Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Mikilvægt að skrá öll ferðaplön til að leit geti hafist ef illa fer

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, meistaranemi í líffræði í Háskóla Íslands, var í tvo mánuði á Svalbarða í sumar við rannsóknir á vistfræði plantna á norðurslóðum. Fara þarf mjög varlega vegna ísbjarna og hvellhettur, riffill og neyðarblys eru alltaf meðferðis þegar farið er út fyrir bæinn.

 

„Markmiðið var að öðlast reynslu í því að stunda rannsóknir á heimskautasvæðum, enda er margt öðruvísi í umhverfinu þar en annars staðar í heiminum. Þar er til dæmis sífreri í jarðveginum, sem er nokkurs konar íshella sem liggur stutt undir yfirborði jarðvegarins og kemur þar í veg fyrir að vatn og rætur plantna komist ofan í jarðveginn. Jarðvegurinn getur því heldur ekki drukkið í sig vatn svo vatn flæðir um á yfirborðinu svo það er auðvelt að verða blautur í fæturna ef maður gáir ekki að sér,“ útskýrir Jói, eins og hann er jafnan kallaður, en leiðbeinandi hans í meistaranáminu benti honum á sumarnámskeið sem er kennt við Háskólasetrið á Svalbarða, UNIS – University Centre in Svalbard. Námskeiðið fól í sér nokkurra daga undirbúningsvinnu áður en haldið var í rannsóknarferð með skipi um allan eyjaklasann. Þar gefst nemendunum tækifæri á að gera merkilegar rannsóknir á vistkerfi norðurhjarans undir handleiðslu sérfræðinga.

„Ég um borð í rannsóknarskipinu að taka mynd.“

„Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði, hefur verið með rannsóknir á Svalbarða og hún talaði mjög fallega bæði um þetta námskeið og um staðinn sem slíkan. Ég held að það hafi ekki síður verið aðkallandi fyrir mig að fá að komast í snertingu við náttúruna eins og hún er hvað fjarlægust umsvifum mannsins. Kannski eins og við mátti búast var helsta viðfangsefni námskeiðsins að reyna að komast að því hvernig vistkerfi heimskautanna munu bregðast við loftslagshamförunum sem eiga sér nú stað. Þetta er flókið viðfangsefni en spennandi viðureignar, sérstaklega vegna þess að sífrerinn á norðurslóðum geymir stóran hluta af þeim gróðurhúsalofttegundum sem líklegt er að muni losna út í andrúmsloftið á næstunni. Það, hvernig vistkerfi norðurslóða munu breytast á komandi árum, og hvernig það mun hafa áhrif á sífrerann, er einn af lykilþáttunum þegar kemur að því að spá um afdrif jarðarinnar. Það er þess vegna bæði mjög spennandi að fá að taka þátt í svona rannsókn, en kannski líka svolítið yfirþyrmandi.“

Í nálægð við ísbirni

Á námskeiðinu voru um 20 nemendur frá ýmsum löndum og háskólasetrið er í Longyearbyen, stærsta bænum á Svalbarða. Ef farið er út fyrir hann þarf fólk að hafa meðferðis hvellhettur, riffil og neyðarblys.

„Þegar maður fór eitthvað út fyrir bæinn reyndi maður að gera það í hópum og þá var yfirleitt að minnsta kosti einn sem stóð vörð til að gá að ísbjörnum. Það er hins vegar óhætt að ganga um óvopnaður innanbæjar. Sem betur fer er frekar sjaldgæft að ísbirnir séu til vandræða. Yfirleitt verður fólk þeirra vart á löngu færi og auðvelt er að fæla þá í burtu með hvellhettum eða blysum. Ég þekki engan nemanda sem hefur þurft að skjóta með riffli að ísbirni. Það er hins vegar ekki langt síðan stúlka fórst rétt fyrir utan Longyearbyen í ísbjarnaráras og önnur slapp naumlega undan með því að stökkva niður hátt klettabelti. Maður er meðvitaður um að hættan er alltaf handan við hornið en það er hluti af því að stunda rannsóknir í náttúrunni og maður þarf bara að fara þeim mun varlegar í staðinn,“ segir Jói.

- Auglýsing -
„Þýskt tökulið mætti til að mynda okkur einn daginn sem hluta af heimildaþætti um loftslagsbreytingar.“

„Í íbúðahúsunum eru bækur í anddyrinu þar sem maður skráir niður ferðaplönin sín áður en maður fer út og hvenær áætluð heimkoma er. Ef eitthvað skyldi koma upp á og maður kemur ekki heim á skráðum tíma er hægt að fletta upp í þeim bókum til að hefja leit að manni.“

Aðeins einu sinni í ferðinni lentu Jói og félagar hans í nálægð við ísbjörn. „Hópurinn minn fór í rannsóknarferð lengra norður en Longyearbyen til þess að safna sýnum. Þarna eru auðvitað engir vegir svo við vorum 10 daga á skipi að flakka um eyjaklasann. Við gistum í skipinu en á morgnana fórum við í land með litlum gúmmíbátum sem gátu bara ferjað nokkra í einu. Í fyrsta bát fóru alltaf þeir sem voru í blautgalla eða með riffla. Einn daginn ætluðum við að reyna að lenda í lítilli vík undir fuglabjargi og þennan dag var ég einmitt í fyrsta báti í land.

„Það hefði getað farið illa ef við hefðum farið þarna í land án þess að verða bjarnarins vör.“

Við vorum auðvitað búin að grannskoða strandlengjuna með kíki áður en við fórum af stað en það var samt ekki fyrr en á leiðinni í land sem við fengum neyðarkall í talstöðina að það væri ísbjörn með hún bak við klett inni í víkinni sem við ætluðum að lenda í. Sem betur fer heyrðum við kallið og gátum snúið bátnum við og farið aftur um borð í skipið. Það hefði getað farið illa ef við hefðum farið þarna í land án þess að verða bjarnarins vör. Við breyttum svo bara planinu okkar þennan dag og fórum á annan stað og sendum út boð til annarra rannsóknahópa á svæðinu að þarna væri ekki óhætt að fara um.“

- Auglýsing -

Fór á „heimskautaeyðimörkina“

Jói segir að ferðin í heild sinni hafi verið alveg ótrúlega skemmtileg. „Flestir sem búa á Svalbarða eru ungir vísindamenn sem vinna að umhverfisrannsóknum þarna. Stemningin er þess vegna mjög góð því flestir hugsa á svipuðum nótum og fást við sömu vandamál í sínum störfum. Nánast allir sem búa á Svalbarða búa í Longyearbyen þar sem við vorum. Þetta er lítið samfélag og maður er fljótur að kynnast fólki,“ segir Jói sem bjó í gömlum kolanámumannabústað þar sem voru herbergi fyrir nemendur. Húsið er innarlega í dalnum sem Longyearbyen stendur í og það var um 30 mínútna gangur þangað að háskólasetrinu. „Staðurinn er mjög fallegur, innst í dalnum eru tveir skriðjöklar sem skríða niður í dalinn og hlíðar fjallanna eru brattar. Á veturna þarf stundum að rýma húsin á þessu svæði vegna snjóflóðahættu og eitt húsið brotnaði í óveðri um jólin fyrir nokkrum árum, sem betur fer án þess að nokkrum yrði meint af. Á sumrin er hins vegar ekki hætta á svona óveðrum þannig ég gat sofið rólegur.“

Jói var á Svalbarða á heimskautadegi en þá er bjart allan sólarhringinn. „Við Íslendingar könnumst ágætlega við það að hafa bjart á nóttunni en þarna sást raunverulega ekki munur á degi og nóttu. Það voru auðvitað viðbrigði að hafa svona mikla sól á nóttunni. Maður þurfti jafnvel að stilla vekjaraklukku til að minna sig á að fara að sofa. Mér fannst mjög þægilegt að hafa alltaf svona bjart en margir áttu erfitt með svefn. Hins vegar get ég ímyndað mér að það sé mjög erfitt að vera þarna yfir háveturinn þegar sólin rís ekki í nokkra mánuði.“

„Ég og rannsóknarhópurinn minn. Við skoðuðum þróun plantna á heimskautasvæðum.“

Jói var mestan hluta dvalarinnar í Longyearbyen en fór í áðurnefnda rannsóknarferð þar sem siglt var um eyjaklasann eins og komist var vegna hafíss. „Við komumst upp fyrir 80°N þar sem er að finna nyrsta landvistkerfi jarðar – „heimskautaeyðimörkina“ eða „lífbelti A“ eins og það er kallað á vísindamáli. Fyrir utan rannsóknarsiglinguna fór ég ekki nema bara í fjallgöngur og gönguferðir í næstu dali við Longyearbyen. Á Svalbarða eru nánast engir vegir og þeir vegir sem eru til staðar eru erfiðir yfirferðar og liggja ekki nema nokkra kílómetra frá bænum. Ferðamenn sem koma óundirbúnir til Svalbarða átta sig ekki alltaf á þessu. Til þess að komast um þurfa þeir að taka skip, þyrlu eða fara fótgangandi með vopnaðan leiðsögumann.“

Víða soltin hreindýr

Jóa fannst heillandi að upplifa heilu dagana í nánast ósnortnum víðernum þar sem ekki sást til áhrifa mannshandarinnar. „Það var ekki verra að fá að vinna að rannsóknum sem leiða í ljós nýja þekkingu í því hvað framtíð heimskautsins ber í skauti sér. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að fá að upplifa þetta með hóp af fólki sem var í sömu sporum og ég og hugsaði á sama hátt. Þetta hefði ekki verið söm upplifun án þeirra. Erfiðast fannst mér að vera sífellt áminntur um hvernig maðurinn hefur farið með jörðina. Loftslagshamfarir ollu því að síðasta vetur höfðu komið mikil hlýindi í desember svo hitastigið fór upp fyrir 0°C og mikið rigndi, nokkuð sem á ekki að gerast svo norðarlega. Vegna þessa bráðnaði snjór í desember og fraus svo aftur sem klakalag ofan á snjónum og hreindýr gátu ekki krafsað sig í gegnum klakann. Þessi vetur var hreindýrum sá versti sem menn þekkja sögur af og hvert sem maður fór fann maður hræ af soltnum hreindýrum,“ segir Jói og bætir við að áminningarnar hafi verið endalausar. „Fyrir utan gluggann minn bjuggu tegundir sem eru annaðhvort útdauðar eða að hverfa frá Íslandi vegna hlýnunar, til dæmis voru björgin fyrir ofan hlíðina þéttsetin haftyrðli, litlum krúttlegum fiðurhnoðra sem verpir ekki lengur við Ísland vegna hlýnunar. Svo óx fjallkrækill fyrir utan hjá mér, planta sem hverfur væntanlega af Íslandi fyrir fullt og allt á næstunni vegna hlýnunar.

„Jafnvel á fjarlægum ströndum Svalbarða gat maður safnað saman heilum haugi af rusli sem hafði skolað á land.“

Fleira kom svo til. Jafnvel á fjarlægum ströndum Svalbarða gat maður safnað saman heilum haugi af rusli sem hafði skolað á land. Mengunarefni safnast fyrir á norðurslóðum og valda usla í fæðuvefnum þar.“

„Þurfum að breyta okkar háttum strax“

Samhliða náminu vinnur Jói við rannsóknir og kennslu í HÍ og að auki í fræðsludeild Fjölskyldu- og húsdýragarðsins þar sem hann tekur á móti grunnskólum og leikskólum. Hann er einnig liðtækur í borðtennis og hefur unnið marga titla á þeim vettvangi. „Ég hef spilað borðtennis síðan ég var smástrákur. Mamma og pabbi kynntust í borðtennis og við systkinin, þrír strákar og ein stelpa, höfum öll spilað borðtennis og meira að segja öll orðið Íslandsmeistarar í unglingaflokkum. Ég spila og æfi enn þá bæði með landsliðinu og félaginu mínu BH í Hafnarfirði. Það gekk allt eins og í sögu hjá mér á síðasta tímabili og við í Hafnarfirðinum höfum titil að verja. Ég mæti aftur á keppnisvöllinn í haust.“

„Mamma og pabbi kynntust í borðtennis og við systkinin, þrír strákar og ein stelpa, höfum öll spilað borðtennis og meira að segja öll orðið Íslandsmeistarar í unglingaflokkum.“

En hvaðan kemur nafnið Urbancic? „Nafnið kemur frá Austurríki. Langafi minn og -amma flúðu hingað með börnin sín í seinni heimstyrjöldinni og náðu að koma sér fyrir. Síðan þá hefur ættin dreift aðeins úr sér aftur, einhverjir sneru aftur til Austurríkis, aðrir fóru til Bandaríkjanna en afi minn hélt til hér áfram með foreldrum sínum. Við erum nokkuð mörg hérna á Íslandi og það er líklegt að fólk í tónlist eða leiklist hafi heyrt um eða þekki einhverja af Urbancic-ættinni.“

„Hópsfélagi minn á ísbjarnavakt á meðan á sýnatöku stóð. Útsýnið er ekki amalegt þarna.“

Hann segist hafa lært heilmikið um sjálfan sig við dvölina á Svalbarða. „Ég hafði heyrt marga segja það áður en þeir fóru til Svalbarða eða í svipaða rannsóknarför og ég trúði því eiginlega ekki fyrr en ég fór. Maður öðlast þá sýn á heiminn, að maðurinn verði að bera meiri virðingu fyrir jörðinni. Við vitum alveg hvað við erum að gera jörðinni og þurfum að breyta okkar háttum strax,“ segir Jói ákveðinn.

Hann mun síðan klára námið á næstunni og er ekki farinn að skipulegggja næstu skref. „Ég mun halda áfram að taka á móti skólum og leikskólum í Húsdýragarðinum í vetur og svo í Sjóferðum um sundin í vor sem er stutt sjósigling sem er í boði fyrir grunnskóla í Faxaflóanum. Annað mun bara koma í ljós. Ég hef yfirleitt of mikið að gera en of lítið svo ég hef ekki áhyggjur af því að enda verkefnalaus í framtíðinni,“ segir hann að lokum.

Myndir / Aðsendar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -