Laugardagur 20. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Sextíu kílóum léttari: Lagður í einelti og glímdi við sjálfsvígshugsanir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef verið of þungur frá því ég man eftir mér en líklega byrja ég að þyngjast fyrir alvöru í byrjun grunnskólans,“ segir Mikael Þorsteinsson, 32ja ára gamall yfirkokkur á veitingastað í Reykjavík. Fyrir tveimur árum ákvað hann að breyta um lífsstíl og hefur náð frábærum árangri á stuttum tíma.

Mikael er uppalinn hjá móður sinni á Húsavík og var lagður í einelti í grunnskóla.

Mikael glímdi við þunglyndi.

„Ég varð strax auðvelt skotmark fyrir aðra krakka í skólanum og var lagður í einelti alla grunnskólagönguna sem hefur áhrif á mig enn þá í dag. Ég var uppnefndur daglega og var eltur heim oft á tíðum með orðum sem særðu mikið. Ég var aldrei góður í íþróttum og kveið ég mikið fyrir að fara í íþróttatíma innan skólans. Bæði vegna þess að ég þurfti að klæða mig í íþróttafötin fyrir framan aðra stráka sem gerðu þá óspart grín að manni og jafnvel íþróttakennarar sögðu við mig að ég yrði að standa mig betur og gera þetta eins og hinir krakkarnir. Sérstaklega kveið ég fyrir því að fara í sturtu eftir tímana, þar sem kom fyrir að maður var sleginn með blautum handklæðum. Andlega ofbeldið var samt mikið algengara. Ég átti samt alltaf ákveðinn vinahóp sem hjálpaði til við að gera lífið bærilegt líklega,“ segir Mikael.
Hann þróaði með sér þunglyndi á unglingsárunum og eftir tvítugt var andlega heilsan orðin mjög slæm. Þá reyndi hann að deyfa sársaukann.

Kom fram við sig eins og ruslatunnu

„Líklega reyndi ég að deyfa ákveðinn andlegan sársauka með áfengi. Það voru ekki margar helgarnar sem ég tók án þess að hafa áfengi við höndina í vinahópi,“ segir Mikael og heldur áfram.

„Í kringum þrítugsafmælið mitt var ég kominn eins langt niður og hægt var. Vakti heilu næturnar og svaf á daginn og borðaði ógrynni af óhollu fæði og kom fram við mig eins og ruslatunnu. Á þeim tíma var ég orðinn 147 kíló. Á ákveðnum stundum var ég farinn að íhuga að líklega væri betra fyrir alla að ég væri ekki til og það hræddi mig virkilega að hafa þær hugsanir. Þá ákvað ég að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum til að endurheimta einhverja lífshamingju.“

Tæp sextíu kíló farin á tveimur árum

Mikael hefur búið í Reykjavík síðustu níu árin en það var í byrjun árið 2016 sem hann fékk sér líkamsræktarkort í Reebok Fitness, staðráðinn í að breyta um lífsstíl.

- Auglýsing -

„Áður fyrr fannst mér alltaf leiðinlegt að fara í ræktina. Ég þoli ekki hlaupabretti og lyftingatæki þannig ég tók þá ákvörðun að fara í hóptíma. Ég skráði mig í Body Pump hjá Magnúsi, þjálfara hjá Reebok, sem eru lyftingatímar með stangir og lóð þar sem unnið er með nokkuð létt lóð en margar endurtekningar. Ég fann mig strax í þessum tímum þótt að úthaldið hafi verið skelfilegt til að byrja með. Þegar úthaldið fór að aukast og ég fór að sjá árangur fór ég að fikra mig áfram í aðra krefjandi hóptíma. Hreyfing er orðin algjör fíkn og erfitt að velja úr tímum til að fara í þar sem þeir eru allir frábærir. Mataræðið fylgdi einig með. Ég fór að minnka sykur og hveiti í fæðinu og gosdrykkir fóru á bannlista,“ segir Mikael. Hann fagnaði 32ja ára afmæli sínu fyrir stuttu og fékk ómetanlega gjöf.

„Á 32ja ára afmælinu skellti ég mér á vigtina og las 89 kíló, sem eru þá rétt tæp 60 kíló sem eru farin á þessum tveimur árum.“

Aukinn áhugi frá kvenfólki

Í dag brosir lífið við kokkinum.

Mikael segist finna mikinn mun á sér í dag, bæði andlega og líkamlega.

„Munurinn er sláandi og þá sérstaklega andlega. Ég er léttari á líkama og sál. Ég hef fundið ánægju yfir hlutum aftur og hreyfing er mín sálfræðiaðstoð. Að sjálfsögðu sé ég ótrúlegan mun á mér líkamlega og á úthaldi, styrk og þoli. Svefninn er mikið betri og ég er yfir höfuð mjög ánægður með mitt líf í dag,“ segir Mikael og bætir við að þessi breyting hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig.

- Auglýsing -

„Ég hef fallið í nammið og gosið svo um munar og dottið niður andlega hér og þar. En erfiðleikarnir eru mestir í upphafi. Það að koma sér af stað og taka ákvörðunina um að taka sjálfan sig í gegn. Þetta hefur kostað blóð, svita og tár en hefur verið algjörlega þess virði og ég myndi ekki vilja breyta neinu á minni leið til betri heilsu. Líf mitt hefur breyst töluvert. Ég er farinn að halda í við íþróttafólk í ræktinni, hljóp 10 kílómetra hlaup á gamlársdag, farinn að íhuga að ganga á fjöll og hef hugsað með mér að fara jafnvel í einkaþjálfarann. Þetta eru betri hugsanir en að vera milli svefns og vöku allan daginn vegna andlegra og líkamlegra erfiðleika. Einnig hef ég tekið eftir auknum áhuga kvenfólks á mér. Sem er nú bara jákvætt,“ segir Mikael og brosir.

Þú átt alltaf rétt á hamingju í lífinu

Mikael lítur sáttur yfir farinn veg og hefur þann draum að geta hjálpað fólki að breyta um lífsstíl.

„Mig langar að hjálpa fólki sem hefur verið að glíma við sömu erfiðleika og ég og sýna þeim að þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég veit að það er klisja að segja þetta en hún er 100% sönn. Ef þú leggur til vinnuna munt þú sjá árangur. Það er ekkert flóknara. Það skiptir engu máli hversu gamall þú ert, hvað þú hefur gert af þér í lífinu, hvaða erfiðleika þú hefur átt við að stríða. Þú átt alltaf rétt á hamingju í lífinu og að vera sáttur í eigin skinni,“ segir Mikael og vill skila þakklæti til þeirra sem studdu hann í sinni vegferð, sem heldur áfram um ókominn tíma.

„Ég vil enda á að þakka fólki sem hefur staðið þétt við bakið á mér. Fjölskylda og vinir hafa verið eins og klettur. Svo vil ég skila sérstöku þakklæti til Magnúsar, þjálfara hjá Reebok og allra þeirra sem æfa með mér í hóptímunum. Þetta fólk skiptir miklu máli og hvetur mig áfram. Ég hef séð fólk ná frábærum árangri í tímunum með mér. Ef fólk vill koma og prófa hóptímana, þá taka allir vel á móti þér.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -