Laugardagur 7. desember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Genki Instruments hlaut Hönnunarverðlaun Íslands

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Genki Instruments hlaut í gærkvöld Hönnunarverðlaun Íslands 2019 sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Iðnó. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra afhenti verðlaunin. Genki Instruments hlaut aðalverðlaunin fyrir Wave hringinn sem hannaður er til að auka upplifun og túlkun í tónlist.

 

Í áliti dómnefndar segir meðal annars að Genki Instruments sé framsækið og hönnunardrifið tónlistartæknifyrirtæki þar sem hönnun, tækni, verkfræði og tónlist renna saman í eitt. Að fyrirtækinu standa Ólafur Bogason, Haraldur Þórir Hugosson, Jón Helgi Hólmgeirsson og Daníel Grétarsson.

„Wave er einstakt dæmi um framsækna hugmynd frumkvöðlafyrirtækis þar sem rannsókn, þróun og prófanir í gegnum allt hönnunarferlið skilar algerlega nýrri upplifun til notenda sem hefur hlotið lof víða um heim,“ segir janframt í áliti dómnefndarinnar.

Omnom súkkulaðigerð hlaut verðlaunin Besta fjárfesting í hönnun 2019. Mynd/Aldís Pálsdóttir

Einnig voru veitt verðlaun fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2019 og var það Onmnom súkkulaðigerð sem hlutu þau verðlaun að þessu sinni en Omnom framleiðir handgert súkkulaði. Fyrirtækið var stofnað af Kjartani Gíslasyni og Óskari Þórðarsyni árið 2013 og hefur síðan þá lagt kapp sitt á að bjóða neytendum upp á gæði og góða upplifun. Árangur fyrirtækisins undirstrikar einnig mikilvægi hönnunar sem þátt í verðmætasköpun. Í umsögn dómnefndar segir:

„Ferlið á bak við vöruþróun er spennandi en Omnom hefur frá byrjun unnið með hönnuðum í öllu framleiðsluferlinu að heildrænni vöruupplifun, hvort sem það er súkkulaðið sjálft eða með vandaðri hönnun á umbúðum og framsetningu í verslunum. Slík samvinna í öllu ferlinu er skýrt dæmi um hvernig hönnun getur haft afgerandi áhrif á vaxtarsögu og velgengni fyrirtækis.“

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hlaut Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2019. Mynd/Aldís Pálsdóttir

Í fyrsta sinn voru veitt Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands sem Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hlaut. Manfreð er einn ástsælasti arkitekt Íslands og hefur hann markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi eins og fram kemur í áliti dómnefndarinnar.

- Auglýsing -

„Hönnun og byggingar Manfreðs Vilhjálmssonar eru meðal bestu dæma um góðan arkitektúr á Íslandi en verkin bera vitni um vandaða hönnun og arkitektúr þar sem efni, form og samhengi skapa eina órjúfanlega heild.“

Í álitinu er einnig minnst á einstakan starfsferil Manfreðs sem spannar yfir 60 ár og endurspeglar hann áræðni í fjölbreyttum verkefnum og metnaðarfulla listræna og faglega sýn. Þar segir jafnframt:

„Eftir Manfreð liggur fjöldi tímamótaverka sem bera vott um einstaka hæfni til að takast á við margvíslegar áskoranir staðhátta og uppbyggingar í ungu samfélagi.“

- Auglýsing -

Hönnunarverðlaun Íslands hafa verið veitt árlega frá árinu 2014 og varpa þau ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi en einnig beina þau sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning. Að verðlaununum standa Hönnunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands með stuðningi frá Landsvirkjun og Samtökum Iðnaðarins.

Í dómnefndinni í ár sátu Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, formaður dómnefndar og hönnuður, Hörður Lárusson, grafískur hönnuður, Sigrún Birgisdóttir, arkitekt, Sigrún Halla Unnarsdóttir, fatahönnuður, Daniel Golling sýningarstjóri sænska arkitektúrsafnsins og Edda Björk Ragnarsdóttir frá Samtökum Iðnaðarins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -