Laugardagur 11. maí, 2024
8.2 C
Reykjavik

Vilhjálmur Árnason: „Sumir koma hingað fyrir tilstuðlan skipulagðra glæpahópa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef lengi haft mikinn áhuga á félagsstörfum og stjórnmálum sem má segja að séu kannski mín aðaláhugamál. Samskipti við fólk sem vill láta gott af sér leiða. Nú hef ég aukin tækifæri til að hafa áhrif á hvernig innra starfið í mínum stjórnmálaflokki þróast og get fylgt eftir mínum skoðunum um það hvernig við aukum veg flokksins okkar til aukins fylgis og eftirfylgni við okkar hugsjónir. Það hefur frá fyrsta degi verið mitt uppáhaldshlutverk í stjórnmálum að fara og hitta fólk á sínum heimavelli og nú hef ég enn frekara tilefni til þess,“ segir Vilhjálmur Árnason, nýkjörinn ritari Sjálfstæðisflokksins.

Á hvað vill hann leggja áherslu?

„Ég vil leggja áherslu á aukna virkni hins almenna flokksfélaga með auknum samskiptum á milli fólksins í flokknum, auknu upplýsingaflæði frá kjörnum fulltrúum til grasrótarinnar og að skilaboðin frá grasrótinni komist skýrt til kjörnu fulltrúanna og forystunnar. Sem sagt að hinn almenni flokksmaður fái frelsi til athafna í flokksstarfinu og að verðleikar hvers og eins nýtist fyrir hugsjónina sem við sameinumst um.“

Vilhjálmur Árnason

Mótframboð Guðlaugs Þórs

Hvað vill Vilhjálmur segja um mótframboð Guðlaugs Þórs í formanninn?

- Auglýsing -

„Ég fagna framboði Guðlaugs Þórs. Það skiptir okkur sjálfstæðismenn miklu máli að fá val um forystu flokksins og að forystan sæki umboð sitt til landsfundar. Grunngildin okkar virkjast með framboði eins og þessu og þá verður allt miklu skemmtilegra. Margir sjálfstæðismenn fögnuði þessu framboði burtséð frá því hvorn þeir studdu því að sjálfstæðismönnum gafst raunverulegt tækifæri til að ræða málefni flokksins og grunngildin.“

Það að tapa kosningu um embætti í Sjálfstæðisflokknum þýðir ekki neitt.

Hvað þýðir þetta fyrir Guðlaug Þór að lúta í lægra haldi fyrir sitjandi formanni og hvað þýðir þetta svo fyrir Bjarna Benediktsson að hafa fengið þessa kosningu?

„Það að tapa kosningu um embætti í Sjálfstæðisflokknum þýðir ekki neitt. Við höfum haft það fyrir meginreglu hjá okkur að viðhafa lýðræði um embætti og hlutverk. Má þar nefna prófkjörin og þann vilja sem ég nefndi áðan að forystan sæki sér umboð til landsfundar. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir því að fólk nái ekki settum markmiðum í kosningum. Ég tel það sterkara fyrir Bjarna að koma með skýrt umboð út af landsfundinum en um leið skýr skilaboð frá grasrótinni hvar við getum gert betur. Bjarni, Guðlaugur og flokkurinn allur í heild sinni kom sterkari út úr þessum landsfundi. Annað snýst svo bara um traust á milli fólks hvernig því gengur að vinna saman og ég treysti þeim báðum til að vinna að því að svo verði.“

- Auglýsing -

 

Gekk ungur í Sjálfstæðisflokkinn

Vilhálmur er spurður hvers vegna hann hafi upphaflega gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

„Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem er með skýra stefnu og hugsjón þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi; frelsi einstaklingsins til athafna en um leið að hver og einn verður líka að bera ábyrgð á sjálfum sér. Ég bara trúi ekki á að einhver annar geti vitað betur en ég sjálfur hvernig mínum málum er best fyrir komið. Ég trúi því ekki heldur að ég sem stjórnmálamaður geti vitað best hvernig hlutirnir eru leystir heldur vill ég að sá sem kemur með bestu lausnina og er til í að leggja eitthvað á sig fái framgang en að allir búi við jöfn tækifæri. Ég hef velt fyrir mér við viss atvik innan flokksins hvort ég ætti að fara annað en hugsjónin er það sem gildir. Ég er sjálfstæðismaður og því er ég í Sjálfstæðisflokknum og mun berjast fyrir því að hugsjón fólksins í flokknum fái aukna áheyrn.“

Ég fór í mitt fyrsta prófkjör 2009 fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi.

Vilhjálmur byrjaði ungur að vinna í kringum kosningar með Sjálfstæðisflokknum. „Ég varð svo í framhaldinu kjörinn formaður Víkings, félags ungra Sjálfstæðismanna í Skagafirði, tók þátt í kosningastjórn fyrir alþingis- og sveitastjórnakosningar og sat neðarlega á framboðslistum til Alþingis í Norðvestur-kjördæmi. Þegar ég fluttist svo til Grindavíkur tók ég við sem formaður Freyju, félags ungra Sjálfstæðismanna í Grindavík. Ég fór í mitt fyrsta prófkjör 2009 fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi og varð þá varaþingmaður eftir þær alþingiskosningar. Ég var svo í 2. sæti í prófkjöri fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Grindavík 2010 og var þá varabæjarfulltrúi eitt kjörtímabil. Árið 2013 hafnaði ég í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og var í kjölfarið kjörinn inn á Alþingi er við náðum fjórum þingmönnum inn í þeim alþingiskosningum.  Árið 2016 varð ég í 3. sæti og árið 2021 í 2. sæti og hef verið varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins síðan 2019.“

 

Virk hlustun

Hver eru helstu baráttumál Vilhjálms?

„Helstu baráttumál mín hafa frá fyrsta degi verið uppbygging grunninnviða og grunnþjónustunnar. Fólkið og samfélögin sjá svo um rest, það er verðmætasköpunina með uppbyggingu atvinnutækifæranna. Þar af leiðandi hefur áhersla mín verið á að ryðja hindrunum úr vegi fólks með lausnum og athöfnum.“

Starf alþingismanns felst fyrst og fremst í því að vera með virka hlustun.

Hann er spurður hverju honum finnist þér þú helst hafa komið til leiðar í störfum sínum á Alþingi.

„Ég hef aðstoðað fjöldann allan af fólki í sínum áskorunum og koma verkefnum áfram sem bæta okkar samfélag. Starf alþingismanns felst fyrst og fremst í því að vera með virka hlustun eftir því sem betur má fara og aðstoða fólk í að fá lausn sinna mála í kerfinu. Þetta er allt gert með hugsjónina að leiðarljósi.“

Vilhjálmur Árnason

Treystir Útlendingastofnun og lögreglunni

Fréttir um hælisleitendur eru áberandi þessa dagana og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt fram nýtt frumvarp um útlendingalög. Hver er skoðun Vilhjálms á þessu öllu?

„Mín skoðun er skýr og er algjörlega eftir grunngildum okkar flokks. Við eigum að treysta á fjölbreytileikann og taka vel á móti því fólki sem vill koma og nýta sína starfskrafta hér á landi, bera ábyrgð á sjálfu sér og taka fullan þátt í okkar samfélagi. Við eigum að hafa hér verndarkerfi fyrir þá sem eru í neyð og þurfa skjól vegna þess að líf þeirra og limir eru í hættu og þau velja að koma til okkar í leit að öryggi. Við verðum svo að hafa skýrar reglur og skilvirka framkvæmd til að skilja á milli hverjir koma hingað til lands og tilheyra verndarkerfinu og hverjir ekki. Þeir sem fá ekki vernd eiga að fá skjót svör svo þau geti snúið aftur þangað sem þau komu án þess að hafa þurft að bíða hér í marga mánuði. Aðalatriði er að þetta séu skýrar reglur og framkvæmdin skilvirk. Það er best fyrir alla. Fólk verður að hafa í huga að þetta er flókinn málaflokkur sem er ekki hægt að alhæfa um og erfitt að upplýsa um aðstæður hvers og eins. Flóttamaður er ekki það sama og flóttamaður og hælisleitandi ekki það sama og hælisleitandi. Ég treysti því sem Útlendingastofnun og lögreglan eru að gera í þessum efnum. Þetta snýst líka um samspil löggjafar og framkvæmdar og því eru lögin bara einn hluti af heildarmyndinni.“

Með skýrri löggjöf og skilvirkri framkvæmd er hægt að draga úr slíkum komum sem setja álag á velferðarkerfið okkar.

Hvað með tilhæfulausar umsóknir, hælisleitendur sem villa á sér heimildir, misnota velferðarkerfið og efnahagsflóttamenn?

„Eins og ég sagði áðan þá hefur þessi málaflokkur margar birtingamyndir og því ekki hægt að alhæfa um þetta. Sumir koma hingað fyrir tilstuðlan skipulagðra glæpahópa. Það skiptir miklu máli að löggjöfin okkar sé ekki með glufu fyrir slíka hópa að starfa hér; um leið höfum við þá skyldur gagnvart því fólki sem hingað er komið á vegum glæpagengja. Að frelsa þau undan slíkum hópum og það er risaverkefni. Það er eðlilegt að til okkar leiti þeir sem eru að leita sér að betra lífi og eru því með tilhæfulausar umsóknir eða efnahagsflóttamenn en með skýrri löggjöf og skilvirkri framkvæmd er hægt að draga úr slíkum komum sem setja álag á velferðarkerfið okkar. Um leið þurfum við að taka umræðuna hvort við viljum aðstoða slíkt fólk að koma til okkar á eigin vegum til að vinna og standa á eigin fótum.“

Vilhjálmur segir að aðalatriðið sé að það er ekki gott fyrir neinn, hvorki samfélagið okkar né þá sem hingað koma, ef fólk er bara sett afskipt í búsetu hingað og þangað. „Þau eru komin inn í annan menningarheim, annað tungumál og án alls tengslanets. Því skiptir miklu máli að þeir sem þurfa ekki nauðsynlega að vera inni í velferðarkerfinu fari fljótt þangað sem þau eiga að vera samkvæmt aðstæðum og að þeir viðkæmu hópar sem hér eru séu á stað þar sem hægt er að veita þeim allan þann nauðsynlega stuðning sem þau þurfa: Félagsþjónusta, heilbrigðisþjónusta, skólaþjónusta, húsnæði, fæði og annar stuðningur. Það er erfitt að sinna því á afskekktum stöðum, dreift um allt land og í samfélögum sem ekki eru undir það búin.“

 

Hefur ekkert um það að segja

Talið berst að heimilislausum Íslendingum og fólki á besta aldri sem er með fötlun sem fá kannski ekki inni nema á elliheimilum.

„Þar komum við aftur að hugsjóninni. Fyrsta úrræði er alltaf að hjálpa fólki, til dæmis heimilislausum, til sjálfshálpar og gera þeim kleift að standa á eigin fótum. Við höfum fullt af öflugu fólki og fyrirtækjum sem eru með lausnir og hafa hvata til að gera það á hagkvæman hátt. En við erum svo föst í opinberu kerfunum að allt verður dýrara og bara ríkislausnir í boði. Þá gerist þetta að allir verða settir í sama kassann þó hann henti ekki. Það er galið að við ræðum þjónustu fyrir fólk með mismunandi sérþarfir alltaf í peningum fyrir steypu til byggingar búsetuúrræða. Í stað þess að skilgreina hver réttindi þeirra sem þurfa á félags- og heilbrigðisþjónustu eru og einstaklingar fái þá þjónustu í samræmi við sitt heilsufar, sína fötlun og sínar þarfir og leyfum fólki að hafa meira að segja um sína búsetu hagi. Í dag eru ríkisreglur um það hvernig hjúkrunarheimili á að líta út. Fólk hefur ekkert um það að segja hvernig húsakostur þess er eftir að þau koma inn á stofnun.“

Vilhjálmur Árnason

Þurfum að skoða regluverkið

Hvað vill Vilhjámlur gera til framtíðar í velferðarmálum?

„Frelsi til úrræða eða að fólk með lausnir fái frelsi og tækifæri til að bjóða upp á sínar lausnir því þannig þróumst við áfram. Við verðum líka að þora að gera stórar kerfisbreytingar til að kerfin henti notendunum betur og fjármagnið nýtist betur fyrir þau. Grunnforsendan fyrir öflugu velferðarkerfi er alltaf enn öflugri verðmætasköpun sem kemur hvergi annars staðar en úr sterkara og fjölbreyttara atvinnulífi.“

Með auknu alþjóðlegu samstarfi getum við náð langt í að uppræta þessa starfsemi hér á landi.

Vilhjálmur var lögreglumaður á sínum tíma. Hvað þarf að gera varðandi harðari undirheima og skipulagða glæpastarfsemi?

„Það þarf að efla samstarf löggæslustofnanna sem og annarra stofnanna við rannsókn á slíkri starfsemi og setja aukið fjármagn í að manna slíkar rannsóknir svo önnur verkefni lögreglu dragi ekki úr vinnunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Við þurfum líka að skoða regluverkið okkar í samræmi við nágrannaþjóðir okkar til að auka traust og samstarf á milli landanna því þessi starfsemi spyr ekki um landamæri. Með auknu alþjóðlegu samstarfi getum við náð langt í að uppræta þessa starfsemi hér á landi.“

Hver er draumurinn hvað varðar stjórnmálin? Er það formaðurinn? Ráðherrannn?

„Draumurinn í stjórnmálum er alltaf að geta haft áhrif til góðs fyrir samfélagið. Hvernig þeim markmiðum er náð skiptir ekki öllu fyrir mig, bara að samfélagið verði betra og ég trúi því að mín hugsjón og flokksins míns geri gagn þar. Sem ráðherra hefur maður vissulega meiri áhrif og er það eitthvað sem ég horfi til að fá að nota mína krafta í einn daginn fyrir hugsjónina. Ég hef ekki stefnt að því hingað til að verða formaður flokksins.“

Vilhjálmur er spurður hvernig hann myndi lýsa sér sem stjórnmálamanni.

„Ég er frjálslyndur íhaldsmaður sem trúi á það góða í fólki.“

Vilhjálmur Árnason

Fjallgöngur og útilegur

Nýr ritari Sjálfstæðisflokksins segir að það fyrsta sem hann geri þegar heim er komið að vinnudegi loknum sé að fara úr vinnufötunum og knúsa fjölskylduna. „Ég nýt mín best með fjölskyldunni og nýti tímann utan vinnu sem mest með henni. Ég er mikill áhugamaður um íþróttir og þar helst körfubolta. Ég næ að sinna því í gegnum syni mína helst núna og svo hef ég mjög gaman af hvers konar útivist og nýti hvert tækifæri til að fara með fjölskyldu og vinum hvort sem það er í fjallgöngur, útilegu eða hvað sem er úti í náttúrunni.“

Hvaða lífsreynsla hefur mótað Vilhjálm?

„Mín fyrsta stóra og erfiða lífsreynsla var þegar ég missti ömmu mína unga í bílslysi en það hefur alltaf hjálpað mér hvað við eigum stóra og samheldna fjölskyldu sem tókst á við það verkefni saman og gerum enn. Ég hef svo búið að því við önnur áföll innan fjölskyldunnar. Það er kannski klisja en samt sem áður þá er fjölskyldan það mikilvægasta sem maður á í lífinu. Það sem hefur kannski mótað mig hvað mest eru 10 ára störf innan lögreglunnar. Þar sá maður allar tegundir lífsins, slæmar og góðar, og var miserfitt að takast á við það. Það hefur ekkert hjálpað mér jafnmikið við þingstörfin eins og reynslan úr lögreglunni.“

Vilhjálmur Árnason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -