Laugardagur 15. júní, 2024
14.8 C
Reykjavik

Magnea Gná, yngsti borgarfulltrúi sögunnar: Í skólanum kynntist ég nemum sem höfðu slasast í stríði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Fyrst og fremst vil ég vinna af heilindum í þágu borgarbúa. Ég vil vera málsvari ungs fólks í borgarstjórn og brýna þau sjónarmið sem skipta ungt fólki máli; þar eru húsnæðismálin efst í huga. Það þarf að byggja meira, fjölbreyttara og hraðar til að tryggja það að ungt fólk geti eignast þak yfir höfuðið. Markmiðið er að hrinda framfaramálum í framkvæmd, stuðla að meiri samvinnu og sátt og auka traust til borgarstjórnarinnar,“ segir Magnea Gná Jóhannsdóttir, nýkjörinn borgarfulltrúi Framsóknar og yngsti borgarfulltrúi sögunnar hér á landi.

Hver væri draumurinn hvað væntanlegan meirihluta varðar og hvers vegna?

„Það væri meirihluti þar sem unnið er að þeim stefnumálum sem við í Framsókn höfum lagt áherslu á eins og húsnæðismálin. Ég vil sjá Reykjavík sem er stýrð út frá hagsmunum barna. Við þurfum stóreflingu í dagvistarkerfinu, efla þjónustu við barnafjölskyldur og ekki síst fjölskyldur barna með fötlun og félagsstarf ungmenna til dæmis varðandi ungmennahúsin og hækkun frístundastyrks. Samgöngu- og skipulagsmál eru líka afar brýn en leysa þarf úr umferðarþunganum með eflingu almenningssamgangna samhliða uppbyggingu gatnakerfisins og gera ráð fyrir fjölbreyttum samgöngumáta. Þá þarf að hanna íbúðahverfi þannig að þau séu sem sjálfbærust og huga að umhverfismálum í öllum framkvæmdum. Við þurfum einnig að hlúa að fjölmenningarsamfélaginu þar sem fólki líður vel og tilheyrir í hverfum sínum en einnig borginni sem heild.“

Ég tel ekki heillavænlegt að vera með öfgar til hægri eða vinstri.

Hvers vegna Framsókn?

„Framsókn er miðjuflokkur sem vinnur með samvinnu að leiðarljósi. Ég aðhyllist þá hugmyndafræði og tel best að vera á miðjunni þótt í ákveðnum málum sé maður kannski aðeins til hægri og öðrum aðeins meira til vinstri. Ég tel ekki heillavænlegt að vera með öfgar til hægri eða vinstri en við getum mæst á miðjunni og við þurfum að geta unnið með ólíku fólki og finna grundvöll til að sætta sjónarmið og gera ráð fyrir fjölbreyttum lausnum.“

Magnea Gná Jóhannsdóttir

- Auglýsing -

Mikilvægt að ungt fólk eigi rödd

Magnea segist lengi hafa haft áhuga á stjórnmálum og vinnu í þágu samfélagsins. „Ég fylgdist töluvert með sveitarstjórnarmálum í uppvextinum. Ég tók síðan sjálf virkan þátt í baráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar sem kveikti áhuga minn til að taka enn meiri þátt. Þá hef ég verið virk í Framsókn í Reykjavík síðan ég flutti heim úr námi árið 2018 og tekið þátt í umræðum þar um það sem megi betur fara í Reykjavík og þá sérstaklega fyrir ungt fólk. Þegar komið var að því að stilla upp á lista í Framsóknar ákvað ég að taka af skarið og gefa kost á mér í efstu sætin á lista flokksins. Ég tel mikilvægt að ungt fólk eigi rödd þegar ákvarðanir eru teknar enda mikið af málum á sveitarstjórnarstigi sem snerta ungt fólk beint til dæmis húsnæðis- og leikskólamálin. Ungt fólk er líka sá hópur sem mun erfa ákvarðanatökur dagsins í dag.“

Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri.

Magnea segir að það sem hún hafi lært af því að taka þátt í kosningabaráttu sé hvað samvinna og samheldni skilar miklum árangri. „Kosningabaráttan brýndi fyrir mér mikilvægi grasrótarinnar sem stóð vaktina kvölds og morgna við undirbúning viðburða, móttöku gesta og úthringingar. Ég á baklandinu og grasrót Framsóknar í Reykjavík allt að þakka fyrir árangur Framsóknar í kosningunum. Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem hafa öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Ég fékk líka tækifæri til að tala við marga, heyra ólík sjónarmið borgarbúa á ýmsum málum svo sem þjónustu borgarinnar í hinum ýmsu hverfum og fara í heimsóknir til fyrirtækja, félaga og stofnanna og öðlast um leið mikilvæga innsýn inn í starfsemi, þarfir og áherslur þessara aðila.“

- Auglýsing -

Magnea Gná Jóhannsdóttir

Hvað með langtímamarkmið Magneu varðandi stjórnmálin?

„Að ákvarðanir sem ég tek þátt í verði samfélaginu til hagsbóta. Ég er enn að átta mig á þessu nýja hlutverki. Hvað framtíðin innan stjórnmála ber í skauti sér á enn eftir að koma í ljós. En ég mun gera mitt besta til að rísa undir því trausti sem mér er sýnt og vona að borgarbúar verði duglegir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og láta vita af því hvar gera má betur því við erum í þjónustu þeirra.“

Bjó í Noregi og Taílandi

Magnea fæddist á Landspítalanum árið 1997 en ólst upp á Hanhóli í  Bolungarvík. Foreldrar hennar eru Guðrún Stella Gissurardóttir og Jóhann Hannibalsson og er Magnea ein fjögurra systra. Hinar eru Ásta Björg, Þorsteina Þöll og Salvör Sól.

„Ég man ekki eftir mér öðruvísi en með miklar skoðanir á samfélaginu. Ég hef alltaf verið með mikla réttlætiskennd og brennandi áhuga á samfélagsmálum. Ég á kannski ekki langt að sækja stjórnmálaáhugann því foreldrar mínir hafa bæði verið virk í stjórnmálum um langt skeið og hafa til að mynda bæði setið í bæjarstjórn og komið að ýmsum samfélagsverkefnum. Stjórnmálaumræðan var því alltaf hluti af umræðunni við eldhúsborðið.

Ég átti frekar venjulega barnæsku; æfði sund, prófaði að læra á ýmis hljóðfæri, tók þátt í leikfélaginu, ungliðadeild björgunarsveitarinnar og var í nemendaráði félagsmiðstöðvarinnar og í ungmennaráði. Í grunnskólanum var lögð mikil áhersla á alþjóðasamstarf sem vakti áhuga minn á alþjóðasamvinnu en ég tók þar þátt í Evrópuverkefnum meðal annars um samfélagsfrumkvöðla.

Fékk ég það tækifæri að fara sem fulltrúi Íslands í alþjóðlegan menntaskóla í Noregi.

Eftir stutt stopp í Menntaskólanum á Ísafirði fékk ég það tækifæri að fara sem fulltrúi Íslands í alþjóðlegan menntaskóla í Noregi. Þannig að ég flutti að heiman rétt rúmlega 18 ára. Skólinn sem ég fór í er undir alþjóðaframhaldsskólahreyfingunni United World College sem leggur áherslu á að sameina fólk, þjóðir og menningu fyrir frið og sjálfbæra framtíð í gegnum menntun. Einnig var lögð áhersla á að efla leiðtogafærni og frumkvæði.

Í skólanum voru 200 nemendur frá um það bil 95 löndum. Við bjuggum saman fimm í herbergi og 40 í húsi. Þess var gætt að sem flest þjóðerni ættu sinn fulltrúa og að í hverju herbergi mættust einstaklingar frá ólíkum menningarheimum. Á mínu fyrsta ári var ég til að mynda með stelpum í herbergi frá Síerra Leóne, Kosta Ríku, Frakklandi og Kambódíu. Það spáðu margir í það hér heima hvernig það gengi upp að búa svo þétt með fjórum ókunnugum stelpum í herbergi. En það var í raun ekkert mál. Maður lærir bara að virða þarfir náungans og sýna þeim virðingu. Maður lærir líka að skilja ólíka menningarhætti þjóða og einblína frekar á það sem sameinar okkur í stað þess sem sundrar. Í skólanum kynntist ég nemum sem flúið höfðu stríðshrjáð lönd og svæði, nemendum sem höfðu slasast í stríði og nemendum sem sættu ofsóknum í heimalandi sínu vegna meðal annars kynhneigðar og trúarskoðana. Þetta mótar mann og fær mann til að vilja taka þátt í að móta samfélag þar sem gert er ráð fyrir fjölbreytni og ólíkum þörfum með samvinnu að leiðarljósi. Þá gerði ég mér grein fyrir hversu lýðræðið er mikilvægt og nauðsyn þess að standa vörð um það og efla meðal annars með því að taka þátt í stjórnmálastarfi.

Ég var í stúdentaráði United World College RCN í noregi 2016-2017.

Í skólanum var ég fulltrúi hússins sem ég bjó í á heimavist skólans og í stúdentaráðinu en í því fólust ýmis verkefni svo sem að sinna velferð nemenda sem stundum áttu erfitt með að vera fjarri heimahögum, taka á samskiptavanda og vera tengiliður við yfirstjórn skólans auk þess að gæta að ýmsum umhverfisverkefnum skólans.

Ég var í stúdentaráði United World College RCN í noregi 2016-2017. Það var frábær reynsla og mikil áhersla lögð á lýðræði innan skólans.  Við héldum opna fundi hvern sunnudag fyrir nema skólans þar sem þeir gátu komið sínum málum á framfæri og síðan tókum við boltann og reyndum að finna lausnir á þeim verkefnum sem uppi voru í samstarfið við skólastjórnendur.

Eftir dvölina í Noregi bauðst mér að fara sem starfsnemi til Taílands í eitt ár til aðstoða við að setja á laggirnar UWC skóla og reyna að miðla umburðarlyndi og lýðræðislegum vinnubrögðum í félagsstörfum nemenda. Þar kynntist ég líka asískri menningu og fékk tækifæri til að ferðast um þennan heimshluta og kynnast mismunandi viðhorfum, ólíkum efnahag og svæðum þar sem íbúar búa við slakt velferðarkerfi, skoða skipulag ólíkra borga og bæja og safna í sarpinn kostum og göllum þessara samfélaga.“

Magnea Gná Jóhannsdóttir

Mannréttindi og réttindi barna

Magnea er í meistaranámi í lögfræði við Háskóla Íslands; á fjórða ári. „Ég hef einkum lagt áherslu á áfanga í meistaranáminu sem tengjast mannréttindum og réttindum barna. B.A.-ritgerðin mín var skrifuð á sviði barnaréttar með áherslu á þátttöku barna en ritgerðin fjallar um lækkun kosningaaldurs. Þegar kemur að lögfræðinni væri ég helst til í að vinna innan þess áhugasviðs án þess að vera búin að gera upp hug minn innan hvaða starfsvettvangs það væri.“

Magnea sagði frá verkefnum sínum í Noregi og Taílandi og svo hefur hún tekið þátt í félagsstörfum stúdenta hér heima og gegndi hún embætti alþjóðaritara Orators, félag laganema við Háskóla Íslands, 2021-2022 þar sem hún sá um alþjóðasamstarf laganema. Hún bendir á að lagadeild eigi langa sögu af norrænu samstarfi og samstarfi við bandarískan háskóla í Ohio. Þá sat hún í jafnréttisnefnd Háskóla Íslands 2019-2020.

Það er mikilvægt að ungt fólk hafi vettvang innan stjórnmálanna.

Magnea er formaður Ung Framsókn í Reykjavík. „Það er von mín að starfið muni eflast enn frekar með auknu fylgi í borginni og nýjum borgarmálaflokki og að ungt fólk komi meira að stefnumótun samfélagsins og sinnar framtíðar. Það er mikilvægt að ungt fólk hafi vettvang innan stjórnmálanna þar sem það getur komið sínum sjónarmiðum á framfæri og kynnst starfi stjórnmálaflokka. Áður en ég tók við formennsku í Ung Framsókn hafði ég verið í stjórn félagsins og kynningarstjóri Sambands ungra Framsóknarmanna. Fyrir hönd Sambands ungra Framsóknarmanna hef ég í tvígang tekið þátt í Norðurlandaráði æskunnar.“

Magnea Gná Jóhannsdóttir

Hugleiðsla og núvitund

Hvað með áhugamálin?

Ég hef verið mjög virk í ýmsum félagsstörfum í gegnum tíðina og félagsstarf bæði innan Framsóknar og utan hefur einkennt líf mitt síðustu ár. Þá hef ég sennilega verið í nefnd eða nemendaráði í öllum skólum sem ég hef verið í. Vinir mínir grínast stundum með það hvaða húsfélag ég ætli að bjóða mig fram í næst en líklega er samfélagsáhugunn og viljinn til að breyta og bæta meðfæddur.

Ég fer töluvert í sund og stunda hugleiðslu og núvitund sem ég kynntist þegar ég bjó í Taílandi og hef reynt að halda því við hér heima. Ég hef einnig gaman af útivist og elska að vera úti í náttúrunni. Pabbi er mikil fjallageit þannig ég ólst upp við að klífa fjöll fyrir vestan frá því að ég var farin að ganga. Fjölskyldan mín er mjög náin og samheldin. Ég held að sá dagur líði ekki sem ég tala ekki við foreldra mína og systur og við reynum að eiga eins margar samverustundir og hægt er.“

Heimurinn varð einhvern veginn minni.

Magnea segir að það að flytja ung til útlanda í krefjandi alþjóðlegt nám og umhverfi sé sú lífsreynsla sem hafi mótað sig. „Ég held að ég hafi aldrei lært jafnmikið á skömmum tíma. Í skólanum kynntist ég gjörólíkum menningarheimum sem gat oft verið krefjandi þegar menningarárekstrar áttu sér stað en maður lærir með tímanum að einblína frekar á það sem sameinar okkur í stað þess sem sundrar eins og ég sagði. Tímabilið einkenndist af stanslausri ögrun á gildi mín og viðhorf í lífinu enda fólk þarna saman komið sem hafði allt önnur sjónarmið á lífið og gildi en ég. Það vakti upp ýmsar spurningar hjá mér og varð til þess að ég  horfði út fyrir boxið og ég leit ef til vill heiminn og veröldina öðrum augum á eftir. Heimurinn varð einhvern veginn minni og nær og ég eignaðist á þessum tíma vini í flestum löndum eða landsvæðum veraldarinnar.“

Hverjir eru draumarnir varðandi framtíðina burtséð frá pólitíkinni?

„Að láta gott af mér leiða, vera hamingjusöm og eiga þátt í að aðrir geti líka verið hamingjusamir.“

Magnea Gná Jóhannsdóttir

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -