu rétt að gera miðað við þær upplýsingar sem þeir töldu þá áreiðanlegar.“ Þá segir hún að hún leggi aldrei „það traust til nokkurrar manneskju að ákveða hvað sé mér fyrir bestu – ég afsala mér aldrei þeirri ábyrgð.“ Segir hún að lokum að sjálfsábyrgðin sé eini húsbóndinn sem sé óumflýjanlegur.

Færslan er hér í heild sinni:

„Eigum við að skjóta Kára Stefánsson eða ættum við heldur að skjóta okkur sjálf?

Engin var dreginn á hárinu í bólusetningar hér á landi þótt tilmæli heilbrigðisyfirvalda á heimsvísu væru öll í þá áttina. Margir völdu að þiggja ekki bólusetningar. Mér dettur ekki í hug eina mínútu að Kári, sem er vinur minn, hafi visvítandi tekið þátt í að valda manneskjum skaða í stórum stíl eða í auðgunarskyni. Hann eins og margir aðrir læknar gerðu það sem þeir töldu rétt að gera miðað við þær upplýsingar sem þeir töldu þá áreiðanlegar.
Ég fundarstýrði ráðstefnu hjá Geðhjálp í vor – niðurstaða þeirrar ráðstefnu var eða það sem ég dró saman haldbærast úr efni fyrirlesara – Vitað er að það hjálpar fólki með geðrænan vanda að vera úti í náttúrunni og geta deilt reynslu sinni með þeim sem hafa liðið fyrir sömu kvilla. SSRI lyfin eru í raun gagnslaus og valda hugsanlega breytingum til frambúðar á heilastarfsemi okkar-þjóðin getur sett sig í lögsóknargírinn!🙂
Við vitum að læknavísindin hafa í leit sinni að lækningum oft fálmað ut í myrkrið. Kári gengst við því að vita nú betur – vita nú – og það finnst mér einhvers virði.
Ég legg ekki það traust til nokkurrar manneskju að ákveða hvað sé mér fyrir bestu – ég afsala mér aldrei þeirri ábyrgð – því ábyrgðin hérlendis var á endanum í höndum hvers og eins. Ég valdi að fara i tvær bólusetningar og sleppti þeirri þriðju. Ég var nógu skelfd í upphafi til að fara í bólusetningu – ég valdi það. Það var ekki áróður Kára sem hvatti mig til þess heldur ótti við dauðann eða öllu heldur ótti við að deyja frá föðurlausum börnum. Þegar að þriðju sprautu kom taldi ég og þetta var bara gut tilfinning að ég ætti ekki að fara í fleiri – þá fannst mér ég ekki þurfa þess með. Kannski hafði ég bara minni áhyggjur af því að ungviðið gæti ekki spjarað sig án mín 🙂 Og þá voru komnar fram upplýsingar um að nauðsyn bólusetninga allra aldurshópa væri hugsanlega umdeilanleg og eins og oft áður hefðu læknavísindin farið offari í viðleitni sinni til að bjarga mannslífum. Ég valdi að fara ekki í fleiri. Ég get ekki lagst í kenningarfræði eða samsærisrannsóknir – ég hef ekki áhuga á þeim – ég bara veit að það er fjandanum erfiðara að taka ábyrgð á eigin gjörðum – og enn erfiðara að standa með sjálfum sér haldi maður að ákvarðanir þær sem maður hefur tekið séu rangar, án þess að finna til blóraböggul til að hengja vandan á. En það þarf hver manneskja að gera ef hún vill vera heil gagnvart sjálfum sér. I told you so fólkið er ekkert að gera nema upphefja sjálft sig og pússa sitt eigið egó. Það gagnast engum ekki einu sinni þeim sjálfum. Nægar eru geðbólgurnar! Mér hugnast illa þegar fólk er tilbúið til að afsala sér sjálfsábyrgð og finna til sökudólga í friðþægingarskyni. Læknavísindin eru lifandi eins og listin – lotning fyrir þeim er býsna mikil þrátt fyrir að við vitum að margt sem gert er í lækningaskyni er bara leit í myrkri. Fólk ætti í ríkara mæli að treysta innsæi sínu – margir gerðu það í trássi við skoðanir og tilmæli annara. Kannski var það rétt? Það fólk ætti að standa með sjálfu sér án þess að ráðast að þeim sem voru að vinna sitt starf af heiðarleika og í góðri trú, þvi að það er ég sannfærð um að Kári hafi gert og hlífa okkur hinum sem völdum að þiggja bólusetningar. Við höfum ekkert gagn af því að vera sagt að við séum asnar – okkur verður það kunnugt fyrr en síðar – ef sú er reyndin. Ekki vitum við allt enn. Sjálfsábyrgðin er harður húsbóndi en eini húsbóndinn sem er óumflýjanlegur. Að trúa öðru er blekking.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -