Sunnudagur 14. apríl, 2024
-1.9 C
Reykjavik

Nýjasta tónlistarmyndband Justin Timberlake tekið í einu skoti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake frumsýndi myndband við nýjasta lag sitt, Say Something, fyrir helgi. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að myndbandið var allt tekið í einu skoti, svokallað single shot video. Lagið er á væntanlegri plötu Justins, Man of the Woods, sem kemur út 2. febrúar næstkomandi.

Justin leitaði til La Blogothèque til verksins, en það er samvinnuverkefni ýmissa kvikmyndagerðarmanna með bækistöðvar í París. Fyrrnefndir kvikmyndagerðarmenn eru þekktastir fyrir tónlistarmyndbönd sem tekin eru í einu skoti, til að mynda Start a War með The National og Marry Me með St. Vincent. Hingað til hafði fyrirtækið tekið upp myndbönd fyrir listamenn á barmi heimsfrægðar en myndbandið við Say Something er dýrasta og metnaðarfyllsta verkefni La Blogothèque frá stofnun þess fyrir um áratug.

„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung“

Í viðtali við tímaritið Esquire segir Arturo Perez Jr., leikstjóri Say Something, að margar vikur hafi farið í skipulagningu verkefnisins.

„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung,“ segir hann og bætir við að Justin hafi lagt mikla áherslu á að vera einlægur í myndbandinu.

„Það er svo mikið í húfi oft þegar unnið er með svona vinsælum listamönnum. Og ég verð að hrósa honum fyrir það að hann vildi vera berskjaldaður.“

Gekk um eins og brjáluð manneskja

Arturo valdi að taka myndbandið upp í hinni frægu Bradbury-byggingu í Los Angeles, sem er hvað þekktust fyrir að leika stórt hlutverk í kvikmyndinni Blade Runner. Arturo stúderaði lagið Say Something og fannst byggingin passa við texta lagsins, eins konar völundarhús heilans. Undirbúningur fyrir tökur á myndbandinu tók tvær vikur.

- Auglýsing -

„Ég gekk um Bradbury-bygginguna í tvo og hálfan dag – ég bara gekk um eins og brjáluð manneskja. Við gengum og gengum og töluðum um þetta,“ segir Arturo í viðtali við Esquire og bætir við að hann og teymið hans hafi ekki viljað að myndbandið yrði kynningarbrella fyrir tónlistarmanninn.

„Við fáum ekkert út úr því að skjóta myndband í einni töku. Við fáum eitthvað út úr því að búa til ljóð.“

Justin Timberlake og Chris Stapleton.

Tónlistin tekin upp um leið

Á tökudegi unnu tvö hundruð manns við myndbandið, þar á meðal sautján tónlistarmenn og sextíu manna kór. Tónlistin var nefnilega tekin upp á staðnum þannig að þetta er í raun meira en bara myndband sem tekið er í einni töku. Þetta er líka lag sem hljóðritað er í einni töku. Æfingar hófust klukkan ellefu um morguninn en tökuliðið hafði aðeins tíu mínútur til að taka upp myndbandið til að ná djúpbláum lit næturhiminsins í gegnum glugga Bradbury-byggingarinnar. Og það tókst.

- Auglýsing -

„Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta er fyrsta og eina takan okkar að kvöldi til. Þetta er Justin Timberlake, fjandakornið. Gaurinn er fagmaður. Og Chris Stapleton var svo góður. Ég veit ekki hvort hann vissi nákvæmlega hvað var á seyði en hann er listamaður og bara gerði þetta,“ segir Arturo og vísar í bandaríska tónlistarmanninn Chris Stapleton sem flytur lagið með Justin.

Útkoman er vægast sagt áhrifamikil en það er oft sagt að tónlistarmyndbönd, atriði, stuttmyndir eða myndir í fullri lengd séu eins konar manndómsvígsla fyrir kvikmyndagerðarmenn. Það er mikil kúnst að taka upp á þennan hátt og er það viss gæðastimpill fyrir kvikmyndagerðarmanninn ef vel tekst til.

Nokkrar myndir í fullri lengd hafa verið teknar í einni töku, til dæmis Timecode frá árinu 2000, Russian Ark frá árinu 2002, PVC-1 frá árinu 2007 og Victoria frá árinu 2015. Þá vildi goðsagnakenndi leikstjórinn Alfred Hitchcock láta virðast sem kvikmyndin Rope frá árinu 1948 væri tekin í einni töku. Hins vegar voru myndavélar á þeim tíma ekki nógu fullkomnar til að taka upp í svo langan tíma. Hver myndavél gat einungis tekið upp 1000 fet á 35 millimetra filmu í einu, eða í um það bil tíu mínútur. Öll myndin var því tekin upp í ellefu skotum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -