Fimmtudagur 2. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

„Á auðvelt með að halda mörgum boltum á lofti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Andri Hjálmarsson er heimspekingur að mennt og starfar hjá Reiknistofu bankanna ásamt því að vera stundakennari við Háskóla Íslands. Honum er margt til lista lagt og hafði blaðamaður afspurn af því að hann smíðaði falleg húsgöng í frístundum. Fyrir stuttu síðan flutti hann í Hlíðarnar, í fallega íbúð sem hann hefur verið að nostra við með konu sinni Foldu Guðlaugsdóttur en þau eiga tvo unga syni, þá Kára og Úlf.

 

Segðu okkur frá því hvernig áhuginn kviknaði á húsgagnasmíði?

„Síðan ég man eftir mér hef ég haft áhuga á vandlega hönnuðum og smíðuðum hlutum. Þar sem heimili okkar allra eru öllu að jöfnu full af húsgögnum fór ég því snemma að veita þeim athygli. Þegar sem barn var ég mjög vandlátur á húsgögn í nánasta umhverfi mínu. Mörgum árum seinna, þegar ég flutti aftur til Íslands að loknu námi, skráði ég mig í húsasmíði í Tækniskólanum með vinnu, þar sem mig langaði til þess að læra gott handbragð svo ég gæti bjargað mér sómasamlega heima fyrir – meira af fagmennsku og minna af fúski. Námið í húsasmíði byrjar á stórum áfanga, þar sem nemendur fá nasaþef af trésmíði af ýmsum toga. Ég heillaðist þá þegar af húsgagnasmíði, þar sem nákvæmnin og vandvirknin höfðaði sterklega til skaphafnar minnar. Eins og iðulega leiddi síðan eitt af öðru og nám í húsasmíði varð fljótt að námi í húsgagnasmíði.“

„Mig langar til þess að smíða mér kofa í garðinn og mögulega smíðaaðstöðu.“

Nú hefurðu verið að læra húsgagnasmíði meðfram vinnu, geturðu sagt okkur frá leiðunum sem þú fórst?

„Vinnutími minn er mjög sveigjanlegur. Þær annir sem ég hef ekki haft of mikið að gera við barnauppeldi eða kennslu, þá hef ég skráð mig í einn og einn áfanga í senn í Tækniskólanum. Ég hef alltaf átt auðvelt og liðið einstaklega vel með að halda mörgum boltum á lofti á sama tíma, þannig að það hefur reynst mér vel að hafa smíðina sem mótvægi við vinnu.“

Guðmundi Andra er margt til lista lagt.

Hvað er erfiðast við að smíða húsgögn?

- Auglýsing -

„Húsgagnasmíði er þolinmæðisþraut sem krefst vandvirkni og nákvæmni. Það sem hefur oft reynst mér erfiðast er að halda aftur af sjálfstraustinu. Þegar maður fyllist sjálfstrausti, þá á maður það til að gera hlutina án umhugsunar og í flýti. Húsgagnasmíði er viðfangsefni sem maður verður stöðugt að nálgast af yfirvegun og auðmýkt ef vel á að vera.“

Hvaðan sækirðu þér innblástur?

„Því er auðsvarað, ég sæki mér ekki innblástur. Stundum rekur vissulega eitthvað á fjörur manns sem blæs manni nýjum hugmyndum í brjóst. En það hefur aldrei reynst mér vel að leita innblásturs af neinu tagi. Hugmyndir — rétt eins og hamingjan hafa í gegnum tíðina fundið mig þegar ég er ekki sérstaklega að leita þeirra.

- Auglýsing -
Mynd / Hallur Karlsson

Hvernig er ferlið frá hugmynd að húsgagni?

Það hefst venjulega á vandlega yfirveguðum teikningum, þar sem húsgagnið er oft teiknað í 1:1 (raunstærð) eða 1:2 (hálfri stærð). Þessi hluti smíðinnar tekur oft hlutfallslega lengstan tíma og krefst mestrar hugsunar. Þegar teikningin er fullbúin áður en eiginleg smíði, með endanlegan efnivið, hefst, þarf oft að gera ýmsar tilraunir með ódýrari og oft mýkri við, til þess að sannreyna að hugmyndirnar séu framkvæmanlegar og stundum til þess að átta sig almennilega á því hvernig þær séu framkvæmanlegar. Þegar hugmyndirnar hafa verið staðfestar, þá loksins hefst eiginleg smíði húsgagnsins. Undarlega, eins og það kann að hljóma, þá tekur sá hluti smíðinnar hlutfallslega stuttan tíma ef undirbúningurinn hefur verið vandaður.“

Hvaða efnivið notarðu helst, kaupirðu efnið eða reynirðu að endurnýta gamalt efni?

„Ég hef smíðað talsvert úr eik og hnotu, þar sem ég kann vel við efniseiginleika þeirra og mér finnst viðurinn einstaklega fallegur. Ég hef einkum unnið með nýtt efni en ef ég get nýtt eitthvað notað, þá reyni ég það vissulega.“

Mynd / Hallur Karlsson

Erfiðasta verkefni sem þú hefur unnið?

„Ég smíðaði eitt sinn snúinn tréstiga svona eins og finna má í sumum gömlum timburhúsum. Það var einstaklega lærdómsríkt verkefni og krefjandi á köflum.“

Hvað með aðstöðu, þarf ekki tól, tæki og gott rými?

„Góð aðstaða og almennilegar vélar auðvelda vissulega alla smíði. Engu að síður má komast mjög langt einungis með handverkfæri og nægan tíma sem smiðir gerðu í árþúsund. Ég bý ekki svo vel að eiga stóra geymslu eða bílskúr, þannig ég hef einfaldlega notað mér aðstöðuna í Tækniskólanum, þær annir sem ég er þar í námi, en haldið mig við handverkfæri og minni verkefni þess á milli.

Mynd / Hallur Karlsson

Hvað er næst á dagskrá?

„Eins og stendur er ekkert í vinnslu hjá mér, þar sem ég er upptekinn þessa dagana á öðrum vígstöðvum. Mig langar til þess að smíða mér kofa í garðinn og mögulega smíðaaðstöðu en hann er ekki enn kominn á teikniborðið.“

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -