Miðvikudagur 19. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Ofbeldi af þessu tagi á ekkert skylt við ástríðu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árlega eru áttatíu og sjö þúsund konur drepnar í heiminum og helmingur þeirra fellur fyrir hendi maka, fyrrverandi maka eða einhverjum úr fjölskyldu sinni. Umfang ofbeldis gegn konum er slíkt að því er líkt við faraldur. Fjallað var ítarlega um málið í nýjasta Mannlífi.

Margir fjölmiðlar hafa fjallað um þessi mál og nefna má að nýlega var í Guardian grein um þessi mál. Blaðamaður þar hefur eftir Elizabeth Yardley, prófessor í afbrotafræði við Birminghamháskóla, að langur aðdragandi sé að þessum morðum.

Ofbeldi af þessu tagi eigi ekkert skylt við ástríðu eða ástríðuglæpi eins og áður var gjarnan talið. Ofbeldismenn séu ekki skapbráðir menn sem missi skyndilega stjórn á sér sé þeim ögrað. Þvert á móti sé að baki langvarandi líkamlegt og andlegt ofbeldi sem oft leiði til einangrunar þess sem fyrir því verður.

Byrjar smátt en stigmagnast hratt

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að heimilisofbeldi er langt í frá fyrirvaralaust og ósjálfráð viðbrögð við einhvers konar áreiti. Þvert á móti eru flestir ofbeldismenn mjög meðvitaðir um þær aðferðir sem þeir beita og margir hafa þróað þær á löngum tíma. Til dæmis má nefna að þeir sýna allir sínar bestu hliðar þar til þeir hafa fest sig í sessi, eru fluttir inn, giftir konunum eða þær barnshafandi eftir þá. Þeir byrja á að brjóta þær niður andlega og einangra eins og hægt er. Þetta er gert með því að kenna þeim ævinlega um það sem miður fer í sambandinu.

Ofbeldið byrjar venjulega smátt en stig magnast hratt. Hrindingar, spörk og kinnhestar verða fljótt að hnefahöggum. Í byrjun gæta þeir þess vandlega að þyngstu höggin lendi þar sem enginn sér, þ.e. á búk, fótum eða handleggjum. Það er ekki fyrr en ástandið er orðið mjög slæmt að þeir taka að kýla í andlit eða berja konur í höfuðið. Þeir gæta þess einnig vel að enginn verði vitni að hvorki þeim andlegu né líkamlegu pyntingun sem þeir beita konur sínar. Þetta sýnir góða skipulagningu og umtalsverða yfirvegun.

- Auglýsing -

Oftast magnast ofbeldið þegar konan er barnshafandi. Það fer í taugarnar á karlinum að konan sé upptekin af því sem er að gerast í líkama hennar og hafi tilfinningar til barnsins. Þess eru mörg dæmi að ofbeldismenn hafi beinlínis drepið eigin börn í móðurkviði. „Hvernig geta menn gert slíkt?“ spyrja eflaust margir.

Samkvæmt rannsóknum eiga þessir menn allir erfitt með að setja sig í spor annarra. Þeir hafa litla hæfni til meðlíðunar og mikla stjórnunarþörf. Að auki taka þeir enga ábyrgð á eigin gerð ­um. Þeir vita vissu ­lega að þetta er rangt en eru fullkomlega sannfærðir um að konan hafi kallað þetta yfir sig. Hún hafi ögrað þeim og ýtt þeim yfir einhverja brún þar sem þeir misstu alla stjórn.

Lykillinn að því að því að ofbeldismaður láti af hegðun sinni er að hann geri sér grein fyrir því að engu skiptir hvað fer á undan. Það er alltaf sá sem reiðir höndina til höggs sem ber ábyrgð á ofbeldinu og aldrei er ásættanlegt að grípa til barsmíða til að ná fram vilja sínum í mannlegum samskiptum.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Ólíkar birtingarmyndir heimilisofbeldis

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -