Laugardagur 5. október, 2024
6.4 C
Reykjavik

Tekur tíma að jafna sig á áfallinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hrefna Rósa Sætran segir lokun Skelfiskmarkaðarins hafa verið áfall en það hafi samt að sumu leyti verið jákvæð reynsla að lenda í. Hún sé heldur ekki týpan sem dvelur við það leiðinlega í lífinu, hún haldi ótrauð áfram að gera sitt besta.

 

Hrefna Rósa er á hlaupum úti á götu þegar blaðamaður nær sambandi við hana, brjálað að gera eins og alltaf, en hún gefur sér þó tíma til að spjalla og við byrjum á því að ræða æskuna og bakgrunn Hrefnu.

„Ég er úr Breiðholtinu, ólst upp í Seljahverfinu til tólf ára aldurs,“ útskýrir Hrefna. „Ég er einkabarn og við bjuggum við hliðina á afa og ömmu, þannig að fjölskyldan samanstóð af mér og foreldrum mínum og ömmu og afa. Pabbi og mamma skildu reyndar þegar ég var tveggja ára en byrjuðu svo aftur að vera saman þegar ég var tíu ára. Þau skildu svo aftur þegar ég var átján ára, en það breytti ekki miklu því þau eru enn þá bestu vinir og eru eiginlega alltaf saman,“ segir hún, en foreldrar Hrefnu eru Sigrún Sætran og Jóhann Frímann Traustason, betur þekktur sem Jói í Mótor.

Langaði að betrumbæta matseðla sjö ára

Foreldrar Hrefnu Rósu voru báðir í rekstri og spurð hvort hún hafi smitast af bissnessáhuganum af þeim, segist hún eiginlega ekki vita það. Hún hafi aldrei hugsað út í það en vissulega hafi hún alist upp við að fólk væri með eigin rekstur, það hafi kannski haft sitt að segja þegar hún ákvað að reka eigin veitingahús. Matreiðsluáhugann hafi hún hins vegar ekki fengið frá þeim og hún hafi svo sem enga hugmynd um hvaðan hann sé sprottinn.

„Það er enginn í fjölskyldunni neitt tengdur inn í veitingahúsageirann eða matargerð,“ segir hún og hlær. „Mamma var hins vegar rosalega dugleg við að fara með mig út að borða þegar ég var lítil og mér fannst það alltaf mjög gaman. Við fórum líka oft með afa og ömmu út að borða, þau voru ekkert mikið að elda heima og ég held að við höfum farið mjög oft út að borða miðað við flesta aðra á þeim tíma. Ég fann alltaf að ég hafði mikinn áhuga á mat og öllu í kringum veitingahús og ég var strax, sjö eða átta ára, farin að velta því fyrir mér hvernig hægt væri að betrumbæta réttina sem við fengum og byrjaði snemma að gera mínar eigin tilraunir með slíkt. Auk þess var ég mikill aðdáandi sjónvarpsþátta þar sem kokkar léku listir sínar og tók þá upp á vídeó til að geta horft aftur og aftur. Svo fór ég að leika veitingahúsaleiki, fór að búa til matseðla og var alltaf að reyna að koma öllu sem mér fannst gott í sama réttinn, til að þurfa bara að elda einn rétt. Það var líka vinsælt hjá mér að bjóða vinum mínum heim eftir skóla og bjóða þeim upp á eitthvað sem ég hafði búið til sjálf. Ég gerði endalausar tilraunir með bæði mat og drykki og lét þá borða og drekka.“

- Auglýsing -

Erfitt fyrir stelpu að fá samning

Hrefna Rósa fór þó ekki strax í kokkanám eftir grunnskólann heldur lærði hönnun í Iðnskólanum en draumurinn um kokkinn blundaði alltaf í henni og hún byrjaði snemma að reyna að komast á samning sem kokkanemi á einhverju veitingahúsi sem var frumforsenda þess að hægt væri að fara í námið. En það gekk ekki auðveldlega enda ekki algengt á þeim tíma að konur væru kokkar á veitingahúsum.

Hrefna Rósa Sætran fékk óbilandi áhuga á matargerð strax í æsku og var orðin annar eigenda hins vinsæla veitingastaðar Fiskmarkaðarins 27 ára gömul.

„Maður þarf að fara sjálfur og finna sér samning áður en maður getur byrjað í skólanum,“ útskýrir hún. „Maður var labbandi inn á veitingahús og hótel að reyna að fá samning en það gekk ekkert sérlega vel. Þetta voru auðvitað ekkert rosalega margir staðir á þeim tíma, en ég fór á þónokkra staði og fékk neitun frá þeim öllum þannig að það tók töluverðan tíma fyrir mig að geta byrjað. Það var ekki fyrr en Apótekið var opnað að ég fékk vinnu á veitingahúsi, en ekki samning. Ég var nítján ára og hafði aldrei unnið í eldhúsi en vinur hans pabba var að vinna á Apótekinu og hann bauð mér að koma í prufu en þau vildu ekki vera með kokkanema þannig að ég byrjaði bara að vinna sem eldhússtarfsmaður. Eftir um það bil þrjá mánuði spurði yfirkokkurinn mig svo hvort ég hefði enn þá áhuga á því að læra kokkinn og ég hélt það nú, þannig að hann sótti um nemaleyfi fyrir mig og ég gat loksins byrjað að læra í alvöru.“

- Auglýsing -

Hrefna vann á Apótekinu þau fjögur ár sem námið tók en um það leyti sem hún var að útskrifast bauð eigandi Apóteksins henni starf á nýjum stað sem hann var að opna sem hét Maru og var til húsa þar sem Fiskmarkaðurinn er í dag og það segir hún hafa verið gríðarlega mikilvægt tækifæri til að sanna sig.

„Þar var ég meira og minna ein í eldhúsinu og bar mikla ábyrgð sem ég lærði mjög mikið af,“ segir hún. Það hafi þó alltaf blundað í henni að opna sinn eigin stað, enda hafi hún ekki bara áhuga á matargerðinni heldur öllu sem við kemur veitingahúsum og rekstri þeirra. „Ég fann það mjög fljótt að mig langaði til að vera þátttakandi í því að skapa heildarmynd staðarins og halda um alla tauma.“

Skrýtið að fá skipanir frá konu í eldhúsinu

Eftir útskrift var Hrefnu boðið að ganga til liðs við Sjávarkjallarann, sem hún segir að hafi verið einn vinsælasti veitingastaður bæjarins á þeim tíma og þegar hún hóf störf þar byrjaði hún á því að tilkynna eigandanum að sig langaði til að opna veitingastað í framtíðinni. Hún segir hann hafa sýnt mikinn áhuga á því og hún hafi fljótlega verið orðin vaktstjóri í eldhúsinu, þótt það væri ekki algengt á þeim tíma að konur væru yfirmenn í eldhúsum.

„Ég vann mig síðan upp í það að verða yfirkokkur og eigandinn sagði mér seinna að það hefði tekið hann mjög langan tíma að átta sig á því að það ætti að hlusta á þessa konurödd sem væri að skipa fyrir í eldhúsinu, það var enginn vanur því, hvorki hann né aðrir. Þessi eigandi Sjávarkjallarans er reyndar meðeigandi minn í dag og það var hann sem kom til mín einn daginn fyrir tólf árum og spurði hvort ég vildi enn þá opna veitingastað. Ég hélt það nú og til varð Fiskmarkaðurinn sem við rekum enn í dag.“

„Ég vann mig síðan upp í það að verða yfirkokkur og eigandinn sagði mér seinna að það hefði tekið hann mjög langan tíma að átta sig á því að það ætti að hlusta á þessa konurödd sem væri að skipa fyrir í eldhúsinu, það var enginn vanur því, hvorki hann né aðrir.“

Þessi saga af viðbrögðum við konu sem stjórnanda í eldhúsinu vekur upp spurninguna um hvort Hrefna hafi upplifað eitthvert mótlæti í geiranum vegna þess að hún er kona. Hún vill sem minnst gera úr því.

„Það gerðist aldrei eftir að maður fór að vinna með fólki,“ segir hún ákveðin. „Maður þurfti auðvitað alltaf að sanna sig í byrjun fyrir þeim sem maður var að vinna með, en það var aðallega fólk sem maður þurfti að eiga samskipti við utan eldhússins sem átti erfitt með þetta. Ég man sérstaklega eftir einum manni sem ég þurfti oft að tala við og hann bað sífellt um að fá að tala við yfirkokkinn og tók ekkert mark á mér þegar ég sagði að það væri ég. Körlunum sem ég var að vinna með fannst hins vegar bara voða gaman að fá konu í eldhúsið og töluðu oft um hvað það breytti umræðunni á vaktinni að þar væru ekki bara karlar. Þetta var búið að vera nánast hreinræktað karlasamfélag svo lengi að ég held í alvöru að allir hafi verið ánægðir með að það breyttist.“

Síðan Hrefna Rósa kom fram á sjónarsviðið sem kokkur hefur konunum í stéttinni þó fjölgað töluvert og hún er að vonum ánægð með það.

„Það er allavega orðið mun meira af sýnilegum konum í kokkastéttinni,“ segir hún. „Það eru til dæmis nokkrar konur í kokkalandsliðinu, ég held þær séu orðnar helmingur af liðinu, en það endurspeglast ekki í eldhúsum veitingahúsanna, það er meira valið í liðið til að passa upp á að kynjahlutföllin séu ekki óhagstæð.“

Samdráttur í ferðamannaiðnaði bitnar lítið á rótgrónum stöðum

Árið 2011 opnuðu Hrefna og tveir meðeigendur hennar síðan Grillmarkaðinn, sem nánast frá fyrsta degi hefur notið gríðarlegra vinsælda sem hún segir að ekki hafi dregið úr, þrátt fyrir samdrátt í ferðamannaiðnaðinum.

„Það er vissulega samdráttur en veitingastaðir sem eru orðnir tólf og sjö ára standa auðvitað mun betur að vígi en þeir sem eru nýir.“

„Það er alltaf stemning á Grillmarkaðnum og alltaf nóg að gera,“ fullyrðir hún. „Það kemur mikið af íslenskum fastakúnnum þangað þannig að hann er ekki háður ferðamannastraumnum. Á Fiskmarkaðinum höfum við aðeins fundist fyrir samdrætti í aðsókn en ekkert stórkostlega. Það er vissulega samdráttur en veitingastaðir sem eru orðnir tólf og sjö ára standa auðvitað mun betur að vígi en þeir sem eru nýir. Þeir eru orðnir rótgrónir og hafa tryggari rekstrargrundvöll.“

Lokun Skelfiskmarkaðarins áfall

Hér talar Hrefna af eigin reynslu því nýjasta staðnum sem hún var meðeigandi að, Skelfiskmarkaðnum sem komst í fréttir í fyrra vegna tilfellis af matareitrun gesta, var lokað fyrir skömmu. Hún viðurkennir fúslega að það hafi verið áfall.

„Það voru auðvitað margar ástæður fyrir því að hann gekk ekki,“ segir hún. „Matareitrunin var stærsta ástæðan og ýmislegt annað sem við höfðum ekki stjórn á. Janúar var einn versti mánuður í ferðamannaiðnaðinum síðastliðin tíu ár og fyrir svona nýtt fyrirtæki var það mjög erfitt. Það var ekki næg innkoma til að borga niður skuldir og þótt við reyndum að létta undir með því að setja inn í hann peninga frá Fiskmarkaðinum og Grillmarkaðinum, þá gekk það auðvitað ekki til lengdar og við neyddumst til þess að loka staðnum.“

Eigendur Skelfiskmarkaðarins voru fimm og spurð hvort sá hópur hafi einhver áform um að stofna nýjan stað segir Hrefna það ekki inni í myndinni.

„Það tekur auðvitað smátíma að vinna sig út úr svona áfalli en ég myndi segja að það hafi gert okkur að enn nánari vinum en áður.“

„Við þrjú sem eigum Grillmarkaðinn vorum öll eigendur að Skelfiskmarkaðinum og tveir aðrir með okkur sem ekki tengjast neinu öðru hjá okkur og þegar þetta gekk ekki upp hurfu þeir bara til annarra starfa en við þrjú stöndum eiginlega sterkari eftir þessa reynslu,“ segir hún. „Við höfum alltaf verið dálítið sólarmegin í lífinu og það er auðvitað öðruvísi samstarf þegar allt gengur vel heldur en þegar hlutirnir verða erfiðir þannig að það var í rauninni ótrúlega gott fyrir okkar samstarf að ganga í gegnum þessa reynslu og finna hvað við stöndum vel saman. Það tekur auðvitað smátíma að vinna sig út úr svona áfalli en ég myndi segja að það hafi gert okkur að enn nánari vinum en áður.“

Engin ofurkona

Við erum endalaust búnar að vera að tala um mat og veitingahúsarekstur, er það það eina sem kemst að í lífi Hrefnu?

„Nei, ekki alveg,“ segir hún og hlær. „Það er mjög stór partur af mér en ég hef mikinn áhuga á ýmsum öðrum hlutum. Ég lærði hönnun á sínum tíma og langaði að verða vöruhönnuður eða innanhússarkitekt, fannst það mjög spennandi. Ég hef mikinn áhuga á húsum og sniðugum vörum og fæ alls konar hugmyndir í sambandi við það. Og hver veit, nú á dögum getur fólk skipt um starfsvettvang hvenær sem er eða gert mismunandi hluti í einu og ég er ekki nema 38 ára þannig að ég gæti kannski einhvern tíma seinna skipt um vettvang. Við sjáum til.“

Hrefna viðurkennir fúslega að hún sé afskaplega mikið í vinnunni og alltaf tilbúin að stökkva til ef á þarf að halda þótt hún hafi ætlað sér að vera í fríi. Hún vill þó engan veginn meina að hún sé einhver ofurkona.

Hrefna Rósa er gift Birni Árnasyni ljósmyndara og þau eiga tvö börn, sex og sjö ára. Björn er nýtekinn aftur við rekstri Skúla craft bar sem þau hjónin eiga með öðrum, hvernig gengur að púsla saman heimilislífinu og allri þessari vinnu?

„Þetta hefur verið heilmikið púsl,“ segir Hrefna og brosir. „En maður er búinn að læra á þetta og þótt það verði að segjast eins og er að við hjónin erum nánast alltaf að tala um vinnuna þá gefum við okkur alveg tíma til að sinna öðru með. Ömmur og afar hjálpa okkur mikið með krakkana, enda finnst þeim alveg óskaplega skemmtilegt að vera amma og afi og eru svakalega samhent í því. Við foreldrar mínir höfum alltaf öll verið óskaplega góðir vinir og getum talað um alla hluti og þegar fólk spyr hvort það hafi verið áfall þegar þau skildu, klóra ég mér eiginlega bara í kollinum. Ég man ekki til þess að ég hafi verið að velta því eitthvað sérstaklega fyrir mér á þeim tíma. Ég flutti að heiman átján ára og um svipað leyti flutti pabbi út en það var bara svo margt annað í gangi hjá manni sem unglingi að þetta olli mér eiginlega aldrei neinum vangaveltum. Þetta var bara partur af lífinu.“

Hrefna viðurkennir fúslega að hún sé afskaplega mikið í vinnunni og alltaf tilbúin að stökkva til ef á þarf að halda þótt hún hafi ætlað sér að vera í fríi. Hún vill þó engan veginn meina að hún sé einhver ofurkona.

„Ég bara geri það sem þarf að gera hverju sinni,“ segir hún. „Ég er voðalega lítið fyrir það að mikla hlutina fyrir mér eða auglýsa það eitthvað sérstaklega hvað ég er að gera. Fólk er oft að furða sig á því hvað ég sé með mikið í takinu en ég hugsa aldrei þannig. Þetta varð reyndar svolítið mikið þegar við vorum með Skelfiskmarkaðinn en í dag finnst mér bara gaman að fara aftur í það sem ég veit að við gerum vel og gera það enn betur.“

Aldrei tekið sumarfrí

Hrefna segist alltaf hafa verið svona aktíf, hún hafi alltaf haft meira en nóg að gera. Hún hafi til dæmis æft og keppt í samkvæmisdansi frá fjögurra ára aldri þangað til hún varð fjórtán ára og verið á stöðugum ferðalögum til útlanda til þess að æfa og keppa en hún afi hætt því á unglingsárunum þegar vinirnir fóru að skipta mestu máli í lífinu. Hún hlýtur þó stundum að verða þreytt á þessu endalausa ati, hvað gerir hún til að kúpla sig frá vinnunni og slappa af?

„Ef ég ætla að eiga frí verð ég að fara úr bænum,“ segir hún. „Ég get ekki verið heima og verið í fríi. Það er alltaf verið að hringja og biðja mann að koma og gera eitthvað og ég segi alltaf já. Þannig að ef ég ætla að fá frí fer ég til útlanda eða út á land svo ég geti með góðri samvisku sagt að ég bara því miður komist ekki. En það er alltaf bara í nokkra daga í einu. Ég held að lengsta samfellda frí sem ég hafi tekið mér um ævina hafi verið þrjár vikur en þá var ég samt alltaf að gera eitthvað sem tengdist vinnunni, það er enginn sem leysir mann af og ég hef aldrei farið í langt sumarfrí eins og fólk gerir þegar það vinnur hjá öðrum. Ég sakna þess samt ekkert, mér finnst óskaplega gaman í vinnunni en ég held ég myndi samt ekki segja nei við því ef tækifæri byðist til að vera frá lengur. Og núna eftir að Skelfiskmarkaðinum var lokað hefur hægst aðeins um og það eru meiri líkur á því að maður komist kannski í alvörufrí. Ég var einmitt að hugsa um það fyrir stuttu að mig langaði til að vera í fríi heima hjá mér til að gera og græja eitthvað í húsinu sem ég flutti í fyrir níu árum. Þannig að ég er að spá í að reyna það í sumar, ég veit reyndar ekki hvernig ég á að fara að því, hvort ég þurfi að segjast vera í útlöndum eða eitthvað en ég fer að sjálfsögðu ekki að blaðra frá því í blöðunum,“ segir hún og skellihlær. „Hugsanlega gæti ég prófað að segja bara að ég komist ekki en ég sé ekki alveg sjálfa mig gera það.“

Flytur inn vín með fótboltastjörnu

Spurð hvort hún hafi ekki orðið fyrir neinum alvarlegum áföllum í lífinu vill Hrefna sem minnst gera úr því. Hún sé ekki týpan sem leggur slæma reynslu á minnið.

Meginmarkmiðið hjá mér akkúrat núna er bara að reyna að einfalda lífið,“ segir Hrefna. „Hugsa vel um það sem ég þegar er með og reyna að gera það sem fullkomnast.“

„Það var áfall hvernig fór með Skelfiskmarkaðinn, ég viðurkenni það, og tekur tíma að jafna sig á því,“ segir hún. „En ég er ofboðslega jákvæð manneskja þannig að ég man eiginlega bara það góða úr lífinu og er fljót að gleyma því slæma. Auðvitað gerist margt í lífinu, hjá mér eins og öllum öðrum, mér fannst til dæmis óskaplega erfitt þegar afi og amma, sem ég hafði verið svo mikið hjá, dóu þegar ég var tólf og þrettán ára og hin amma mín þegar ég var sautján ára, það var erfið reynsla, sérstaklega á þessum aldri að missa fólkið sem var stoð manns og stytta. En það er bara hluti af því að lifa, er það ekki? Ég vann um tíma þegar ég var unglingur í býtibúri á hjartadeild og gjörgæslu Landspítalans og það var mjög þroskandi og gefandi að fá að upplifa að vera með í því. Það breytir svolítið áherslunum hjá manni.“

Hrefna segist ekki vera með nein ný verkefni á prjónunum í augnablikinu, fyrir utan að taka sumarfrí án þess að forða sér úr landi en það komi samt alltaf einhver ný tilboð inn á borð til hennar sem veki áhuga hennar. Hana langi til dæmis að gera fleiri sjónvarpsþætti í líkingu við þættina um Japan sem voru sýndir í Sjónvarpi Símans en það sé ekki hafinn neinn undirbúningur að því. Hins vegar byrji tökur á fjórðu seríu af Ísskápastríðinu í næstu viku.

„Meginmarkmiðið hjá mér akkúrat núna er bara að reyna að einfalda lífið,“ segir hún. „Hugsa vel um það sem ég þegar er með og reyna að gera það sem fullkomnast. Við erum líka að flytja inn vín frá Ítalíu í samstarfi við Emil Hallfreðsson fótboltamann sem býr þar og tengist inn í fjölskyldu meðeiganda míns. Það er alveg sérfyrirtæki í kringum það og mér finnst sá bransi mjög áhugaverður og okkur langar að leggja meiri áherslu á þennan hluta starfseminnar í framtíðinni. Svo kemur bara í ljós hvað manni dettur í hug næst, en það verður allavega ekki opnun á nýjum veitingastað. Ekki neitt á næstunni að minnsta kosti.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -