Miðvikudagur 21. febrúar, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Ólöf Helga var rekin úr starfi hjá Icelandair: „Ég verð að viðurkenna að ég er náttúrlega mannleg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, trúnaðarkonu í hlaðdeild Icelandair á Reykjavíkurflugvelli, var sagt upp störfum í ágúst. Á þeim tíma var hún í viðræðum um réttindamál starfsfólks. Hún er 32 ára, einhleyp móðir – á 14 ára gamla dóttur – og segist hafa áhuga á skotveiði, stangveiði, flugi útivist og ljósmyndun.

„Ég var búin að vera trúnaðarmaður í rúm þrjú ár og undanfarna mánuði hafði ég verið að vinna í ákveðnum málum fyrir hlaðdeildina, bæði varðandi breytingu á vaktaplani og svo færslu á ákveðnu starfi sem snýr að þjónustu við hreyfihamlaða farþega. Í rauninni var ég í sumarfríi þegar ég fékk símtal frá yfirmanninum mínum um að ég ætti von á uppsagnarbréfi; ég var í heimsókn hjá félögum mínum í hlaðdeildinni og var því á Reykjavíkurflugvelli. Ég fékk svo uppsagnarbréfið í hendurnar fimm dögum seinna. Ég hef ekki fengið neinar almennilegar ástæður fyrir uppsögninni nema að stöðvarstjórinn nefndi í símtalinu við mig að um trúnaðarbrest væri að ræða og tilkynnti svo samstarfsfólki mínu að mér hafi verið sagt upp störfum vegna alvarlegs trúnaðarbrests. Ég fékk síðan þær upplýsingar á fundi að ástæða uppsagnarinnar væru samskiptaerfiðleikar sem ég tel ekki nægilega góða ástæðu til þess að segja upp trúnaðarmanni. Icelandair heldur því fram að þau hafi ekki vitað að ég væri trúnaðarmaður þrátt fyrir að ég sé búin að vera í stöðugum samskiptum við þau sem trúnaðarmaður síðastliðna mánuði vegna ágreiningsmálanna sem ég nefndi áðan. Ef ég hefði aðgang að tölvupóstinum mínum hjá flugfélaginu þá gæti ég sýnt fram á það að Icelandair vissi sannarlega að ég var trúnaðarmaður og var í virkri réttindagæslu fyrir samstarfsmenn mína. Svo var ég líka öryggistrúnaðarmaður frá september 2020 og hefur Efling það staðfest frá vinnueftirlitinu að ég var skráður öryggistrúnaðarmaður.“

Icelandair heldur því fram að þau hafi ekki vitað að ég væri trúnaðarmaðuR.

Ólöf Helga kannast ekki við trúnaðarbrest í starfi og þegar hún er spurð um samskiptaerfiðleika segir hún: „Ég verð að viðurkenna að ég er náttúrlega mannleg og ég get alveg hafa verið pirruð einhvern tímann; sérstaklega þegar við vorum í miðri baráttu um réttindamál þar sem ég, fyrir hönd hlaðdeildarinnar, mótmælti því að Icelandair gæti einhliða ákveðið að setja ábyrgð á starfi sem tilheyrir annarri deild yfir á okkar deild bara af því að þeim datt það í hug. Starfið sem um ræðir er mikilvægt og allir starfsmenn sammála um mikilvægi þess að sinna því starfi vel en tækjakostur til verksins er ekki viðunandi og starfið í rauninni hættulegt. Ég tel þá hvernig breytingin var tilkynnt hafa skapað mjög erfitt andrúmsloft en það var gert þannig að yfirmenn ákváðu þessa breytingu einhliða og kynntu hana þannig að starfsfólk var kallað á fund og okkur tilkynnt að frá þeim degi væri starfið á okkar ábyrgð; ekkert samtal heldur bara ákvörðun sem yfirmenn tóku. Stöðvarstjórinn setti sig ítrekað inn í þetta mál með þeim hætti að banna þeirri deild sem að okkar mati ber ábyrgð á starfinu að taka þátt í að sinna því þrátt fyrir að hennar yfirmaður hefði staðfest við mig að á meðan deilur stæðu yfir þá yrði þetta starf unnið í samvinnu deildanna tveggja. Ég er mannleg og get átt erfiða daga eins og aðrir en ég get ekki samþykkt það að ég sé erfiðari í samskiptum en aðrir. Ég get að sjálfsögðu ekki sagt að ég hafi aldrei verið hvöss við neinn en ekki þannig að það geti réttlætt það að mér sé sagt upp.“

Ólöf er spurð hvort kvartað hafi verið yfir henni vegna slíks. „Já, ég var búin að eiga samtal við yfirmann þar sem við fórum yfir svona mál en það var ekkert þannig að ég hafi fengið skriflega áminningu. Yfirmaðurinn tók nokkur dæmi og sagði meira að segja að hlaðdeildin væri orðin hrædd við mig en samstarfsmenn mínir í hlaðdeildinni kannast ekki við það. Ég veit ekki hversu mikill sannleikur er á bak við það sem yfirmaðurinn sagði.“

Ég er mannleg og get átt erfiða daga eins og aðrir en ég get ekki samþykkt það að ég sé erfiðari í samskiptum en aðrir.

Ólöf Helga Adolfsdóttir
Mynd: Þórunn Hafstað.

 

Stóð sig vel í vinnu

- Auglýsing -

Ólöf segist telja að ástæða uppsagnarinnar sé að hún sem trúnaðarmaður hafi verið að spyrna við fótum þegar reynt var að bæta verkefnum á starfsmenn hlaðdeildarinnar.

„Það er búið að fækka starfsfólki í hlaðdeildinni um helming á síðustu tveimur árum og svo er búið að vera að bæta á okkur störfum og þegar einhver sagði „nei“ þá virðist þetta hafa verið einfaldasta lausnin hjá þeim. Á fundi um ástæður uppsagnarinnar var margoft sagt að uppsögnin snerist ekki um hvernig ég væri að vinna; ég væri að standa mig vel í vinnu og var mér sagt að þau væru mjög ánægð með mig sem starfsmann. Þannig að ég get ekki séð neina aðra ástæðu heldur en störf mín sem trúnaðarmaður en sem slíkur á ég að njóta verndar og þess vegna er þetta svolítið alvarlegt og mikilvægt mál til að skera úr um það og sýna Icelandair að þeir verði að fara eftir lögum og reglum. Þau hjá Icelandair hafa ekki getað sýnt fram á neitt um að ég hafi gerst brotleg í starfi en áður en þau hefðu sagt mér upp hefði þurft að láta mig fá allavega skriflega áminningu þar sem mér hefði verið gert það ljóst að ef ég lagaði ekki hegðun mína, ef samskiptaerfiðleikar væru ástæða uppsagnarinnar, þá ætti ég von á uppsögn. En það var ekkert svoleiðis.“

Þau hjá Icelandair hafa ekki getað sýnt fram á neitt um að ég hafi gerst brotleg í starf.

 

- Auglýsing -

Fer væntanlega fyrir Félagsdóm

Rúmur mánuður er síðan Ólöfu var sagt upp og síðan þá hefur til dæmis lögmaður hennar og trúnaðarráð Eflingar sent áskoranir til Icelandair um að draga uppsögnina til baka. „Við höfum verið mjög þolinmóð í rúman mánuð að bíða eftir svörum frá þeim en við fengum loksins svör um að það ætti ekki að draga þessa uppsögn til baka. Þá er ekkert annað í stöðunni en að vekja athygli á þessu og fara svo með þetta fyrir Félagsdóm. Það er mikilvægt að það sé alveg á hreinu að þetta hafi verið ólöglegt.“ Búið er að opna vefsíðu um málið til stuðnings Ólöfu: https://www.efling.is/vid-stydjum-olofu-og-hladmenn-a-reykjavikurflugvelli/

Þá er ekkert annað í stöðunni en að vekja athygli á þessu og fara svo með þetta fyrir Félagsdóm.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi trúnaðarráðs Eflingar síðastliðinn fimmtudag:

„Við, meðlimir í Trúnaðarráði Eflingar, lýsum yfir fullri samstöðu með félaga okkar Ólöfu Helgu Adolfsdóttur trúnaðarmanni Eflingarfélaga í hlaðdeild á Reykjavíkurflugvelli.

Við mótmælum því að Icelandair hafi sagt henni upp störfum á sama tíma og hún var sem trúnaðarmaður í viðræðum við fyrirtækið fyrir hönd vinnufélaga sinna um kjaramál þeirra. Slíkt er ólöglegt og felur í sér árás á félagsleg réttindi verkafólks.

Við lýsum einnig stuðningi og samstöðu með baráttu vinnufélaga Ólafar. Þeir hafa slegið skjaldborg um hana og þannig um leið réttindi okkar allra. Þeir hafa sýnt Ólöfu að hún stendur ekki ein og við sýnum hlaðmönnum á Reykjavíkurflugvelli að þeir standa ekki einir.

Atlaga að einum er atlaga að öllum.“

Starfsmenn í hlaðdeild Icelandair á Reykjavíkurflugvelli skrifuðu 3. október undir yfirlýsingu til forstjóra Icelandair þar sem segir meðal annars: „Í samtölum við fyrirtækið um okkar mál höfum við haft öflugan trúnaðarmann. Hún heitir Ólöf Helga Adolfsdóttir og er félagi okkar og vinur. Hún hefur talað máli okkar og staðið vörð um réttindi okkar samkvæmt gerðum kjarasamningi. Það er hennar hlutverk og það hefur hún gert vel. Nú hafa stjórnendur úr fyrirtækinu þínu rekið Ólöfu úr vinnu. Að reka trúnaðarmann okkar Ólöfu úr starfi er árás á hana og á okkur alla.“ Síðar í yfirlýsingunni segir: „Við krefjumst þess að Icelandair dragi til baka uppsögn Ólafar Helgu Adolfsdóttur.“

Að reka trúnaðarmann okkar Ólöfu úr starfi er árás á hana og á okkur alla.

Blaðamaður hafði samband við Icelandair sem sendi þetta svar: „Við hörmum að Efling hafi ákveðið að reka þetta viðkvæma mál í fjölmiðlum. Staðreyndin er sú að Icelandair er ósammála túlkun Eflingar og aðila greinir á um ákveðin efnisatriði málsins, svo sem það að viðkomandi starfsmaður hafi verið trúnaðarmaður þegar til uppsagnar kom. Að öðru leyti getum við því miður ekki rætt einstök starfsmannamál opinberlega en þetta tiltekna mál er í farvegi.“

Við hörmum að Efling hafi ákveðið að reka þetta viðkvæma mál í fjölmiðlum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -