Fimmtudagur 29. febrúar, 2024
-5.2 C
Reykjavik

Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gróf og móðgandi ummæli þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins í garð samstarfsmanna þeirra á þingi munu væntanlega ekki hafa áhrif á stöðu þeirra á þinginu að öðru leyti en að þetta gengisfellir þeirra persónur.

DV og Stundin hófu í fyrrakvöld að birta afrit af samtölum þingmanna Miðflokksins og Fólks flokksins sem áttu sér stað á barnum Klaustur við Austurvöll. Samtölin voru tekin upp án þeirra vitundar og lekið til fjölmiðlanna en ekki liggur fyrir hver það var sem tók samtölin upp. Þingmennirnir sem um ræðir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokki og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason úr Flokki fólksins.

Á upptökunum heyrist að þingmennirnir eru við skál og láta þeir margt og misjafnt flakka um samstarfsfólk sitt á þingi. Gunnar Bragi lýsir því til að mynda hvar hann skipaði Árna Þór Sigfússon, fyrrum þingmann VG, sem sendiherra til að friðþægja þingmenn VG og draga athyglina frá skipun Geirs H. Haarde sem sendiherra. Þingmenn Miðflokksins leggja hart að þeim Ólafi og Karli Gauta að ganga í raðir Miðflokksins og eru miður smekkleg ummæli um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, látin falla í því samhengi. Þá er að finna rætin ummæli í garð nafngreindra þingmanna á borð við Oddnýju G. Harðardóttur, Loga Einarsson og Pál Magnússon sem og önnur ummæli sem verður ekki lýst nema sem stækri kvenfyrirlitningu.

Málið er í besta falli afar neyðarlegt fyrir þingmennina, sér í lagi þingmenn Miðflokksins sem láta vaða á súðum í samtölunum. Almenningur er hneykslaður á framferði þeirra og hefur ekki farið leynt með það á samfélagsmiðlum. Fjórmenningarnir sendu frá sér yfirlýsingu um miðjan dag í gær þar sem þeir báðust afsökunar.

Viðmælendur Mannlífs segja ólíklegt að málið kalli á afsögn þeirra þingmanna sem um ræðir. Þeir hafi ekki gerst brotlegir við neitt nema almennt velsæmi og þurfi fyrst og fremst að standa á sínu gagnvart samstarfsmönnum og kjósendum. Þá sé ólíklegt að eftirmálar verði fyrir þá fjölmiðla sem birtu samtölin.

Enginn getur þvingað þingmenn til að segja af sér

„Þetta orðfæri er auðvitað með miklum ólíkindum. Þarna eru ummæli sem eru svaðalegri en áður hafa heyrst af munni stjórnmálamanna,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, um ummæli þingmannanna og rifjar upp að á dögunum hafi háskólakennari í HR verið rekinn fyrir mun vægari ummæli. „Það er enginn sem getur þvingað þingmenn til þess að segja af sér, vilji þeir það ekki sjálfir, en eftirmál hljóta meðal annars að verða þau að aðrir þingmenn eigi örðugt með að treysta þeim sem svona tala um kollega sína. Og svo þurfa þeir auðvitað að standa frammi fyrir kjósendum sínum.“

Þarna eru ummæli sem eru svaðalegri en áður hafa heyrst af munni stjórnmálamanna.

- Auglýsing -

Eiríkur segir boð Miðflokksmanna um að gera Ólaf Ísleifsson að þingflokksformanni áhugavert og til marks um það að þessir tveir flokkar séu að miklu leyti án lýðræðislegra innviða. „Fremur eins og skeljar utan um þingmenn. Í hefðbundnum flokkum þar sem lýðræðislegir innviðir eru til staðar væri trauðla hægt að bjóða mikilvægt embætti fram með slíkum hætti,“ segir Eiríkur og bætir við: „Krafan um sífellda endurnýjun á Alþingi og í stjórnmálum yfirleitt hefur valdið mjög hröðum umskiptum og raun valdið eins konar viðvaningsvæðingu stjórnmálanna á Íslandi. Það birtist meðal annars í því að sumir þingmenn virðast ekki skilja til hlítar skyldur og eðlilega háttsemi þingmanna. Inn á þing eru því komnir margir sem rísa kannski ekki undir þeim auknu kröfum sem gerðar eru til þingmanna umfram óbreytta borgara.“

Krafan um sífellda endurnýjun á Alþingi og í stjórnmálum yfirleitt hefur valdið mjög hröðum umskiptum og raun valdið eins konar viðvaningsvæðingu stjórnmálanna á Íslandi.

Fyllirísraus og karlagrobb

Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri, segist ekki muna eftir svipuðu máli; að stjórnmálamenn hafi náðst á upptöku með þessum hætti og fréttir birtar upp úr samtölum þeirra. „Þetta hljómar eins og eitthvað fyllirísraus og karlagrobb í einhverju barhorni og er fyrst og fremst vandræðalegt fyrir viðkomandi þingmenn.“

- Auglýsing -

Birgir telur málið ekki koma til með að hafa pólitíska eftirmála. „Ekki nema til að gengisfelli alla þá þingmenn sem voru þarna,“ segir hann en bætir við að hann sjái það fyrir sér að einhver láti reyna á hvort það sé löglegt eða siðlegt að fjölmiðlar birti upplýsingar sem eru fengnar með þessum hætti. „Þá munu menn láta reyna á það hvort upplýsingarnar varði almenning eða ekki. Hvort þetta sé eitthvað sem skiptir máli fyrir þjóðfélagsumræðuna? Við sjáum að það gerir það miðað við viðbrögðin sem fréttirnar hafa fengið.“

Birgir bendir jafnframt á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að jafnvel opinberar persónur eigi rétt á friðhelgi einkalífs. Jafnvel þó að þær séu á staddar á almannafæri. „Það að menn sitji einhvers staðar fullir með vinum sínum getur hugsanlega flokkast undir slíkt. En þetta eru fyrst og fremst formsatriði og ég er ekki viss um mál myndi vinnast endilega á þessum atriðum. Skaðinn er auðvitað skeður fyrir þetta fólk. Fyrst og fremst er þetta bara hallærislegt með stóru H-i, enda kemur það í ljós að menn eru í sárum yfir því að hlusta á sjálfa sig.“

Birgir segir fullmögulegt að málið verði kært til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands (BÍ) en efast um að félagið hafi að öðrum kosti eitthvað um málið að segja. Blaðamannafélagið geti ekki skipt sér af einstökum ritstjórnarlegum ákvörðunum og hvort þær eigi erindi við almenning.

Fólk verður að gæta eigin orða

Í kjölfar birtingar DV og Stundarinnar á samtölum á upptökunni hafa margar spurningar vaknað, m.a. hvort birtingin sé lögleg. Lára V. Júlíusdóttir lögmaður segir prent- og tjáningarfrelsi alltaf vega þyngra en hömlur sem reynt er að setja á það. Það sé bundið í stjórnarskrána. „Annars veit ég ekki hvort það er hægt að leggja ábyrgðina á aðra en þá sem létu þessi ummæli falla í upphafi. Tæknin í dag er auðvitað orðin þannig að fólk verður að passa sig á því hvað það segir og hvar það segir það. Annars hafa einstaklingarnir sem eiga þarna hlut að máli s.s. ekkert verið að reyna að þræta fyrir eigin orð.“

Tæknin í dag er auðvitað orðin þannig að fólk verður að passa sig á því hvað það segir.

En telurðu að sá sem hljóðritaði samtalið gæti átt kæru yfir höfði sér ef hann finnst?

„Það eru alveg líkur á því,“ svarar hún. „Þ.e.a.s ef það tekst að hafa uppi á viðkomandi.“

Texti / Magnús Geir Eyjólfsson, Egill Páll Egilsson, Roald Viðar Eyvindsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -