Sunnudagur 10. nóvember, 2024
6.1 C
Reykjavik

Völvan 2022: Sigurganga Magnúsar Geirs – barnalán – Steinunn Ólína skrifar bók og veldur usla

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Völvublað Mannlífs kom út fyrir áramót. Til þess að lesa spá völvunnar fyrir komandi ár í heild sinni er hægt að nálgast blaðið hér.

 

Leiklist

 

„Það verður afar þungur róður hjá Borgarleikhúsinu á árinu og fjármálin standa mjög illa eftir síðustu tvö ár. Nýverið óskaði leikhúsið eftir 50 milljóna króna styrk úr ríkissjóði vegna tekjutaps í heimsfaraldrinum. Mér sýnist hins vegar að leikhúsið hafi ekki alveg erindi sem erfiði þar og muni ekki fá alla upphæðina. Mér finnst eins og málið verði tafið í einhverri skriffinnsku í kerfinu – og eins og það verði hugsanlega tafið viljandi. Þetta verður til þess að leikhúsið þarf að taka stóra fjárhagslega áhættu.

Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri er með mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart leikhúsinu þessi misserin, en á sama tíma vill hún brjótast út úr kassanum, verða fyrir innblæstri og vera frjáls sem listamaður. Það mun á næstunni reynast henni þrautin þyngri að sameina listamanninn og leikhússtjórann. Henni finnst erfitt að vera svona bundin niður eins og raunin hefur orðið í þessu starfi í ófyrirséðum heimsfaraldri.

Að endingu mun Brynhildur þó halda ótrauð áfram og ná ákveðnu jafnvægi. Hún verður einhvern veginn beintengd tíðarandanum og þótt árið verði erfitt verður það á sama tíma spennandi. Hún mun gera góða hluti í samræmi við það sem fólk vill sjá akkúrat núna.

- Auglýsing -

Hún fær margar nýjar hugmyndir og mikinn innblástur á seinni hluta ársins og mun gera áhugaverða hluti.

Magnús Geir Þórðarson heldur áfram sigurgöngu sinni í Þjóðleikhúsinu og þetta verður afar jákvætt og sterkt ár þar á bæ. Vinsældirnar verða miklar og margar sýningar munu njóta hylli landsmanna. Í kjölfarið mun Þjóðleikhúsið sópa til sín Grímuverðlaunum, annað árið í röð.

Magnús Geir er almennt séð mjög næmur á tíðarandann, en þetta árið verður hann alveg sérstaklega mikið með puttann á púlsinum. Það er eins og hann sé algjörlega á réttum stað núna. Allt það sem hann gerir á þessu ári hefur yfir sér orku og álög þannig að breytingar verða til frambúðar og fótspor hans mun endast og varðveitast. Þetta þýðir að hverjar þær breytingar sem hann kann að gera á þessu tímabili verða varanlegar, eða að minnsta kosti mjög langlífar.

- Auglýsing -

Magnús Geir hefur engan áhuga á neinu yfirborðskenndu, heldur vill hann fara á dýptina og það mun endurspeglast í verkefnavali Þjóðleikhússins sem og því listafólki sem verður valið til starfa við húsið.

Hann hefur mikinn og djúpan skilning á listinni en líka á mannlegu eðli og trendum og veit hvað fólkið vill. Þetta er hæfileiki sem hann hefur alltaf búið yfir, en hann verður enn betri í því núna – sem mun geta af sér gullöld Þjóðleikhússins. Þjóðleikhúsið verður því í algjörri yfirburðastöðu á árinu.

Leiksýningin Ásta mun vinna til ótal Grímuverðlauna og Birgitta Birgisdóttir hreppir verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki.

Baltasar Kormákur verður áfram á kafi í verkefnum og mun ganga vel. Hann mun í meira mæli miða á slóðirnar sem hann var á í Kötlu og er meðal annars að vinna að framhaldi á þeim þáttum. Ófærð 3 olli vonbrigðum og það endurspeglast í áhorfi og allri gagnrýni. Hann lætur þó engan bilbug á sér finna. Eitthvað virðist vera að gerast í einkalífinu og mér sýnist að þau Sunneva Ása Weisshappel muni tilkynna um fjölgun á nýju ári …

Nína Dögg Filippusdóttir skrifar eða leikstýrir nýju efni á árinu. Þetta eru þættir eða kvikmynd. Það mun ganga mjög vel og hún mun uppskera ríkulega. Hún vinnur til verðlauna fyrir verkið og vekur athygli erlendis.

Þuríður Blær Jóhannsdóttir verður áberandi á árinu, bæði í leikhúsinu og í Reykjavíkurdætrum. Mér sýnist að hún gæti fengið tækifæri erlendis sem lætur hana uppgötva nýja og hrárri hlið á sjálfri sér.

Ástin blómstrar hjá Matthíasi Tryggva Haraldssyni, leikskáldi og Hatara, og Brynhildi Karlsdóttur, sviðslista- og tónlistarkonu. Þau virðast eiga vel saman í lífi og listum og veita hvort öðru mikinn innblástur. Ég ætla að ganga svo langt að segja að það virðist vera frjósemi í kortunum hjá þeim og ég spái því að ástin muni fjölga sér á nýju ári …

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er stödd í tímabili með mjög háu orkustigi og villtu yfirbragði. Þetta gæti falið í sér aukna hvatvísi og æsing. Mér finnst eins og hún muni skrifa eitthvað sem fer öfugt ofan í ansi marga og eftirá mun hún upplifa að hún hafi farið fram úr sér í það skipti. Þetta á sérstaklega við í sumar, þá verður mikill æsingur í kringum hana. Hún gæti virkjað þessa orku með nýju listrænu verkefni sem gæti reynst gjöfult. Mér finnst ég þó sjá töluvert mikið um skrif hjá henni – það eru jafnvel nokkrar líkur á því að hún skrifi bók. Það verður þá umdeild bók.

Nýju þættirnir Verbúðin slá algjörlega í gegn og munu hafa ófyrirséð áhrif á samfélagsumræðuna. Þættirnir hjálpa almenningi að setja sig inn í flókna sögu landsins um fisk og kvóta. Sú skoðun að þjóðin ætti að fá stærri hlut af fiskauðlindinni verður útbreiddari.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -