Þriðjudagur 23. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Fimm leiðir til að nýta lítil rými sem best

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það getur verið mikil áskorun að koma heilli búslóð fyrir þegar pláss er af skornum skammti. Mikilvægt er að hver fermetri sé nýttur sem best og því nauðsynlegt að hafa gott skipulag. Lítil rými geta auðveldlega litið út fyrir að vera ofhlaðin ef skipulagið er ekki gott sem getur svo valdið íbúum streitu. Hér eru nokkur góð ráð til þess að nýta lítil rými betur.

Ekki láta geymslupláss taka frá þér dýrmæta fermetra. Margir kvarta undan of litlu geymslurými í litlum íbúðum en þá er líka vert að skoða hvort þess sé raunverulega þörf. Gott ráð er að byrja ekki að skipuleggja geymslurými fyrr en búið er að grisja og gefa frá sér þá hluti sem ekki er þörf fyrir lengur. Þá er gott að skoða hvort ekki sé hægt að hanna geymslurými undir rúmi og notast við aðrar skyldar lausnir í stað þess að taka heilt herbergi undir dótið sem þarf að geyma.

Nýttu lofthæðina. Þegar lítil rými eru skipulögð þarf ekki bara að taka tillit til þess hversu stór gólfflöturinn er heldur þarf einnig að skoða vel hvort ekki sé hægt að nýta lofthæðina betur. Þetta á til dæmis við þegar innréttingar eru settar upp en þá er betra að láta þær ná alveg upp í loft til þess að skapa sem mest skápapláss. Húsgögn líkt og rúm taka yfirleitt mikið pláss svo það er vert að skoða hvort möguleiki sé að hækka rúmið upp um 2-3 metra sé lofthæðin góð og nýta plássið sem skapast undir rúminu til dæmis fyrir sófa eða útbúa litla heimaskrifstofu. Þessi lausn getur verið sérstaklega hentug í stúdíóíbúðum.

- Auglýsing -

Veldu umfangsminni húsgögn. Húsgögn, eins og sófar og hægindastólar, geta verið fyrirferðarmikil. Algeng mistök í litlum rýmum er að velja of stór húsgögn. Tungusófar geta tekið of mikið pláss og því getur verið ágætis lausn að velja sér fyrirferðarminni sófa með grennri örmum án þess að sætafjöldanum fækki. Hægt er svo að kaupa skemil sem gegnir svipuðum tilgangi og tungan sem hægt er að færa til eftir þörfum. Hringborð og sporöskjulaga borð koma oft betur út en ferhyrnd í litlum rýmum og auðveldara er að koma fyrir fleiri sætum við þau. Í eldhúsum er sniðugt að vera með eldhúseyjur á hjólum sem auðvelt er að færa til eftir þörfum í stað þess að hafa þær gólffastar.

Nýttu veggplássið eftir fremsta megni. Málverk og myndir er ekki það eina sem má hengja á veggi. Potta og pönnur má vel hengja upp í eldhúsum. Að vegghengja bókahillur í stað þess að láta þær standa á gólfi og með því að halda gólffletinum hreinum lítur rýmið út fyrir að vera stærra. Í geymslunni er það góð hugmynd að hengja upp útivistarbúnaðinn, reiðhjólið og skíðin, aukastóla og ýmislegt fleira sem þörf er á að geyma.

- Auglýsing -

Innbyggðar hirslur og húsgögn. Það getur verið góð lausn að nýta rými undir stigum fyrir geymslu en slík rými nýtast yfirleitt illa að öðru leyti. Í dag er einnig algengt að sjá innbyggð og fjölnota húsgögn í litlum rýmum. Má þar til dæmis nefna rúm sem pakkað er saman eftir notkun og hillur sem nýtast einnig sem borð. Þessar lausnir krefjast þó sérsmíði en geta verið góð fjárfesting engu að síður. Í eldhúsum kemur oft vel út að hafa tækjaskápa innbyggða.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -