Föstudagur 6. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Ómar Már var á leið í land þegar snjóflóðið féll: Hryllingurinn eftir snjóflóðið sker enn í hjartað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við vorum á leiðinni í land á Bessa ÍS 410 og vorum að gera við trollið sem hafði rifnað og það var svo mikið aftakaveður að maður fékk hellur fyrir eyrun á dekkinu. Það er eftirminnilegt hvað veðrið var vont. Þegar við nálguðumst höfnina taldi skipstjórinn að það væri of vont í sjóinn og of blint til að leggjast að höfninni. Síðan komu skilaboð úr brúnni að það hafi fallið snjóflóð á miðja Súðavík. Það fyrsta sem ég hugsaði með mér var að foreldrar mínir bjuggu í miðri Súðavík og systir mín með sína fjölskyldu þar rétt hjá,“ segir Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins til borgarstjórnar, í viðtali við Mannlíf, þegar hann rifjar upp þegar snjóflóðið féll á Súðavík árið 1995.

„Hafsteinn Númason var einnig um borð og húsið hans og fjölskyldu var líka á því svæði. Maður var í óvissu í töluverðan tíma um hversu alvarlegt þetta var og engin leið að vita hversu mörg hús hefðu orðið fyrir flóðinu. Það eina sem við gátum gert var að reyna að lýsa með ljóskösturum á svæðið sem við töldum að snjóflóðið hefði fallið á því leitarfólk var komið til Súðavíkur til að leita og aðstoða þá sem náðu að koma sér sjálfir úr flóðinu.“

Snjóflóðið féll á miðja Súðavík 16. janúar árið 1995 kl. 06.25. Það var staðfest með því að klukka sem var í pósthúsinu sem flóðið féll einnig á hafði stöðvast þá.

Ómar Már Jónsson

Stór hluti úr byggðinni var bara farinn.

Ómar Már Jónsson var á þessum tíma II stýrimaður á Bessanum og segir hann að þeir Hafsteinn hafi viljað komast í land til að huga að sínum nánustu. „Við sigldum síðan innar í fjörðinn og vorum þar ferjaðir með tuðru yfir í minna skip sem gat komið okkur að höfninni. Er á höfnina var komið var blindhríð en báðir leituðumst við að horfa upp í byggðina til að athuga með hús okkar nánustu, hvort þau hefðu orðið fyrir flóðinu. Ég var að athuga hvort ég sæi í sortanum hús foreldra minna og hús systur minnar og Hafsteinn var að skima eftir sínu húsi. Það var algjörlega blint þegar við komum á höfnina og maður sá ekki langt en stuttu eftir að við lögðum af stað í átt að frystihúsinu datt allt í einu allt í dúnalogn og þá sáum við hversu alvarlegt þetta var. Stór hluti úr byggðinni var bara farinn. Maður sá útlínur flóðsins og skemmdirnar og bara það hörmulega atvik sem þarna hafði orðið. Við fórum strax upp í frystihúsið. Fagranesið hafði komið rétt áður með lækna, hjúkrunarlið, leitarfólk og leitarhunda og var verið að flytja inn í frysthúsið fólk sem var verið að finna.“

 

- Auglýsing -

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

- Auglýsing -

 

 

Lést eins og hálfs árs

Ómar Már hitti mág sinn sem var lítillega slasaður en systir Ómars hafði verið flutt um borð í Fagranesið sem átti að sigla til Ísafjarðar. Tvær dætur þeirra voru ófundnar.

„Ég fór um borð í Fagranesið og var dálítinn tíma hjá systur minni en hún var í miklu áfalli af að vita ekki um afdrif barnanna þeirra tveggja. Síðan fór ég aftur upp eftir og hjálpaði til eins og ég gat. Ég fór svo með Fagranesinu síðar til Ísafjarðar en þá var farið með þá sem voru slasaðir ásamt hópi af Súðvíkingum sem vildu komast frá staðnum. Þetta var svakalegasta sjóferð sem ég hef nokkurn tímann farið í,“ segir Ómar Már en allir voru eðlilega í miklu áfalli.

Önnur þeirra var ósködduð. Hin látin.

Hann segist hafa búið á Ísafirði á þessum tíma. Sá síðasti sem fannst á lífi var 12 ára gamall drengur sem fannst um sólarhring eftir að flóðið féll. Systurdætur hans fundust báðar. Önnur þeirra var ósködduð. Hin látin. Sú var tæplega eins og hálfs árs.

Þegar allir voru fundir og veður orðið betra hófst hreinsunarstarf.

„Þá var ég í því í nokkra daga að grafa í rústum húsa systur minnar og fjölskyldu hennar og svo hjá foreldrum fyrrverandi mágs míns. Þarna skipti miklu máli að finna sem mest af persónulegum eigum – myndir, myndabandsupptökur og fleira; persónulega munum sem skiptu miklu máli: Myndir og bara einföldustu hlutir sem höfðu verið í eigu fjölskyldnanna.“

 

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar skuldir,

svo sem vér og fyrirgefum

vorum skuldunautum.

 

 

Svöðusár

Áfallið var svo mikið að Ómar Már segist hafa sett á sjálfstýringu. „Allar tilfinningar og allt þetta mannlega var eiginlega pínulítið sett á „hold“. Maður fór inn í þessa atburðarás og reyndi að gera sitt besta og gera mikið af því og reyna að hjálpa, styðja við og gera lífið léttbærara fyrir alla. Ég veit ekki einu sinni hversu lengi ég var á þessari sjálfstýringu. Það voru einhverjar vikur. Ég man að með okkur var áfallasérfræðingur sem var nýfarinn að veita áfallahjálp sem var tiltölulega nýtt á þessum tíma og hann tók okkur inn á milli í samtöl og spurði meðal annars hvernig okkur liði. Ég hafði enga líðan. Maður var ekki í stöðu til þess að tjá sig um það hvernig manni leið. Það var hægt að nýta mann til þess að hjálpa og þannig keyrði maður sig áfram. Svo get ég sagt þér að í þrjú til fjögur ár var ég að fá eitthvað sem gæti kallast eðlileg viðbrögð við jafnmiklu áfalli; þar sem maður grét yfir því sem hafði gerst.“

Þögn.

„Þar sem maður í rauninni var bara pínulítill í sér og mér fannst ég vera vanmáttugur gagnvart náttúruöflunum og því sem hafði gerst.“

Það þarf að lifa með þessu og það gengur misjafnlega hjá fólki að gera það.

Ómar Már þekkti nánast alla sem bjuggu í Súðavík. „Þetta voru vinir manns, kunningjar og samferðafólk í lífinu. Þetta er eitthvað sem enginn hristir af sér. Þetta er ekki eitthvað sem grær. Það þarf að lifa með þessu og það gengur misjafnlega hjá fólki að gera það. Þetta er hluti af manni og maður aðskilur hann aldrei frá sér. Það sem ég tók út úr þessu er að virða hvern dag og verða betri útgáfa af sjálfum mér, að vera hæfari til að taksat á við verkefni og styðja við aðra, sína nánustu, börnin og að undirbúa þau sem best undir lífið til að þau séu sem hæfust til að takast á við þau verkefni sem þau eru í eða eiga eftir að taka sér fyrir hendur.“

Hann er trúaður og hann bað til Guðs á þessum erfiðu tímum.

„Ég fann hvað ég var vanmáttugur og hvað ég er í rauninni lítill og þá sótti ég styrk í eitthvað sem er mér æðra. Eitthvað stærra. Eitthvað meira.“

Þögn.

„Það veitti mér styrk á þessum tíma.“

Bað hann ákveðinnar bænar?

„Það var í sjálfu sér heimatilbúin bæn og Faðirvorið. Ég bað fyrir þeim sem áttu um sárt að binda.“

Svöðusárið var djúpt í miðjum bænum.

„Ég var á sjónum eftir þetta og það var alltaf stingur í hjartanu þegar við vorum að koma í land en þá sá maður byggðina frá sjó og sá skarðið sem hafði verið hoggið í bæinn. Það var alltaf sárt. Það sat í manni í langan tíma á eftir. Þá kom þetta flash back. Þetta rifjaðist upp. Og raunveruleikinn blasti við manni í þessu stóra svöðusári í miðri Súðavík þar sem vantaði svo mikið af húsum.“

 

Og eigi leið þú oss í freistni,

heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin

að eilífu

Amen.

Ómar Már Jónsson
SAMSUNG TECHWIN DIGIMAX-230

 

Krossinn stóri

Árið 2002, sjö árum eftir snjóflóðið, var auglýst eftir sveitarstjóra í Súðavík.

„Ég fann hjá mér svo mikla köllun að geta tekið þátt í að byggja upp aftur. Að búa til meiri tiltrú á samfélagið. Að heila samfélagið ef svo má að orði komast.“

Ómar Már Jónsson var ráðinn sveitarstjóri árið 2002.

„Eitt af fyrstu verkefnunum var að láta búa til minningarreit um þá sem höfðu farist í snjóflóðinu. Ég fékk Pétur Jónsson landslagsarkitekt til að vinna það með mér og það var eitt erfiðasta verkefni sem ég hef farið í á minni lífsleið vegna þess að ég var í persónulegum samskiptum við alla þá sem höfðu misst og voru margir ósáttir við hvað hafði gerst daginn fyrir flóðið og einnig hvernig staðið var að hreinsun í þorpinu eftir flóð.“

Úr varð minningarreitur með stórum kross með nöfnum þeirra sem fórust.

Hvað með önnur eftirminnileg verkefni á 12 ára sveitarstjórnarferlinum? Ómar Már segist hafa lagt áherlsu á að auka tiltrú Súðvíkinga á framtíðina.

„Það er í rauninni margþætt. Það voru atvinnumálin í fyrsta lagi; að tryggja að það væri atvinna handa öllum. Að tryggja að byggðin næði að blómstra og að íbúum fjölgaði sem og tækifærum sem gekk út á að aðlaga samfélagið og innviði þess að ferðaþjónustu sem var byrjuð að banka upp á hjá okkur árið 2002. Svo var það að fegra byggðina og gera hana eins góða og kostur var fyrir alla hópa samfélagsins hvort sem það var fólk sem vildi flytja til Súðavíkur, fyrirtæki sem myndu vilja flytja sig til Súðavíkur eða ferðamenn sem myndu vilja sækja okkur heim um stundarsakir.“

Fyrsta sveitarfélagið á landinu sem gerði leikskólann gjaldfrjálsan.

Ómar Már lagði áherslu á að fara svolítið ótroðnar slóðir og segir hann að Súðavík hafi verið fyrsta sveitarfélagið á landinu sem gerði leikskólann gjaldfrjálsan.

„Síðan bjuggum við til atvinnumálastyrki til að höfða til fyrirtækja sem myndu vilja staðsetja sig í Súðavík.“

Það skorti atvinnuhúsæði í bænum og gekkst Súðavíkurhreppur við því að byggja tvö stór atvinnuhúsnæði fyrir rekstur fyrirtækja og úr varð Iðngarðar sem er atvinnuhúsnæði fyrir bæði skrifstofur og iðnaðarrými fyrir margvíslega starfsemi. „Þá byggðu verktakar þriðja atvinnuhúsnæðið undir sína starfsemi.“

Á meðal annarra verkefni sem Ómar Már kom að fyrir hönd sveitarfélagsins má nefna stofnun Melrakkaseturs Íslands sem hann er mjög stoltur af.

 

Skortur á fyrirhyggju

Ómar Már hafði rekið eigið fyrirtæki í Reykjavík áður en hann gerðist sveitarstjóri og eftir að hann kvaddi Súðavík árið 2014 hefur hann stofnað fleiri fyrirtæki í Reykjavík. Nú vill stýrimaðurinn fyrrverandi róa á önnur mið og það í höfuðborginni. Hann er oddviti Miðflokksins til borgarstjórnar.

„Ég var í fjórða sæti í Reykjavík suður fyrir síðustu alþingiskosningar en það hafði verið sótt að mér að gefa kost á mér ofarlega á lista en ég var upptekinn í öðrum verkefnum og hefði ekki þann tíma og fókus til að gera það vel og taldi þá betra að vera í fjórða sæti og vinna með í baklandinu. Ég er þannig karakter að þegar ég tek eitthvað að mér þá fer ég alla leið; ég geri það af heilindum og mér er umhugað um að fara alla leið með því markmiði að ná árangri í því sem ég tek mér fyrir hendur.“

Vandræðagangurinn í öllum þessum málaflokkum sé fyrst og fremst skortur á fyrirhyggju.

Hver eru áherslumálin?

„Við höfum nýlega hleypt af stokkunum heimasíðu, xmreykjavik.is, þar sem sjá má allar áherslur okkar í öllum málaflokkum en stærstu málin fyrir þessar kosningar teljum við vera fjármál borgarinnar sem eru komin í algert óefni, húsnæðisvandinn á höfuðborgarsvæðinu sem er í algjöru óefni og samgöngumálin. Það má segja að óefnin eða vandræðagangurinn í öllum þessum málaflokkum sé fyrst og fremst skortur á fyrirhyggju. Því ætlum við að breyta. Setja íbúa í borginni í fyrsta sæti.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -