Miðvikudagur 9. október, 2024
0.8 C
Reykjavik

Sigga Eyþórs: „Elskar að lagið sé „love/hate“-lag keppninnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við ræðum um tónlistina. Sigga orðar það svo að þær systurnar séu allar frekar „genre-fluid“ á tónlist. „Ég fíla alla tónlist. Ég hlustaði mikið á rapptónlist þegar ég var unglingur en á sama tíma fílaði ég Metallica, sem ég þorði varla að viðurkenna þá. Það þótti ekki flott að vera hipp hoppari og hlusta á metalrokk. Ég elskaði t.d. Nirvana og Led Zeppelin og ég hef alltaf elskað kántrítónlist. Ég var bara um tvítugt þegar KK frændi kynnti mér tónlist kántrísöngkonu sem heitir Gillian Welch. Hún er alveg geggjuð og mikill áhrifavaldur minn og svo elska ég líka raftónlistarmenn eins og t.d. James Blake. Það er engin tónlist sem ég get ekki gefið séns á einhvern hátt. Ef svo er þá er það algjör undantekning. Það er viðhorfið sem skiptir mig máli. Ég hugsa það þannig, að allir séu að gera sitt besta þó svo að ég setji það kannski ekki á Spotify-listann minn.

„Heyrðu! Ég er ennþá með kvenmannsrödd, þú getur ekki sett mig í svona djúpa rödd.“

Tónlistarsmekkur okkar systranna er svolítið kántrí- og þjóðlagaskotinn. Við ólumst upp við það að radda mikið og það er gjöf sem við fengum. Þessi tónlist er tilvalin til þess, þ.e. þjóðlagatónlist. Ég er oftast neðri röddin. Þó að ég geti sungið alls konar raddir þá funkera ég oftast best í neðstu röddinni. Elín er í miðjunni og Beta í efstu röddinni. Pabbi setur mig stundum í óþarflega lágar raddir og þá er ég er bara: „Heyrðu! Ég er ennþá með kvenmannsrödd, þú getur ekki sett mig í svona djúpa rödd.“ Mér finnst samt visst „power“ í því að syngja neðstu röddina og það á mjög vel við mig.“

Við áttum ekki von á þessu

Sigríður Eyþórsdóttir Ljósmyndari: Cat Gundry-Beck. Stílisti: Íris Tanja Flygenring. Förðunarfræðingur: Helen Dögg Snorradóttir. Gleraugu frá Optical studio. Myndir teknar í hljóðverinu Hljóðrita í Hafnarfirði.

Talið berst að annríkinu seinustu daga – keppninni og niðurstöðu hennar. Sigga er enn svolítið hissa. „Sérstaklega af því að við áttum ekki von á þessu. Ekki af því að við hefðum ekki trú á laginu, sem Lay Low samdi, eða að við séum að gera lítið úr okkur sjálfum. Það var meira út af því að lagið okkar er ekki dæmigert júróvisjón-lag.

Það er alltaf gott að koma á óvart, en við fundum síðustu dagana fyrir úrslitin að hjólin voru byrjuð að snúast aðeins með okkur. Við sögðum við Unni, leikstjórann okkar, þegar við vorum að setja atriðið saman, að við yrðum að vera við sjálfar á sviðinu. Það er partur af því að vera með ADHD. Ég get ekki leikið og ég get alls ekki dansað og sungið á sama tíma. Eina sem Unnur, okkar frábæri leikstjóri, vildi láta okkur gera var að tengjast myndavélinni og vera ekki svona mikið inni í okkar í eigin heimi.

Lovísa er líka svo stórkostlegur lagahöfundur og manneskja. Það er svo mikil fegurð og útgeislun frá henni. Hvort tveggja lagið og textinn höfðaði svo sterkt til okkar. Við fundum svo mikla kvenorku í því. Textinn er um konu sem er í vistarbandi og er að velta fyrir sér aðstæðum sínum. Vistarband var notað yfir það þegar fólk átti ekki jarðir eða húsnæði og neyddist til að búa og vinna á bæjum hjá öðrum. Bóndinn réð allri vinnu hjúa sinna og fékk af henni allan arð, hvort sem vinnan var unnin á heimili hans eða utan þess. Ef vinnumaður fór til dæmis á vertíð, þá fékk bóndinn sem hann tilheyrði allan afla sem vinnumaðurinn dró úr sjó. Á móti bar bóndi ábyrgð á því að hjú hans fengju fæði, klæði og húsaskjól á ráðningartíma þeirra.

Við eigum lausnarbréfið hennar

Langafi okkar talaði mikið um þetta við okkur. Langalangalangamma okkar var í vistarbandi. Við erum öll svo ung í okkar fjölskyldu þegar við eignumst börn, þannig að ég var svo heppin að eiga langömmu og langafa og langalangalangömmu, langt fram eftir aldri. Við eigum lausnarbréfið hennar, þar sem hún bað um að losna úr vistarbandinu. Hún fékk lausn frá vistarbandinu, en þurfti að skilja barnið sitt, sem hún átti með bóndanum, eftir á bænum. Það var vegna þess að hún gat ekki séð fyrir því og taldi það geta átt betra líf þar. Bóndinn átti sína konu og fjölskyldu og þau ólu framhjáhalds-barnið upp saman.“

- Auglýsing -

Elskar að lagið sé „love/hate“-lag keppninnar

Þegar Sigga er spurð um hin lögin sem komust áfram í keppninni, þá tekur hún það fram að hún elski það, að þeirra lag sé það sem kalla má „love/hate-lagið“ og að fólk sé yfirhöfuð að hlusta á það og mynda sér sterka skoðun á því – viðbrögðin séu oftast samt jákvæð. „Annars elska ég portúgalska lagið með henni Maro. Ég hlakka svo til að hitta hana. Ég mun halda áfram að hlusta á lagið hennar þegar Eurovision er búið. Og svo finnst mér hollenska lagið mjög flott, svona Lana Del Rey fílingur í því. Ég held að keppnin verði lituð af átökunum í Úkraínu. Það er mikilvægt að boða frið með öllu sem við gerum.

Það er líka svo geggjað að sjá fólk á öllum aldri vera að hlusta á okkur. Og ég verð að segja að ein athugasemd á Twitter fékk mig til að brosa. Þá sagði ein að hún hefði grátið sig í svefn yfir úrslitum keppninnar. Hún hafi svo sótt sjö ára son sinn í pössun daginn eftir og hann sagt henni að hann hefði kosið systurnar átta sinnum. Við erum greinilega ekki með sama tónlistarsmekk, sagði konan.

Annars elskar dóttir mín, sem er þriggja ára, Reykjavíkurdætur og biður mig reglulega um að hlusta á lagið sem og öll hin lögin líka. Í gær byrjaði t.d. dagurinn okkar á því að hlusta þrisvar sinnum á öll lögin í keppninni og svo vildi hún færa sig yfir í sjónvarpið og horfa á þau öll þar aftur.“

- Auglýsing -

Mesta „boss lady“ sem ég hef kynnst

Áður en við klárum úr bollunum og ljúkum spjalli okkar vill Sigga minnast á eitt. Hún talar um hvað hún hafi verið ánægð með RÚV og kvenorkuna, sem þar er nóg af. „Það er mikill viðsnúningur á RÚV. Pródúsentinn, hún Salóme, er brjálæðislega klár og sama á við um Ragnhildi, sem er mesta „boss lady“ sem ég hef kynnst. Hún er rosalega dugleg og hefur fallega sýn á allt sem hún gerir. Hún er svo mikið á bak við allt. Annars var hver einasta manneskja frábær í RÚV-teyminu. Ég hef aldrei kynnst öðru eins. Partur af því að mig langaði til þess að sigra var til þess að fá að halda áfram að vinna með þessu frábæra fólki.

Við erum staðráðnar í að ná eins langt og við mögulega getum í keppninni. Við viljum nýta okkur hana sem stökkpall til að vekja athygli á tónlistinni sem við elskum. En hvað sem gerist á þessu ferðalagi, þá erum við að lifa draum sem nú hefur ræst, umkringdar dásamlegu fólki.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni inn á vefblaðinu HÉR.

Athugið, viðtalsbútur þessi hefur áður birst hjá Mannlífi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -