Föstudagur 19. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Lögreglustjóri segir að verklagsreglum lögreglu hafi verið breytt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir verklagsreglum hafa verið breytt nýlega sem leggi skýrari línur um hvernig bregðast skuli við þegar að lögreglufulltrúar fá á sig kæru um alvarlega glæpi á borð við kynferðisbrot gagnvart börnum.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Halldóra Baldursdóttir, móðir stúlku sem kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot, gagnrýndi vinnubrögð lögreglunnar í ítarlegu viðtali í Mannlífi í síðustu viku. Sakborningnum var t.a.m. ekki vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð og telur Halldóra brotalamir á allri málsmeðferðinni.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Hún skýrði meðal annars frá því í viðtalinu að þegar aðstæður í sumarbústaðnum þar sem brotin fóru fram voru loks rannsakaðar hafi lögreglumaðurinn, sakborningurinn sjálfur, farið á vettvang með rannsakendum. Að sögn núverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins er það ekki venjan. „Lögregla rannsakar venjulega brotavettvang án þess að sakborningar eða vitni séu viðstödd, en undantekningar kunna að vera á því,“ segir Sigríður Björk.

Þá gagnrýndi Halldóra að lögreglumaðurinn skyldi fá að starfa áfram, og það í sama sveitarfélagi og þær mæðgur bjuggu, þrátt fyrir þrjár kærur um kynferðisbrot gagnvart ungum stúlkum. „Reglur hvað þetta varðar hafa tekið breytingum á undanförnum árum en í dag er þetta mat í höndum lögreglustjóra,“ segir Sigríður. „Hjá LRH er það verklag að öll mál af þessu tagi eru skoðuð og farið yfir málsatvik og tiltækar upplýsingar sem Embættið hefur rétt á að fá. Ef kæra berst á hendur lögreglumanni þá er það metið í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að færa viðkomandi til í starfi, leysa viðkomandi tímabundið undan starfsskyldum eða veita viðkomandi lausn frá embætti um stundarsakir á grundvelli tiltækra gagna. Lausn frá embætti um stundarsakir er endurskoðuð af svokallaðri 27. greinar nefnd, en einnig hefur það gerst að samhliða því er slík ákvörðun kærð til fagráðuneytis. Ef rannsókn leiðir ekki til ákæru og viðkomandi metur það svo að á honum hafi verið vikið að ósekju, er unnt að stefna viðkomandi stofnun fyrir dóm og óska skaðabóta.“

Fái lögreglumaður hins vegar fangelsisdóm er skýrt kveðið á um að hann fái ekki að halda starfi sínu.

„Lögregla rannsakar venjulega brotavettvang án þess að sakborningar eða vitni séu viðstödd.“

Lögreglumanni ber að meta eigið hæfi

- Auglýsing -

Lögreglumaður sem kærður hefur verið fyrir kynferðisbrot geti þó áfram starfað við rannsóknir á kynferðisbrotamálum og gæta þurfi varúðar þegar lögreglumenn séu færðir til í starfi. „Sé mál gegn lögreglumanni fellt niður eða hann sýknaður í dómi þá á hann rétt á að halda sínu starfi enda er hver sá maður sem borinn er sökum saklaus uns sekt er sönnuð. Hingað til hefur sú framkvæmd verið viðurkennd að forstöðumaður geti fært starfsmenn í aðrar deildir eða önnur verkefni, svo fremi að launakjör og stöðuheiti séu óbreytt. Eitt mál er nú fyrir Hæstarétti þar sem mun reyna á þessi ákvæði en framkvæmdin var staðfest fyrir héraðsdómi,“ bendir Sigríður á.

Halldóra lýsti því enn fremur hvernig hún nýlega var sett í óþægilega stöðu þegar hún óskaði eftir aðstoð lögreglu og lögreglumaðurinn sem dóttir hennar hafði kært fyrir kynferðisbrot mætti á vettvang. Á jafnlitlu landi og Íslandi eru þetta aðstæður sem geta hæglega komið upp, en skyldi viðkomandi lögreglumanni ekki bera skylda til að sýna borgaranum þá tillitssemi að biðjast undan því að fara í útkallið? „Með því að víkja lögreglumönnum tímabundið frá störfum meðan mál sem geta leitt til fangelsisdóms eru til rannsóknar er komið í veg fyrir að svona staða geti komið upp. Ef mál er fellt niður eða viðkomandi sýknaður á hann rétt að halda starfi sínu eins og áður sagði,“ útskýrir Sigríður. „Ef ekki hafa verið sett sérstök skilyrði fyrir því að viðkomandi annist ekki ákveðin verkefni, er ekki tilefni til tiltals, hins vegar þarf embættismaður að meta hæfi sitt hverju sinni, með tilliti til frændskapar eða annarra atriða sem áhrif geta haft á störf hans eða þjónustu viðkomandi yfirvalds.“

Aðskilin mál en leitað eftir líkindum

- Auglýsing -

Dóttir Halldóru sagði lögreglumanninn hafa brotið á sér í sumarbústaðarferð en með í för voru vinahjón mannsins og kona hans. Þegar hún kærði lögreglumanninn hafi verið tekin skýrsla af vinahjónunum á skrifstofu eiginmannsins en sá er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera. „Skýrslutökur á rannsóknarstigi fara fram fyrir luktum dyrum og helst á lögreglustöð sé þess kostur eða öðru sérútbúnu húsnæði,“ segir Sigríður Björk. „Skýrslutaka fer stundum fram á brotavettvangi eða öðrum stöðum, en ávallt skal gæta þess að spyrja án nærveru annarra. Það er sjaldgæft að skýrslutaka yfir vitnum fari fram á starfsstöð viðkomandi.“

Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér. Spurð hvort til greina kæmi að þrjár sambærilegar kærur um kynferðisbrot gagnvart börnum yrðu rannsakaðar sem eitt mál segir Sigríður Björk það ekki vera. „Hvert tilvik er rannsakað sérstaklega. Ef brotaþolar eru fleiri en einn og ætluð brot eru aðgreind eru venjulega stofnuð aðgreind mál. Við rannsóknina er skoðað sérstaklega hvort líkindi séu með ætluðum brotum, en litið er til þess við mat á sönnun.“

Sigríður Björk undirstrikar að hún geti ekki tjáð sig um þetta einstaka mál og svari því aðeins almennum spurningum um verklagsreglur við sambærilegar aðstæður, miðað við stöðu mála í dag en þær hafi tekið miklum breytingum síðustu ár. „Nú er þessum málum undantekningarlaust beint til héraðssaksóknara og Nefndar um eftirlit með lögreglu,“ segir Sigríður en sú nefnd tók til starfa á síðasta ári. „Berist LRH kvörtun eða kæra á hendur lögreglumanni er nefndin upplýst um það.“ Um hlutverk nefndarinnar er fjallað í VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996.

________________________________________________________

Mál Helgu Elínar og Halldóru

Brotalamir á rannsókninni

Halldóra Baldursdóttir og dóttir hennar Helga Elín. Halldóra gagnrýnir meðal annars að sakborningi hafi ekki verið vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð. Mynd / Hallur Karlsson

Halldóra Baldursdóttir, móðir stúlkunnar sem kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot, telur að brotalamir séu á allri málsmeðferðinni. Hún gagnrýnir meðal annars að sakborningi hafi ekki verið vikið úr starfi meðan á rannsókn stóð. Þetta kom fram í ítarlegu viðtali við Halldóru í Mannlífi á föstudag í síðustu viku.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru

Embætti ríkislögreglustjóra hefur andmælt þeirri fullyrðingu Halldóru að ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, hafi brugðist dóttur Halldóru, eins og fram kemur í framangreindu viðtali. Í tölvupósti sem embættið sendi ritstjórn Mannlífs, og lesa má í fullri lengd á www.man.is, segir meðal annars að ríkislögreglustjóri hafi farið þess á leit við ríkissaksóknara í tilefni af umfjöllun um málið í fjölmiðlum að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi Embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum og fékk því Embættið ekki rannsóknargögn málsins. Þar sem beiðni um rannsóknargögn var synjað hafi ekki verið grundvöllur til að byggja á að mati Embættisins hvort leysi ætti lögreglumanninn frá embætti og var ríkissaksóknara gerð grein fyrir því.

Í sama tölvupósti bendir Embætti ríkislögreglustjóra á að vegna alvarleika málsins hafi Embætti ríkislögreglustjóra beint því til þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, með bréfi 8. nóvember 2011, að meta hvort hann leysti lögreglumanninn undan vinnuskyldu, „en það er á forræði lögreglustjóra að ákveða um tilfærslu í starfi og við hvaða verkefni lögreglumaður starfar.“

Mannlíf náði í kjölfarið tali af Stefáni Eiríkssyni, sem starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn málsins stóð. Stefán kveðst ekki hafa fylgst með umfjöllun um málið og neitar að tjá sig um það. „Þetta er ekki mál sem ég hef heimild til að tjá mig um,“ svaraði hann blaðamanni Mannlífs.

Sýndi ekki kjark og þor til að standa með barninu

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.

Halldóra furðar sig á viðbrögðum Embættis ríkislögreglustjóra. Hún segir „óskiljanlegt“ og „sárara en orð fá lýst“, að hann firri sig ábyrgð á því að hafa ekki vikið lögreglumanninum frá störfum, þrátt fyrir ítrekaðar kærur fyrir kynferðisofbeldi. Í tölvupósti sem hún sendi ritstjórn Mannlífs segir hún ekki vafamál á því hver beri ábyrgð á að lögreglumaðurinn í umræddu kynferðisbrotamáli starfi enn innan lögreglunnar.

Sjá einnig: Á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti

Í því samhengi bendir Halldóra á svar sem hún fékk frá innanríkisráðuneytinu, þegar hún kvartaði undan undan viðbrögðum yfirstjórnar lögreglu í málinu. Í svari sínu bendir ráðuneytið á að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga n.r 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skuli það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundarsakir

. Með öðrum orðum kemur fram það sé á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu.

Enn fremur kemur fram í svari ráðuneytisins að ekki sé ómögulegt fyrir veitingarvaldshafa að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundarsakir þótt honum sé synjað um afhendingu gagna í sakamáli. En eins og áður sagði taldi Embætti ríkislögreglustjóra ómögulegt að veita umræddum lögreglumanni lausn um stundarsakir þar sem embættinu hafði verið synjað um upplýsingar um rannsókn sakamálsins á hendur manninum. Svar ráðuneytisins má lesa í heild sinni á www.man.is

Halldóra segir um Embætti ríkislögreglustjóra: „Þetta er mín upplifun og mitt mat og er mér óskiljanlegt að ríkislögreglustjóri telji sig geta mótmælt því. Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -