Föstudagur 11. október, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Hlýlegur og hrár iðnaðarstíll í Garðabæ

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við kíktum í heimsókn til Lilju Guðmundsdóttur og Haralds Kolka Leifssonar sem búa ásamt tveimur sonum sínum í hvítu, huggulegu einbýlishúsi frá 1972, við Marargrund í Garðabæ.

„Við erum búin að vera hérna í 8 ár, við bjuggum áður á Arnarnesinu en gallinn við að vera þar fannst okkur vera að þar er engin þjónusta og við vorum alltaf að skutla og sækja. Okkur finnst miklu hentugra að búa hérna á Marargrundinni þar sem við erum nær öllu, við höfum varla þurft að skutla strákunum neitt eftir að við fluttum sem er mikill kostur, þeir geta gengið allt sjálfir,“ lýsir Lilja og segir að þau hjónin séu bæði alin upp í Garðabæ en hafi búið í miðbæ Reykjavíkur þegar þau byrjuðu að búa. ,,Svo fórum við að fikra okkur nær heimaslóðum með barneignum, fjölskyldur okkar og vinir eru flest hér og maður þekkir orðið marga í bænum, þetta er ekkert ósvipað því að búa úti á landi að mörgu leyti sem okkur finnst æðislegt.“

Lilja viðurkennir að þau hjónin séu Garðbæingar í húð og hár og kannski einmitt þess vegna völdu þau að opna verslunina Barr Living í bænum, nánar tiltekið á Garðatorgi. Blaðamaður spyr Lilju út í það ævintýri, hvernig kom það til? „Ég var búin að ganga með þann draum mjög lengi að opna verslun, alveg frá því ég var tvítug örugglega. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hönnun, fallegum húsgögnum og munum fyrir heimilið en ég lærði samt viðskiptafræði í Danmörku, flutti svo heim og fór beint í bankakerfið að vinna eins og svo margir viðskiptafræðingar á þeim tíma. Vann hjá Íslandsbanka og svo Alvogen og Alvotech en allan tímann blundaði þessi draumur í mér. Svo þegar ég varð fertug hugsaði ég með mér, það er annaðhvort núna eða aldrei og ég sló til,“ segir Lilja og kveðst hafa leitað vel að þeim merkjum sem hún tók inn í verslunina. Hún hafi ekki viljað vera með merki sem þegar fást á Íslandi, heldur eitthvað nýtt sem breikkar vöruúrvalið.

Húsið er um 300 fermetrar, á aðalhæðinni er stór stofa og borðstofa, eldhús, sólstofa og gangur, nokkrar tröppur liggja upp þar sem svefnherbergi og baðherbergi eru og niðri er svo annað baðherbergi og fleiri herbergi. Húsið er með krókum og kimum, svolítið eins og lítið völundarhús og Lilja viðurkennir að hafa hálfpartinn villst fyrst þegar hún kom inn í húsið. „Það heillaði okkur, rýmið er skemmtilegt og hentar okkur mjög vel.“

Lilja segir þau hjónin hafa heillast af skipulaginu og strúktúrnum á húsinu. „Við byrjuðum á því að mála alla veggi, innihurðirnar og stigahandrið og máluðum viðarloftin svört sem kemur ótrúlega vel út. Þetta er allt annað en það þurfti að endurhugsa lýsinguna og annað því rýmið virkar aðeins minna og dimmara með svörtum loftum en það er hátt til lofts hérna og við erum alsæl með loftin svört en eiginmanninum leist ekkert á þessa hugmynd í upphafi,“ segir hún og hlær innilega. „Mér fannst þetta mjög furðuleg pæling fyrst en þetta kemur vel út,“ segir hann og brosir til Lilju, sem segir það vera eilífðarverkefni að eiga gamalt hús. Það sé alltaf eitthvað á dagskránni.

- Auglýsing -

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

- Auglýsing -

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -