Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Sigurgeir Pétursson togaraskipstjóri með 95 manna áhöfn: Á reki í ofsaveðri á Indlandshafi í viku

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það fórst maður hjá okkur.“

Það er hræðilegt fyrir ungan skipstjóra.

„Já, það var mjög erfitt. Hann var minn besti vinur líka,“ segir Sigurgeir Pétursson í viðtali við Reyni Traustason en hann hefur starfað sem skipstjóri í áratugi og mest fyrir erlend fyrirtæki en þegar vinur hans drukknaði voru þeir skipverjar á Lýtingi frá Vopnafirði.

„Við vorum á netum. Ég var 23 eða 24 ára þegar það skeði.“

Hvað bar út af?

Við náðum honum um borð sem betur fer en það var bara of seint.

„Við vorum að leggja net í blíðskaparveðri eins og það gerist best á vorin og það voru bara mannleg mistök. Hann bara lyfti fætinum upp og steig inn í færið rétt við stjórann eða rétt við drekann og henti honum svo í sjóinn og fór með honum. Það var ekkert hægt að gera. Við náðum honum um borð sem betur fer, en það var bara of seint.“

- Auglýsing -

Þetta hlýtur að vera eitthvað sem býr alltaf með mönnum.

„Jú.“

Sigurgeir hugsar oft til þessa vinar síns.

- Auglýsing -

„Mjög oft. Þetta var mjög erfitt. Hann átti ung börn.“

Þetta segir aflaskipstjórinn sem hefur undanfarna áratugi siglt suður í höfum. Megnið af ferlinum hefur verið suður í Suðurhafinu og Íshafinu (Suður-Íshafinu) bæði sunnan við Ástralíu og í Indlandshafinu eins og hann orðar það. Sunnan til í Indlandshafinu. Og svo sunnan við Nýja-Sjáland og sunnan við Argentínu. „Og síðustu 10-15 árin hef ég verið að vinna í Argentínu og frá Falklandseyjunum og alveg suður úr öllu þar.“

Hvað þarf skipstjóri á þessu hafsvæði helst að varast?

„Veðrin. Það eru mjög slæm veður á þessum svæðum. Ekki síðri en hér, en kannski öðruvísi. Það er minna um brotsjói og minna sem þarf að varast svoleiðis kannski, en þetta er meira úti á opnu hafi, langt í burtu frá landi og stórir sjóar, miklir straumar og það breytast mjög fljótt veður þarna. Þannig að maður þarf alltaf að hafa varann á gagnvart veðri.“

 

Fundu fyrstir tannfiskinn

Sigurgeir Pétursson, sem er frá Húsavík, er kominn af sjómönnum.

 

„Þetta voru allt saman útgerðarmenn og skipstjórar. Geiri Péturs var í eigu föðurafa míns; skipið og bátarnir allir sem voru nefndir þessu nafni. Það er nefnt eftir langafa mínum eins og ég sjálfur.“

Hann byrjaði að róa með móðurafa sínum á trillu frá Húsavík.

„Það má segja að hann hafi verið minn aðalkennari. Hann var að leyfa mér að fara einum á trillunni þegar ég var átta til níu ára gamall en hann fylgdist alltaf með frá hafnargarðinum. Ég fór aðeins út fyrir og þurfti stundum að leggja smálínubúta og hitt og þetta.“

Lá alltaf fyrir að hann yrði sjómaður?

„Ég hef í rauninni aldrei hugsað um neitt annað. Þetta bara kom af sjálfu sér.“

Hann segist hafa verið skipstjóri á tveimur Lýtingum sennilega í fjögur ár áður en hann flutti út.

„Ég hitti nýsjálenska konu og ætlaði að taka mér frí í ár og skoða heiminn og vera á Nýja-Sjálandi í 12 mánuði. Það var planið. Og það var í janúar 1990.“

Hann flutti aldrei heim.

„Nýja-Sjáland er bara svo óskaplega gott land að búa í og þar er gott fólk. Mér hefur alltaf liðið vel þar, alveg frá upphafi.“

Er Nýja-Sjáland ekki svipað og Ísland?

„Að mörgu leyti, en samt svolítið öðruvísi. Svipað að sumu leyti. Náttúran, fjöllin og hafið. Það er mikið um sjósókn þarna. Þetta er líkt að mörgu leyti. Afskaplega langt í burtu frá öðrum löndum nema Ástralíu.“

Sigurgeir fékk svo starf í Ástralíu og þar samþykktu þeir réttindin.

Honum bauðst atvinnutækifæri.

„Þetta byrjaði svolítið skringilega. Ég sótti um starf þegar ég kom fyrst til Nýja-Sjálands og fór sem háseti; tók fyrsta starf sem ég gat fengið og fór á togara sem háseti. Svo kom fljótt upp að þeir vildu að ég yrði stýrimaður en þá kom það upp að Nýja-Sjáland viðurkenndi ekki íslensku réttindin.“ Sigurgeir fékk svo starf í Ástralíu og þar samþykktu þeir réttindin. „Það eiginlega leiddi mig í þessi stóru skip, þennan stóra frystitogara sem var fyrsti stóri frystitogarinn í Ástralíu og mér bauðst skipstjórastaða þar.“

Skip Sigurgeirs Péturssonar, TAI-AN

Þeir voru fyrstir til að finna tannfiskinn í Suðurhafinu. „Það var bara ævintýri peningalega séð fyrir bæði áhöfn og útgerð.“

Hvað með að Sigurgeir hafi slegið heimsmet í afla?

„Það var talað um það. Ég veit ekkert hvort það er rétt eða ekki.“

Sigurgeir er bróðir Lindu Pétursdóttur sem var kjörin Ungfrú heimur á sínum tíma. Heimsmeistari í fegurð og hann í aflabrögðum.

„Það má segja það.“

Sigurgeir og Linda P, systir hans, á góðri stundu.
Linda var kjörin Ungfrú heimur á sínum tíma.

Ég hafði alltaf hugsað mér að reyna að komast ungur í land.

Sigurgeir segist hafa verið í um átta ár á fyrrnefndum togara. „Svo keyptu þeir annað skip sem ég fór á en hjá þessari útgerð var ég í sennilega níu ár. Þá hætti ég. Ég hafði alltaf hugsað mér að reyna að komast ungur í land. Mig langaði að fara í land og reyna fyrir mér í landi. Mér bauðst að taka við sem framkvæmdastjóri Hampiðjunnar á Nýja-Sjálandi og ég fór í það og hafði gaman af en sjórinn togaði. Ég var í því í annaðhvort tvö eða þrjú ár, en þá fór ég aftur út á sjó.“

 

Um tveggja mánaða túrar

Hann fékk starf í Argentínu. Árið var 2007.

„Og ég er búinn að vera þar síðan; á sama skipinu.“

95 manna áhöfn. Og hann er karlinn í brúnni.

„Það fylgja þessu náttúrlega áskoranir að vera með svona marga menn í áhöfn. Uppistaðan í áhöfninni eru Argentínumenn og svo Kínverjar. Við höfum ekki átt í neinum vandræðum með þá. Þeir eru mjög hlýðnir og fara eftir reglum sem eru settar – bæði Argentínumennirnir og Kínverjarnir. Það er aldrei drykkja á þeim þegar við erum í landi og aldrei úti á sjó, náttúrlega. Það er bannað að vera með áfengi um borð.“

Það eru engar konur í áhöfninni.

„Við erum ekki með konur um borð og það er helst út af því að Kínverjarnir líta þannig á það að það sé ekki góð lukka að vera með kvenmenn um borð. Og Argentínumenn eru í rauninni svolitlar karlrembur.“

Íslendingurinn segir að það hafi tekið tíma eftir að hann fór að vinna um borð í þessu skipi að fá áhöfnina til að virða sig. „Það voru engir útlendingar að koma og segja þeim fyrir verkum. Ég er búinn að eyða um 25 árum í að vinna með alls lags þjóðernum og hef alltaf byrjað á að reyna að koma mér vel við innfæddu mennina. Maður gerir ekkert einn; sérstaklega á svona stórum skipum. Þannig að maður á að byrja á því að sanna sig og fá þá svo til að vinna fyrir sig og vera ánægða með að vinna fyrir þig. 70-80% af áhöfninni sem er um borð núna voru um borð þegar ég byrjaði. Þannig að það eru mjög litlar mannabreytingar. Mikil reynsla um borð og hefur gengið vel. Þannig að þeir eru ánægðir og hafa það gott.“

þegar ég var að fiska í Ástralíu þá tók það okkur sjö til níu daga að sigla á miðin.

Þetta eru um tveggja mánaða túrar og álag á hvern og einn.

„Já. Þetta er það. Þar sem við vorum að fiska í Suðurhafinu þegar ég var að fiska í Ástralíu þá tók það okkur sjö til níu daga að sigla á miðin. Það eru alltaf suðvestanáttir þannig að maður er alltaf tveimur dögum fljótari heim. En í Argentínu vorum við yfirleitt 18-24 tíma á miðin, en þetta er mjög afskekkt allt saman og það sem þarf alltaf að hafa í huga eins og þarna við Argentínu er að við erum að fiska við suðausturströnd og suðurhluta Argentínu Atlantshafsmegin og alveg niður að Cape Horn og þarna eru engar þyrlur til taks. Það eru engar björgunarsveitir í raun og veru, þannig að maður þarf alltaf að hafa það í huga.“

 

On your own

Þeir lentu í slysi. Það varð sprenging um borð.

Ég setti á hann brunasmyrsli um nánast allan líkamann.

„Það var að vísu í Ástralíu, en við lentum í því að það var sprenging í töflu um borð í skipinu, rafmagnstöflu. Aðaltöflunni í vélarrúminu. Og náttúrlega slokknaði á öllum ljósum og við fengum algert „black out“. Það vildi svo óheppilega til að það sprungu upp allar hurðirnar á töflunni og vildi svo óheppilega til að þriðji vélstjórinn okkar stóð bara tvo metra í burtu og lenti í eldtungunni miðri. Það var annar vélstjóri sem stóð hinum megin í vélarrúminu og hann sagði að maðurinn hefði lyfst upp og henst fjóra til fimm metra í loftinu aftur eftir vélarrúminu. Hann slasaðist því miður mjög mikið. Skaðbrenndist. Og það var mjög erfitt. Við vorum í 38 tíma að sigla í land og koma honum undir læknishendur. Það voru mjög erfiðir tímar. Við vissum ekkert hvort hann myndi lifa það af, því hann var gjörsamlega brenndur frá toppi til táar. Við byrjuðum á að kæla hann og ég var inni hjá honum allan tímann. Ég setti á hann brunasmyrsli um nánast allan líkamann og svo vafði ég honum inn í plast til að koma í veg fyrir að það kæmist einhver drulla inn í sárin.

Læknirinn sem tók á móti honum þegar við komum í land var svolítið hissa. Hann hringdi svo í mig nokkrum vikum seinna og sagði að þetta hefði svínvirkað því að það voru mjög lítil ör á líkamanum og ekkert í andlitinu. Þannig að hann lifði þetta af, en ég held að hann hafi verið í sex mánuði á sjúkrahúsi á meðan hann var að jafna sig. Hann náði sem betur fer fullum bata. En hann fór aldrei aftur til sjós.

Svona hlutir geta því miður skeð. Þetta er hættulegt starf sem við erum í.“

Þetta er ekki eins og við Íslandsstrendur; þú smellir fingri og þá kemur þyrla.

Maður sá strax að það var ekki nokkur von að finna mennina.

„Nei, þetta er mjög mikið öðruvísi. Eins og í Argentínu; kerfið er allt mjög erfitt líka. Það er erfitt að fá allt gert. Í síðasta túr hjá mér vorum við við akkeri að bíða eftir lóðsi og þá voru tveir menn á „boggie“-bát utan til í firðinum og það hafði ekkert heyrst í þeim í heilan sólarhring. Við vorum beðnir um að svipast um eftir þeim en það var ekkert skipulag á leitinni og maður sá strax að það var ekki nokkur von að finna mennina. Þeir fundust ekkert.

Það er mjög lítið hugað að öryggismálum og ekkert skipulag.

Ef eitthvað gerist þá ertu „on your own“.“

 

Vopnaðir verðir

Einu sinni urðu þeir vélarvana.

„Ég man að ég sendi út „Pan Pan call“ og þá vorum við 1.560 mílur frá næsta dráttarbáti sem gat komið og náð í okkur. Hann var frá Cape Town í Suður-Afríku og svarið sem við fengum var að hann gæti verið hjá okkur eftir átta sólarhringa og sex klukkutíma. Ef allt gengi að óskum. Það var mjög slæmt veður og veðurspá úti í miðju hafi; syðst í Indlandshafinu. Suðurhafinu. Þannig að við vorum þar á reki í rúma viku. Það var stórsjór og megnið af þessum tíma var 8-12 metra ölduhæð þannig að það var óhemjuveltingur. Það valt á byrðingum endalaust allan tímann.“

85 metra langur togari.

Mönnum var ekki orðið sama, sérstaklega óvanari hluta áhafnarinnar. „Þeim leið bara ekkert orðið vel, þannig að ég var með daglega fundi niðri í messa og við ræddum hlutina. Reyndi aðeins að róa liðið.“

22 dagar liðu frá því það drapst á vélinni og þar til þeir komu til Cape Town.

Svo kom hjálpin.

„Svo kom hjálpin og eftir það var allt í lagi. Það slitnaði að vísu tvívegis þegar verið var að draga okkur í land.“

22 dagar liðu frá því það drapst á vélinni og þar til þeir komu til Cape Town.

Menn hafa verið orðnir þreyttir.

„Ég viðurkenni það; ég held ég hafi aldrei sofið meira en hálftíma í einu allan þennan tíma.“

Þetta var árið 1996 eða 1997.

„Við vorum ekki með internet og það var erfitt að ná talstöðvarsambandi; við vorum svo langt í burtu. Við vorum að senda telex á milli; svolítið öðruvísi en menn eru gera í dag. Samskiptin.“

Hvað kom fyrir vélina? „Stýrimaðurinn var að kasta í vondu veðri og hann fór ekki nógu hratt; var að kasta upp í vindinn og var að slaka út trollinu og það kom brotsjór á okkur og ýtti okkur yfir trollið sem endaði í skrúfunni. Það var ekkert hægt að gera; við vorum með hálft trollið í skrúfunni. Það var ekkert við því að gera.“

Besta lausnin er að veiða bara andskoti mikið og halda þeim við vinnu.

Hvað með móralinn um borð í svona löngum túrum? Er skipstjórinn ekki að fást við alls konar mál? Eiga menn ekki stundum erfitt?

„Jú, en besta lausnin er að veiða bara andskoti mikið og halda þeim við vinnu. Það er besta pillan við þessu. Ef menn eru þreyttir og eru að vinna alla vaktina sína þá eru þeir ekkert mikið að hugsa um slíkt. Þá fara þeir að borða og svo að sofa. Ef það koma dagar eða vikur þar sem er lítill afli þá verður oft meira um kvartanir og vandræði.“

Þá kemur þunglyndið.

„Þá kemur þunglyndið.“

Sigurgeir nefnir Covid. Síðustu tvö og hálft ár.

„Það er búið að vera mjög erfitt. Við vorum að lenda í því að vera tvo mánuði úti á sjó og svo var farið upp að bryggju að landa og það mátti enginn fara í land. Það var ekki hægt að skipta um áhöfn og við fórum bara út aftur. Meira að segja var það þannig þarna suður frá, að það voru vopnaðir verðir á bryggjunni. Það var mjög erfitt og ég var um borð í fimm og hálfan mánuð án þess að komast upp á bryggju. Það var mjög erfitt og þetta eru náttúrlega gömul skip sem við erum á þannig að það er lítið um að vera um borð.“

Það er ekki heilsurækt um borð.

„Nei, ekkert sem einhver myndi sætta sig við á íslenskum skipum. Þetta var bara mjög erfitt og það versta við þetta var óvissan. Við fórum út – og fengjum við þá að fara heim eða yrði það annar túr?“

Vopnaðir verðir voru á hverjum gangi.

Áhöfnin smitaðist af Covid. Tvær áhafnir. Sú fyrri var sett í einangrun og viku síðar kom nýja áhöfnin um borð og nokkrum dögum síðar fóru menn að veikjast. Það greindust allir jákvæðir nema þrír. Farið var í land og áhöfnin sett í einangrun á hóteli. Vopnaðir verðir voru á hverjum gangi og segir Sigurgeir að ef dyr voru opnaðar þá hafi þeir komið hlaupandi.

 

Sumar það sem eftir er

Sigurgeir horfir heim. Hann sem er búinn að búa erlendis í áratugi horfir heim hvað íslenska sumarið varðar. Búinn að festa kaup ásamt öðrum á Sómabáti og ætlar að vera á strandveiðum í sumar. Sigla frá Flatey á Skjálfanda þar sem stórfjölskyldan á hús. Þar eru ræturnar.

Hann er 56 ára og segir að síðustu þrjú ár hafi tekið mikið á. Ekki bara á hann heldur líka fjölskylduna. Konuna. Vitandi aldrei hvenær hann kemur aftur heim.

Hjónin Sarah og Sigurgeir vilja njóta íslensku sumranna í framtíðinni.

Konan hans er Sarah. Frá Wales. „Hún er búin að búa á Nýja-Sjálandi í rúm 30 ár eins og ég og þetta hefur líka reynt mjög á börnin þótt þau séu uppkomin. Það er erfitt fyrir þau að vita aldrei hvenær maður verður heima. Og aldrei hægt að skipuleggja nein ferðalög eða gera nokkurn skapaðan hlut.“

Við eigum bæði foreldra sem eru ekkert að yngjast.

Þau ætla jú að vera meira hérna á sumrin. Hérna á Íslandi. „Þannig að þá verðum við í sumri það sem eftir er. Við eigum bæði foreldra sem eru ekkert að yngjast, þannig að maður reynir að njóta meiri tíma með þeim þegar maður er búinn að búa hinum megin á hnettinum í fjóra áratugi.“

Það verður þá sumar það sem eftir er.

„Það er meiningin.“

 

Sjá má viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -