Fimmtudagur 22. febrúar, 2024
0.8 C
Reykjavik

Vísindi, vopn gegn lýðskrumi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun

Eftir / Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur

Lýðskrum (e.populism) vísar til þeirrar tilhneigingar stjórnmálamanna nútímans að skipta íbúum þjóðar í tvo einsleita hópa, annars vegar spillta valdaklíku og hins vegar saklausan almenning, andstæðar fylkingar þar sem almenningi er talin trú um að hann þurfi að rísa gegn valdaklíkunni. Valdaklíkuna skilgreina þessir stjórnmálamenn oft sem samansafn menntamanna, blaðamanna og fjármálafólks. Þessir lýðskrumarar stjórnmálanna stilla sér síðan upp sem andstæðingi valdaklíkunnar, þeir eru leiðtoginn sem muni leiða almenning til frelsis.

Lýðskrum stjórnmálamanna birtist oftar en ekki sem einfaldar lausnir á flóknum samfélagslegum áskorunum. Áskoranir samtímans eru gríðarlega umfangsmiklar, svo umfangsmiklar að einfaldasta lausnin á þeim er hreinlega að afneita tilvist þeirra. Þannig hefur hópur fólks tekið sig saman um afneitun loftslagsbreytinga af mannavöldum, enda oft gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir af því að haldið verði áfram með óbreyttum hætti. Það er líka sárt að uppgötva að allar framfarir okkar, mannkynsins, eru í skýru samhengi við þróun í hitafari jarðar. Framfarirnar okkar, hagvöxturinn, iðnvæðingin, lífsgæðin, lífsstíllinn, flugferðirnar, bílarnir, allt þetta er beinlínis á kostnað jarðarinnar.

Það þýðir lítið að benda á Asíu og halda því fram að lönd þar þurfi fyrst og fremst að draga úr losun þegar staðreyndin er sú að 66% allrar losunar í Kína er vegna framleiðslu fyrir Vesturlönd. Við útvistuðum loftslagsvandanum fyrir nokkrum árum og hann er enn á okkar ábyrgð. Við skiptum peningunum okkar yfir í koltvísýring enda kostar orku að framleiða allt dótið sem við kaupum.

Þingmaður á Alþingi benti nýverið á að börn hefðu áhyggjur af loftslagsbreytingum. Lausnina taldi hann vera að kenningar svokallaðra loftslagsafneitunarsinna (þeirra sem halda því fram að loftslagsbreytingar séu ekki af mannavöldum) yrðu kenndar í grunn- og framhaldsskólum. Það að kenna lygar væri sem sagt lausnin á áhyggjum barnanna okkar.
Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekki hægt að mæta flóknum áskorunum með einföldum lausnum og lygum. Flóknar áskoranir krefjast þess af okkur að við höfum áhyggjur, söfnum upplýsingum, köfum dýpra, hugsum gagnrýnið, leitum lausna og tökum ábyrga afstöðu. Við verðum að trúa á vísindin, þau eru nú sem fyrr eina skynsamlega og raunhæfa leiðin til að takast á við flóknar samfélagslegar áskoranir.

Loftslagsbreytingar snúast ekki eingöngu um veðurfar og hafstrauma, heldur einnig búsetu alls mannkyns, þróun lýðræðis og mannréttinda, það er allt undir einfaldlega vegna þess að ef við sláum löppina undan vistkerfinu þá hrynur allt annað með. Tilvist okkar er í veði og það eru vísindin, nýja upplýsingin en ekki afneitunin, sem geta bjargað okkur.

- Auglýsing -

Á vefsíðunni earth101.is sem Guðni Elísson, prófessor við Háskóla Íslands, heldur úti, má finna greinargott safn upplýsinga um loftslagsvandann.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – miðstöðvar um máltækni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -