Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Vala berst fyrir mannréttindum í Íran: „Við getum ekki og hreinlega megum ekki bregðast þeim“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Staða Sameinuðu þjóðanna (SÞ) er auðvitað skýr. Það eru að eiga sér stað gróf mannréttindabrot gegn almenningi í Íran, þá sérstaklega gegn konum og stúlkum og alvarlega vegið að frelsi þeirra. SÞ fordæma þessar öfgafullu aðgerðir íranskra yfirvalda og því ofbeldi sem beitt hefur verið gegn almenningi síðustu vikur. Nýjustu tölur segja að yfir 300 manns hafi látið lífið í mótmælunum og þar af 40 börn. Það er þyngra en tárum taki – og mannréttindaráðið verður að bregðast við þessu,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Það er auðvitað mikilvægt að Ísland taki skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi og mannréttindabrotum.

Mannréttindaráð SÞ fundaði í dag um Íran að beiðni Íslands og Þýskalands og er fundinum ætlað að knýja á um að SÞ hefji markvissa gagnaöflun varðandi framgöngu yfirvalda í Íran gegn friðsömum mótmælendum. „Það er auðvitað mikilvægt að Ísland taki skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi og mannréttindabrotum, hvort sem um ræðir hér heima eða á alþjóðavísu. Utanríkisráðherra okkar, Þórdís Kolbrún, hefur allt frá upphafi mótmælanna eftir að Mahsa Amini lést, sýnt skýra afstöðu með konum og stúlkum í Íran og notað rödd sína á alþjóðavettvangi. Fyrir það er ég þakklát. Ég hef verið að fylgjast með þessum sérstöku umræðum í mannréttindaráði SÞ í Genf í dag og bind vonir um að ráðið kjósi með tillögu að rannsókn verði hafin á brotum þessum hið allra fyrsta. Við getum ekki og hreinlega megum ekki bregðast þeim.“

Vala Karen Viðarsdóttir

Að sýna stuðning

Mörg aðildarríki hafa haft efasemdir um að taka þetta fyrir á vettvangi mannréttindaráðsins.

„Ég stend með mannréttindum alls staðar og mun ávallt hafa það viðhorf að brot gegn mannréttindum einstaklinga, hvort sem um ræðir brot yfirvalda á mannréttindum sinna eigin þegna eða annars staðar, er aldrei í lagi. Með því að vera hluti af alþjóðlegum mannréttindasamningum þá skiptir það víst máli hvernig við háttum málunum innanlands. Alþjóðlegir samningar sem ríki eru aðilar að eru ekki til skrauts og það er mikilvægt að fordæma slík alvarleg brot – alls staðar. Írönsk yfirvöld hafa lýst mótmælunum sem innanríkismáli og telja það „andstætt eflingu mannréttinda“ ef öryggisráð SÞ ræðir málið og nú mannréttindaráðið. Almenn mannréttindi og alþjóðlega mannréttindasamninga á ekki að virða bara eftir hentisemi.“

Það er enginn stikkfrí þegar kemur að því að fordæma slíkt.

- Auglýsing -

Full­trúi Írans í mann­rétt­indaráði SÞ sagði lönd mis­nota stöðu sína í ráðinu með því að kalla til auka­fund­arins. „Ég fylgdist einmitt með yfirlýsingu fulltrúa Írans í morgun. Viðkomandi tók fyrir Þýskaland en vissulega fjallaði hún um og fordæmdi vestræn ríki sem hún sagði að hefðu dreift falsfréttum um stöðuna í Íran. Ef það að fordæma ofbeldi og alvarleg mannréttindabrot er nú talið vera misnotkun á stöðu sinni í mannréttindaráðinu þá skil ég ekki fyrir hvað annað ráðið ætti að vera. Að tala með mannréttindabrotum eða láta sem ekkert sé og láta þar við kyrrt liggja? Það er enginn stikkfrí þegar kemur að því að fordæma slíkt.“

Hvað geta Íslendingar gert meira varðandi ástandið í Íran? „Að sýna stuðning, á blaði og í orði. Að þekkja réttindi sín – og annarra. Nota rödd sína til stuðnings mannréttinda alls staðar. Að styðja mannréttindasamtök og krefja stjórnvöld um að láta sig málið varða.“

Vala er spurð hvaða áhrif allt þetta hafi á hana sem framkvæmdastjóra Félags SÞ hér á landi.

- Auglýsing -

„Við hörmum þessa stöðu sem uppi er nú í Íran og styðjum allt það hugrakka fólk sem hefur staðið upp með mannréttindum og auknu frelsi sínu og annarra og mörg hver látið lífið fyrir það. Félagið og SÞ flytja áreiðanlegar fréttir af stöðu mála en það er alltaf mikilvægt að passa sig hvaðan upplýsingar koma áður en þeim er deilt áfram. Og munum við halda áfram að fylgjast grannt með stöðunni.“

 

Sterkari saman

Vala segir að hjá Félagi SÞ sé vakin athygli á starfsemi SÞ og stofnunum þeirra, þróunarsamvinnu og þátttöku Íslands á þessum vettvangi. „Við sinnum fræðslu í gegnum UNESCO-skóla um mannréttindi, frið og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun á leik,- grunn- og menntaskólastigi. Einnig eigum við í góðu samstarfi við önnur félög á hinum Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum og viljum auka þekkingu Íslendinga á SÞ, starfsemi og málefnum þeirra; sérstaklega umhverfis- og þróunarmálum í tengslum við mannréttindi og heimsmarkmiðin.“

Vala segist lengi hafa haft áhuga á alþjóðamálum, mannréttindum og að vinna með ólíku fólki að sameiginlegu markmiði – að gera heiminn að betri stað fyrir alla.

Er ávallt gott að sjá hvað Íslendingar eru viljugir að bjóða fram aðstoð sína þegar á reynir og það sjáum við vel eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Heimurinn er sífellt að breytast og má þar nefna stríðið í Úkraínu. Hvernig upplifir Vala þetta í tengslum við til dæmis starf sitt?

„Já, við lifum í hröðu samfélagi sem tekur sífelldum breytingum. Áherslur breytast og fókusinn á það til að verða óskýr þegar neyðin er víða. Það er einfaldlega þannig að fólk sem þrífst í þessum geira brennur fyrir málstaðnum og samvinna milli ólíkra stofnana SÞ er undraverð. Margra áratuga reynsla og sú mikla sérfræðiþekking ólíkra málefna innan SÞ sýnir sig í þeirri breiðu samstöðu þegar neyð brýst út. Þess utan er ávallt gott að sjá hvað Íslendingar eru viljugir að bjóða fram aðstoð sína þegar á reynir og það sjáum við vel eftir innrás Rússa í Úkraínu.“

Við erum sterkari saman og þannig náum við árangri.

Vala vann hjá UNICEF á Íslandi í nokkur ár og sagði frá sér í viðtali við Mannlíf fyrr á þessu ári (https://www.mannlif.is/frettir/vala-karen-vidarsdottir-framkvaemdastjori-felags-sth-eg-vil-setja-mitt-mark-a-veroldina/). Hvernig hefur reynsla hennar í störfum tengdum alþjóðamálum breytt henni eða haft áhrif á hana?

„Hún hefur hreinlega fengið mig til þess að vilja halda áfram, ná til fleira fólks og þannig virkja breiðari samstöðu til þess að standa vörð um réttindi allra, þvert á geira og kerfi, vegna þess að við erum sterkari saman og þannig náum við árangri.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -