Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

„Það er aldrei neinn slakur á Íslandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hlynur Bæringsson og Jón Arnór Stefánsson hafa verið burðarásar íslenska landsliðsins í körfubolta undanfarna tvo áratugi. Ekki bara leiddu þeir liðið á sitt fyrsta stórmót heldur hafa þeir einnig rutt brautina fyrir unga og efnilega leikmenn í atvinnumennsku erlendis. Þeir kvöddu íslenska landsliðið í gær en segjast báðir eiga nóg eftir til að halda áfram að spila á Íslandi.

Þótt þeir Hlynur og Jón Arnór hafi verið samstiga í landsliðinu allt frá því þeir spiluðu sinn fyrsta landsleik árið 2000, þá er ferill þeirra og bakgrunnur töluvert frábrugðinn. Jón Arnór fór ungur að árum í framhaldsskóla, varð annar Íslendingurinn til að komast á mála í NBA-deildinni og eyddi svo lunganum af ferlinum í Suður-Evrópu með nokkrum af bestu liðum álfunnar.

Ef undan er skilið eitt skrautlegt ár í Hollandi fór Hlynur hins vegar ekki í atvinnumennskuna fyrr en hann var langt genginn á þrítugsaldurinn eftir að hafa lagt undir sig Vesturlandið, fyrst í Borgarnesi og síðar í Stykkishólmi. Hann lék í sex ár við góðan orðstír hjá Drekunum í Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni. Þeir hafa hins vegar verið samstiga í landsliðinu og því viðeigandi að þeir hafi kvatt það í sameiningu í gærkvöldi. Þeir félagar voru hinir kátustu þegar Mannlíf settist niður með þeim á milli æfinga þótt tilhugsunin um að fara að spila sinn síðasta landsleik veki blendnar tilfinningar.

„Fyrir mig persónulega er þetta pínu frelsandi, að það sé búið að taka þessa ákvörðun og maður getur horft til baka bæði stoltur og þakklátur. Þetta hefur verið ofboðslega skemmtilegt en fyrir mitt leyti var kominn tími á þetta,“ segir Jón Arnór.

„Ég er leiður líka,“ skýtur Hlynur inn í. „Ég segi það sama og Jón með þetta allt saman. Það er gott að vera búinn að taka þessa ákvörðun. Ég hef verið á leiðinni að hætta í nokkur ár. Ferillinn er stuttur og þetta er stór hluti af því sem þú ert og eitthvað sem þú tekur með þér út lífsleiðina. Ég er ekki dapur en þetta eru blendnar tilfinningar, skulum við segja.“

Jón Arnór tekur undir þetta. „Það kannski kemur seinna að maður eigi eftir að sakna þess gríðarlega að vera í þessu. Eins og hann sagði, við höfum báðir verið að reyna að hætta í langan tíma sem kannski segir okkur að það er ofboðslega gefandi að taka þátt í þessu. Mikið stolt að spila fyrir Ísland og allt þetta.“

Hápunkturinn í Berlín

- Auglýsing -

Mikill uppgangur hefur verið í íslenskum körfubolta undanfarin ár og árið 2015 komst íslenska landsliðið í fyrsta skipti á stórmót þegar það vann sér þátttökurétt í úrslitakeppni EM sem fram fór í Berlín. Þar sýndi íslenska liðið frábæra frammistöðu og þótt enginn sigur hafi unnist stóð það í nokkrum af bestu körfuboltaþjóðum heims. Leikurinn var endurtekinn tveimur árum síðar og þá var leikið í Finnlandi. Þar var frammistaðan langt undir væntingum og töpuðust flestir leikirnir með miklum mun.

Því miður unnum við ekki leik en ótrúlegt en satt þá hefðum við í góðum heimi getað unnið þrjá leiki þarna

Hlynur: „Að spila á stórmóti var eitthvað sem kom svo einlæglega á óvart því það var ekkert sem benti til þess að við færum á stórmót í körfubolta. Ég bjóst ekki við því sjálfur, hefði aldrei giskað á það. Ég man að við Jón vorum á kaffihúsi í Þýskalandi fyrir mótið, þá vorum við að tala um að við yrðum sáttir að vera ekki jarðaðir í öllum leikjunum, að ná einum leik sem væri jafn. En svo urðu bara allir leikirnir jafnir. Því miður unnum við ekki leik en ótrúlegt en satt þá hefðum við í góðum heimi getað unnið þrjá leiki þarna.“

Jón Arnór: „Fyrra mótið var klárlega hápunkturinn en það seinna var erfiðara. Það gekk illa.“

- Auglýsing -

Hlynur: „Við vorum að leita eftir sömu upplifuninni og í Berlín en hún kom ekki. Það var ekki jafnskemmtilegt, það voru ákveðnar væntingar og menn náðu ekki að uppfylla þær.“

Jón Arnór: „Ég held að það hafi aldrei hægt að toppa þær tilfinningar sem við fundum í Berlín. Við höfðum verið þarna áður og upplifað þessa útópíu í Berlín og menn voru kannski að elta þá tilfinningu. Mögulega var andrúmsloftið öðruvísi, pressan meiri á liðinu og ætlast til að við myndum vinna leik. Við settum kannski á okkur þá pressu sjálfir að við vildum ekki fara í gegnum tvö stórmót og vinna ekki leik en við vorum í svipuðum ef ekki sterkari riðli. Væntingastjórnunin hefði getað verið öðruvísi.“

Hlynur: „Eðlilega fór körfuboltaáhugafólk á flug, við höfðum verið nálægt því að vinna þessa leiki og hugsað: Við hljótum að vinna einn leik næst. Þetta var umræða sem við höfðum ekki vanist. Önnur lið og aðrir íþróttamenn hafa kannski meiri reynslu af því. Það var alveg eðlilegt að fólk hefði einhverjar væntingar en við vorum bara ekki vanir því. En það var ekki úrslitafaktor á þessu móti, alls ekki.“

 Vorum algjörlega vopnalausir

Það hefur margt breyst frá aldamótum þegar þeir Hlynur og Jón Arnór léku sinn fyrsta landsleik. Aðstaða, þjálfun og öll ytri umgjörð er orðin mun betri og einkennist af fagmennsku í stað áhugamennsku áður. Sem reynsluboltanir í liðinu undanfarin ár hafa þeir félagar verið í því hlutverki að deila reynslu sinni til sér yngri leikmanna. Allt þetta er eitthvað sem þeir Jón Arnór og Hlynur hefðu viljað njóta.

Landsleikurinn í gær var sá 100. hjá Jóni Arnóri en Hlynur hefur spilað alls 125 leiki í íslensku treyjunni. Mynd/Hallur Karlsson

„Það eru himinn og haf á milli hugarfarsins og æfinga eins og það er í dag. Ekki bara í landsliðinu heldur líka í Borgarnesi þegar ég var að byrja. Eftir á að hyggja finnst mér leiðinlegt að hafa ekki verið í þessu umhverfi sem ungur maður. Ég hafði ekkert að stefna á, þannig. Jú, auðvitað stefndi maður að því að verða góður en það var engin leið. Það var enginn búinn að ryðja leiðina. Það voru vissulega margir góðir menn sem komu og töluðu við mann og ég er mjög þakklátur fyrir það en það var engin konkret leið að næsta skrefi,“ segir Hlynur og bætir við að í þessu felist enginn áfellisdómur yfir einum eða neinum. Allir hafa verið að gera sitt besta en þekkingin einfaldlega ekki verið til staðar.

Ég hafði ekkert að stefna á, þannig. Jú, auðvitað stefndi maður að því að verða góður en það var engin leið. Það var enginn búinn að ryðja leiðina.

Jón Arnór samsinnir þessu. „Það var bara svona og menn þekktu ekkert annað. Bara umgjörðin í kringum liðið, það voru engin æfingasett og frekar lítið skipulag. Það var eiginlega engin framtíðarsýn og ekki verið að keppa að neinu. Menn fóru bara út á völl og gerðu sitt besta, algjörlega vopnalausir. Það var samt alltaf rosalega gaman. Það voru öll tækifæri nýtt og mikið verið að fagna, fagna góðri æfingu eða fagna góðum leik. Sá mórall í íslenska landsliðinu hefur alltaf verið til fyrirmyndar. En körfuboltinn fylgdi aldrei með. Með Peter [Ögvist, fyrrum landsliðsþjálfara] og komu hans inn í landsliðið fóru menn að setjast niður og setja sér markmið og fagmennskan og allt í kring breyttist.“

 Ótímabær yfirlýsing sett á ís

Þeir Hlynur og Jón Arnór eru báðir á 37. aldursári og því farið að síga á síðari hluta ferilsins en báðir segjast þeir eiga nóg eftir. Jón Arnór gaf reyndar út þá yfirlýsingu í haust að tímabilið í ár yrði hans síðasta en hann virðist hafa fengið einhverja bakþanka eftir því sem liðið hefur á tímabilið. „Það voru kannski pínu mistök að gefa það út að ég væri hættur í þessu. Ég ætla bara aðeins að þegja um það. Líkaminn á mér er miklu betri en ég hafði búist við. Ég dreg fyrri yfirlýsingu kannski ekki til baka en ég set hana á ís.“

Hlynur er hins vegar ekkert á leiðinni að hætta. „Ég ætla að spila lengur. Mér finnst ég alveg geta það og ef ég held heilsu ætla ég að halda áfram. Ég þarf þá að vera í ákveðnu liði. Ég ætla ekki að fara í eitthvað hark með einhverju slöku liði. Ef við erum með gott lið eins og við erum með núna í Stjörnunni þá get ég haldið áfram en þá í einhverju minna hlutverki. Ég get ekki verið einhver burðarás endalaust. Ég held bara að ég myndi sakna þessa svo ofboðslega. Stundum nenni ég ekki á æfingu og er kominn með hundleiða á þessu, ég viðurkenni það alveg. En að keppa, ég fæ aldrei leiða á því.“

Jón Arnór: „Það er mikilvægt þegar maður er kominn á þennan aldur að maður sé ekki alltaf drifkrafturinn eða „go-to“-gæinn, heldur að maður passi inn í liðið, geti gefið liðinu eitthvað, að manni líði þannig að maður sé að leggja sitt af mörkum og maður eigi séns á að vinna eitthvað. Þessi körfubolti kemur aldrei aftur. Lífið getur svolítið beðið og ætli maður sjái ekki eftir því ef maður hættir of snemma.“

Hlynur: „Bróðir þinn, Ólafur [Stefánsson, fyrrum landsliðsmaður í handbolta], sagði einhvern tímann við þig og þú sagðir það við mig að maður eigi aldrei að hætta.“

Jón Arnór: „Já, ef þú getur eitthvað áttu aldrei að hætta.“

Hlynur: „Það er kannski einum of.“

Jón Arnór: „Já, ég er núna farinn að skilja hvað hann er að tala um. Maður á óneitanlega eftir að sakna þess gríðarlega að vera í kringum liðið, vera í klefanum, spila þessa fallegu íþrótt, keppa og upplifa þessa litla og stóru sigra.“

 Lenti á svörtum lista í Bandaríkjunum

Þótt atvinnumannaferill þeirra beggja sé glæsilegur þá voru þeirra fyrstu skref ekki eins og þeir höfðu ímyndað sér. Sautján ára gamall hélt Jón Arnór til Kaliforníu þar sem hann lék með framhaldsskólaliði Artesia samhliða námi. Það ævintýri hlaut óvæntan endi af ástæðum sem voru Jóni óviðkomandi en höfðu þó áhrif á hans framtíðarplön. „Þetta snerist um landvistarleyfið mitt. Það var þannig að í umsókninni var ég skráður í annan skóla en ég gekk í. Þetta var víst eitthvað sem var alltaf gert. Ég fékk bara pappíra senda til mín sem ég fyllti út með foreldrum mínum, fór með þá í sendiráðið og fékk þetta leyfi. Svo pældi ég ekkert meira í því.“

Þetta var hins vegar hluti af stærra og veigameira svindli í kringum rekstur liðsins sem komst upp og upphófst veigamikil rannsókn. „Þetta varð stórmál. Þannig að eftir þessi tvö ár þar varð ég að yfirgefa landið, flýja nánast. Ég fór á einhvern lista hjá bandarískum yfirvöldum í einhvern tíma sem var algjörlega galið og um tíma gat ég ekki ferðast til Bandaríkjanna. Það leystist allt upp þar, þjálfarinn lét sig hverfa og ég veit ekkert hvað varð um hann. Skólastjórinn var rekinn og yfirmaður íþróttadeildarinnar líka,“ útskýrir Jón Arnór.

„Hvarf hann bara? Er ekki búið að finna hann?“ spyr Hlynur sem hefur gaman af frásögn Jóns Arnórs. „Ég held að hann hafi dúkkað upp einhvers staðar, ég veit ekki hvar. En þetta var á öllum stærstu sjónvarpsstöðunum, ESPN, USA Today og fleirum sem var algjörlega sturlað. En þetta breytti svolítið plönunum mínum á þessum tíma því ég hafði það alltaf sem markmið að komast í bandarískan háskóla en ég þurfti að fara heim,“ segir Jón Arnór sem með hjálp góðra manna tókst að koma sér af svarta listanum alræmda. Blessunarlega því um fjórum árum síðar skrifaði hann undir samning við Dallas Mavericks í NBA-deildinni eftir gott tímabil í þýsku úrvalsdeildinni.

 Skrautlegt ár í Hollandi

Ferill Hlyns fór hins vegar hægar af stað. Hann vakti fyrst athygli með Skallagrími í Borgarnesi og var valinn fyrst í landsliðið á 18. aldursári. Eftir það stóð honum til boða að fara til Spánar og fleiri landa að spila en hann ákvað frekar að færa sig vestur í Stykkishólm þar sem hann varði næstu þremur árum. Þá steig hann sín fyrstu skref utan Íslands þegar hann gekk til liðs við hollenskt lið að nafni Aris Leeuwarden en það reyndist ekki það happaskref sem Hlynur vonaðist til.

Þeir Hlynur og Jón Arnór eru báðir á 37. aldursári og því farið að síga á síðari hluta ferilsins en báðir segjast þeir eiga nóg eftir. Mynd/Hallur Karlsson

„Það var í raun og veru bara vitleysa. Umhverfið var ekki gott og þetta var mjög skrautlegt,“ útskýrir Hlynur á meðan Jón Arnór hlær og býðst til að sýna blaðamanni mynd af „Hollands-Hlyni“. Hlynur heldur hins vegar áfram og lætur eins og hann hafi ekki heyrt þetta skot frá félaga sínum: „Við vorum ekki með kerfi þegar tímabilið byrjaði og það var aldrei skoðaður andstæðingur fyrir leiki – þetta eru engar ýkjur.

Hann mætti bara, opnaði kassa af bjór, setti einhvern leik í gang og fór svo bara eitthvert annað.

Ég man að það var einhvern tíma vídeófundur og það leystist bara upp í vitleysu því þjálfarinn var ekkert á fundinum; hann mætti bara, opnaði kassa af bjór, setti einhvern leik í gang og fór svo bara eitthvert annað. Einhvern tíma horfðum við á leik frá árinu áður og það voru ekki einu sinni sömu leikmenn og annar þjálfari. En þetta er allt skóli. Það er hægt að læra af þessu.“

Hlynur deilir fleiri sögum úr reynslubankanum og hann er hreinskilinn með það þegar hann missti fókusinn snemma á ferlinum og fór að slá slöku við. Tiltekur hann síðustu árin í Borgarnesi og þau fyrstu í Stykkishómi. „Þarna missti maður kannski fótanna. Það vantaði eitthvað, einhvern til að leiðbeina manni eða eitthvað svoleiðis. Frá svona 1999 til 2003 æfði ég ekki meira en þurfti og var með fókusinn einhvers staðar annars staðar. Maður var bara kærulaus og það var annað sem var í fyrsta sæti. Maður fór út að skemmta sér með félögunum, spilaði Championship Manager fram á nótt. Ég mætti alveg á æfingar en gerði bara það sem dugði til.“

Hlynur segir að þessi ár hafi kostað hann mikið upp á möguleika hans erlendis. „Ég eignaðist fyrsta barnið mitt 2007 og þá bara breyttist lífið og maður gat ekkert verið að gera það sem maður var að gera. Ég man að á þessum tímapunkti stóð ég mig vel með landsliðinu þrátt fyrir að vera að spila á móti gaurum sem voru á miklu hærra „leveli“ en ég, voru atvinnumenn sem æfðu tvisvar á dag alla daga vikunnar. Samt náði ég að standa í þeim og ég hugsaði hvort ég væri ekki bara betri en þeir ef ég myndi bara æfa eins og maður. Það var smá „wake-up call“.“

Maður var bara kærulaus og það var annað sem var í fyrsta sæti. Maður fór út að skemmta sér með félögunum, spilaði Championship Manager fram á nótt.

Þessi hugarfarsbreyting átti heldur betur eftir að skila sér því hann átti nokkur frábær tímabil árin þar á eftir og endaði með því að skrifa undir samning við Sundsvall Dragons í Svíþjóð. Þar lék hann við góðan orðstír í sex ár, varð Svíþjóðarmeistari 2011 og tvívegis valinn besti varnarmaður sænsku deildarinnar.

 Alltaf eitthvað sem maður vildi gera öðruvísi

Á sama tíma var Jón Arnór að gera góða hluti í Evrópu og lék með liðum í Rússlandi, Ítalíu og lengst af á Spáni, einni allra sterkustu deild Evrópu. „Það var góður rúntur og mikil reynsla. Ég upplifði alveg toppinn á evrópskum körfubolta og fékk að upplifa NBA-deildina í gegnum Dallas og sjá hvernig hlutirnir eru gerðir þar. Auðvitað fullt af hlutum sem maður hefði viljað gera öðruvísi en heilt yfir er ég nokkuð sáttur við ferilinn. Það eru kannski nokkur sumur sem ég hefði viljað nýta betur. Það var ofboðslega gaman að koma heim á sumrin, stundum of gaman. En það er náttúrlega partur af því að vera ungur og allt það. Maður var alltaf í burtu, mér fannst ég vera að missa af einhverju hérna heima og reyndi að bæta það allt saman upp á þessum tveimur mánuðum.“

Það var ofboðslega gaman að koma heim á sumrin, stundum of gaman.

Hlynur segir það liggja í mannsins eðli að horfa til baka og velta upp ákvörðunum sem voru teknar eða ekki teknar. Það eigi við jafnt um íþróttamenn sem aðra. „Það er mannlegt að allir sjái eftir einhverju. Lífið er ekki skrifað handrit sem gengur alltaf 100 prósent upp. En ég græt ekkert í koddann yfir einhverjum ákvörðunum.“

Jón Arnór: „Maður lítur til baka og það eru ákveðin atriði en þau breyta engu fyrir okkur. Ég er alveg sáttur við allt og ég sé ekki eftir neinu því þetta var allt alveg ótrúlega gaman. En þetta er eitthvað sem við getum miðlað áfram til einhverra, talað til annarra leikmanna.“

Hlynur: „Það er líka ýmislegt annað sem gerist í lífinu gott. Ég fór til dæmis ekki snemma út í atvinnumennsku. Ég hefði getað farið í prógram þar sem ég hefði getað orðið ennþá betri í körfubolta, en að sama skapi fer ég í Stykkishólm og þar kynnist ég fjölskyldunni minni. Það hefði til dæmis ekki gerst. Svona er bara lífið, maður tekur einn krók og það bara opnast eitthvað annað. Kannski hefði ég komið grátandi heim frá Spáni með heimþrá eftir tvær vikur.“

 Aldrei neinn slakur á Íslandi

Hlynur og Jón Arnór sneru báðir heim úr atvinnumennsku árið 2016. Þeir viðurkenna að það hafi kostað töluvert átak að aðlagast íslensku samfélagi á ný enda takturinn hér heima allt annar og hraðari en í Svíþjóð og Suður-Evrópu.

Jón Arnór: „Ég naut þess sérstaklega seinni hluta atvinnumannsferilsins þegar ég var kominn með konu og börn að geta átt tíma með þeim. Það er ofboðslega dýrmætur tími þegar ég hugsa til baka, að maður hafi fengið að njóta þeirra forréttinda að verja svona miklum tíma með börnunum sínum. Ég finn mikið fyrir því þegar ég kem heim til Íslands að hraðinn er meiri, konan er farin að vinna og krakkarnir í skóla þannig að við sjáum minna hvert af öðru. Þessi dýrmæti tími saman er eitthvað sem þegar ég horfi tilbaka er mér ótrúlega dýrmætur.“

Hlynur: „Þar er ég sammála þér. Maður hafði alltaf tíma til að gera allt. Þegar ég var í Svíþjóð voru tvær æfingar á dag en samt hafði maður tíma til að fara á leikskólann og maður sá miklu meira af fjölskyldunni. Þegar maður horfir til baka þá eru það helstu forréttindin við atvinnumennskuna. Nú er bara allur dagurinn undirlagður. Það er veruleikinn hérna á Íslandi að það eru allir eru stressaðir með kvíðahnút í maganum um hvar þeir eiga vera hér og þar allan daginn, á þeytingi út um allt, að gera betri hluti en þeir eru að gera. Mér finnst aldrei neinn vera í ró hérna. Það er aldrei neinn slakur á Íslandi.“

Jón Arnór: „Fólk er líka alltaf að hafa óþarfa áhyggjur af náunganum sem er ekki að gera neitt. „Ertu í skóla, ertu að vinna?“

Hlynur: „Ég geri mér grein fyrir því að það er allt annað að vera atvinnumaður en að vinna hérna heima. En tempóið er allt annað. Áherslan þar er mun meiri á tímann með fjölskyldunni, þeir búa til sitt prógram í kringum það. Hérna finnst mér fólk alltaf þurfa að vera að sanna eitthvað, að það þurfi að vera að gera eitthvað, að vera á leiðinni eitthvað.“

Jón Arnór: „Maður alveg dettur í þetta sjálfur. Á Spáni og Ítalíu var allt byggt í kringum þessi fjölskyldugildi. Það er bara skylda um helgar, sama hvað þú ert gamall eða með bullandi unglingaveiki eða ekki, þá bara mætir þú í mat hjá stórfjölskyldunni og þið sitjið þarna saman í fimm klukkutíma. Það er bara partur af rútínunni. Fólk hittist, öll stórfjölskyldan, ekki bara á jólum eins og við kannski þekkjum.“

Hlynur: „Ég hed að það séu margir á Íslandi sem gengur mjög vel í starfi eða hverju sem er, en er svo með samviskubit yfir því að hafa ekki tíma fyrir það sem það myndi helst vilja að gera. Krakkarnir eru í skólanum til fjögur, svo þarf að gera eitthvað og græja og svo er dagurinn bara farinn. En svo má heldur ekki gleyma því að fólk þarf að lifa af, það er fullt af fólki sem er einfaldlega í þeirri aðstöðu. Það væri óskandi að það væri aðeins hægara tempó hérna.“

Jón Arnór: „Það er allavega munurinn á Íslandi og Spáni að gæinn sem á sjoppuna á horninu á Spáni, keyrir ekki um á Range Rover. Er það ekki lýsandi dæmi? Kaupmaðurinn á horninu á Spáni á nóg fyrir sig og sína og hann reynir að vinna eins lítið og hann getur. Það eru öll frí brúuð, ef það er frí á fimmtudegi þá er bara lokað á föstudegi og fram á mánudag. Þetta getur verið mjög pirrandi en er samt mjög fallegt á sama tíma.“

Hlynur: „En ég held líka að það séu margir hér heima sem spenna bogann ansi hátt og eiga ekkert almennilega fyrir því sem þeir eru að gera. Þeir eru að fylla upp í einhverja ímynd af því sem þeir eiga að vera. Mér heyrist það á mörgum.“

Ekki mannréttindi að spila í úrvalsdeildinni

Úrslitakeppnin í úrvalsdeildinni nálgast og þar verða lið þeirra Jóns Arnórs og Hlyns, KR og Stjarnan, í eldlínunni. Sú breyting var gerð á fyrir tímabilið að svokölluð 4+1-regla var afnumin, en í henni fólst að fjórir íslenskir leikmenn þurftu að vera inni á vellinum hverju sinni á móti einum erlendum leikmanni. Þessi regla hafði verið við lýði í nokkur ár en fyrir lá að hún braut gegn EES-samningum. Þetta hefur hins vegar verið afar umdeilt. Fylgjendur 4+1 segja að þetta gefi ungum og upprennandi leikmönnum frá Íslandi meiri tíma inni á vellinum og um leið meiri möguleika til framþróunar en aðrir segja að þetta komi niður á gæðum deildarinnar. Þeir Hlynur og Jón Arnór tilheyra síðarnefnda hópnum.

„Hérna finnst mér fólk alltaf þurfa að vera að sanna eitthvað, að það þurfi að vera að gera eitthvað, að vera á leiðinni eitthvað.“ Mynd/Hallur Karlsson

Jón Arnór: „Deildin hefur aldrei verið sterkari en einmitt núna. Mér finnst það jákvætt. Þetta eykur gæðin á leiknum og gerir öllum gott. Ég held að þetta haldi ekki aftur af jákvæðri þróun á íslenskum leikmönnum.“

Hlynur: „Ef við bönnum alla útlendinga í deildinni, þá eðlilega munu einhverjir skara fram úr í lélegri deild. En það þýðir ekkert að leikmennirnir séu orðnir það mikið betri. Það er alveg sama hversu lélegt liðið er, það er alltaf einhver stigahæstur. Þetta er gott fyrir þá sem eru bestir. Þeir munu alltaf fá að spila og eru að spila við betri menn. Í barnaíþróttum á fókusinn að vera á jákvæða upplifun fyrir alla, hreyfingu og að undirbúa einstaklingana fyrir framtíðina en þegar þú ert kominn yfir ákveðinn aldur, um 16 ára, verða margir íþróttamenn fyrir vonbrigðum. Langflestir í rauninni. Það eiga heldur ekkert allir að fá að spila í úrvalsdeildinni, það eru ekki sjálfsögð mannréttindi bara af því að þú ert frá Íslandi.

En fyrir mig yrði það fínt. Ég er að verða 37 ára og ég gæti fengið samning þangað til ég yrði 42. Ég treysti mér alveg til að spila í útlendingalausri deild alveg lengur. Það yrði bara minni samkeppni. Ég geri heldur ekkert lítið úr því að til dæmis fólk sem er viðloðandi yngri flokkana og aðrir vilja sá þetta öðruvísi og sjá fleiri íslenska stráka spila, en það þarf að finna jafnvægi í þessu. Ef ég væri að ráðleggja 17 ára leikmanni sem stendur frammi fyrir því að fara í lið sem getur ekki neitt en fær að spila í 40 mínútur og skjóta eins og hann vill, eða í gott lið þar sem hann fengi að mæta fullt af góðum leikmönnum á hverri einustu æfingu jafnvel þótt spilatíminn yrði minni, þá myndi ég alltaf velja síðari kostinn.“

Þessi sigurhefð í KR sem hefur skapast, til dæmis, þetta smitar út frá sér.

Jón Arnór: „Ég er sammála þessu. Þetta eru sleggjur en svona er þetta bara. Þú ert í kringum þessa leikmenn, þú lærir af þeim, þessi sigurhefð í KR sem hefur skapast, til dæmis, þetta smitar út frá sér. Ég get nefnt Þóri Þorbjarnarson, hann hefði getað fengið að spila 35 mínútur eða meira annars staðar en bara sem ungur leikmaður að vera í kringum það sem hefur verið í gangi í KR síðustu ár er ómetanlegt. Ég myndi líka alltaf mæla með því heldur en að fara í slakara lið þar sem hann hefði fengið að spila helling. Maður sá hann alltaf verða betri og betri.“

 Körfubolti eftir að ferlinum lýkur

Í ljósi þess að hvorki Hlynur né Jón Arnór eru á þeim buxunum að leggja skóna endanlega á hilluna þá kann það að vera ótímabært að spyrja hvort þeir séu farnir að huga að lífinu utan körfuboltans. Fátt verður um svör en báðir hafa áhuga á að halda áfram að starfa við körfubolta með einum eða öðrum hætti. „Þetta er bara allt á bið. Þetta hefur náttúrlega einkennt mann, að vera körfuboltaleikmaður.

Ég hef náttúrlega pælt í því hvað maður vill gera og ég myndi segja að það væri eitthvað körfuboltatengt. Ég hef áhuga á að vinna með sambandinu, eitthvað í kringum landsliðin, í kringum KR, taka þátt í því að gera körfuboltann á Íslandi betri. Ég hef mikinn áhuga á að hjálpa og miðla reynslu minni til ungra leikmanna sem vilja stíga skrefið að fara til útlanda, hvort sem það er í skóla eða atvinnumennsku eða eitthvað.“

Hlynur er á sama máli. „Ég vil algjörlega gera eitthvað áfram í kringum körfuna. Ég er byrjaður að þjálfa litla gutta, ég hef gaman af því. Ég veit ekki hvort ég sjái fyrir mér að gera það „full time“ en ég hef gaman af því. Það hlýtur að vera mjög gefandi að koma einhverjum af stað og hjálpa honum að ná markmiðum.“

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -