Mánudagur 17. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Sameining, auðmýkt og þor framkalla töfra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sýningin Ég býð mig fram, sem danshöfundurinn, leikstjórinn og dansarinn Unnur Elísabet Gunnarsdóttir setur nú á laggirnar í annað sinn, er sett saman úr fjórtán þriggja mínútna örverkum eftir fjórtán höfunda.

„Ég bauð mig fram til að flytja verkin þeirra sem eru af ýmsum toga; gjörningar, ljósmyndasýning, vídeóverk, dansverk, leikverk, dansleikhús og fleira. Sýningin er því eins og smáréttahlaðborð og tilvalin fyrir fólk með stutt athyglisspan,“ segir Unnur.

„Höfundar verkanna eru að mínu mati margir af okkar bestu listamönnum og það er mikill heiður að fá að vinna með þeim. Þetta ferli hefur verið ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt og ég hef verið á hlaupum á milli æfinga til að læra öll þessi nýju verk. Verkin eru eins ólík og þau eru mörg og ég þarf að bregða mér í hin ýmsu hlutverk og gera hluti sem ég hef aldrei gert áður, eins og t.d. í verkinu hans Almars Atlasonar [Almars í kassanum]. Hann fer ekki auðveldu leiðina að hlutunum og ég get viðurkennt það að ég titra á beinunum og eftirvæntingin er mikil.“

Hún segist geta lofað góðri skemmtun og að Tjarnarbíó verði fyllt af list. Svo eitthvað sé nefnt mun hún frumsýna nýtt tónlistarvídeó með Gus Gus og Kitty Von-Sometime, hún mun hanga í háloftunum í verkinu hennar Ilmar Stefánsdóttur og flytja dansverk eftir Helga Björns þannig að búast má við fjölbreyttri sýningu.

Það að bjóða sig fram til að gera hvað sem er og flytja verk eftir annan listamann opnar hugann og kastar manni út fyrir þægindarammann.

„Ég býð mig fram er einstaklega fallegt ferli. Í fyrsta lagi það að bjóða sig fram til að gera hvað sem er og flytja verk eftir annan listamann opnar hugann og kastar manni út fyrir þægindarammann. Í öðru lagi er þakklátt og lærdómsríkt þegar tveir listamenn úr ólíkum áttum mætast og vinna saman að örverki og hvað þá þegar maður fær að vera partur af því að láta draum einhvers rætast. Ég býð mig fram snýst um að þora, vera auðmjúk og um það að sameina krafta okkar listamanna því þá verða til töfrar.“

Verkið var frumsýnt 21. febrúar í Tjarnarbíói en aðeins verða fimm sýningar. Höfundar örverkanna eru: Almar S. Atlason, Ólafur Darri Ólafsson, Kristinn Arnar Sigurðsson, Ingvar E. Sigurðsson, Kitty Von-Sometime, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Ólöf Kristín Helgadóttir, Frank Fannar Pedersen, Urður Hákonardóttir, Ilmur Stefánsdóttir, Steinar Júlíusson, Friðgeir Einarsson, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Unnur Elísabet og Helgi Björns.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -