2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hollensk hjón sameina krafta sína

  Tinta Luhrman og Rutger de Ruiter virðast engin takmörk sett þegar kemur að hönnun.

  Frá unga aldri hefur Tinta Luhrman haft ómældan áhuga á hönnun, litum og sköpun. Það var því snemma ljóst að hugur hennar stefndi að hönnunarnámi. Eiginmaður hennar, Rutger de Ruiter, á mjög erfitt með að sitja auðum höndum og líður hvað best við smíðaborðið. Fyrir rúmu ári síðan sameinuðu þessi hugmyndaríku hjón krafta sína og stofnuðu fjölskyldufyrirtækið Woodchuck. Hollensku hjónin eiga það sameiginlegt að elska Japan, jóga, brimbretti, einfaldleika og hönnun. Allt þetta að ógleymdri dótturinni Dieuwertje veitir þeim ómældan innblástur í sköpun sinni.

  „Þó svo að við elskum einfaldleikann, skín hlýleikinn alltaf í gegnum hönnun okkar og sköpun. Hjá Woodchuck sérðu hvernig hægt að skapa þægilega stemningu þó að efniviðurinn sé mínimalískur.“

  Sérsniðnar lausnir með japönsku ívafi

  AUGLÝSING


  Hjónunum virðast engin takmörk sett þegar kemur að verkefnum, þau hanna húsgögn og smíða innréttingar, endurhanna eldri rými, þróa hugmyndir og veita innanhússráðgjöf ásamt því að aðstoða við litasamsetningar og útstillingar. Takmarkið er þó ávallt það sama; að sérsníða verkefnin að óskum viðskiptavinarins.

  Þrátt fyrir að fyrirtækið sé ungt hafa hjónin haft nóg fyrir stafni þetta fyrsta ár og verið dugleg við að hanna húsgögn og smáhluti sem þau selja í vefverslun sinni á milli þess sem þau taka að sér stærri verkefni. Eins og nafnið Woodchuck gefur til kynna spilar viður stórt hlutverk í allri hönnun og sköpun hjónanna. Hönnun þeirra á það sameiginlegt að vera bæði einföld og notaleg í senn, japönsk áhrif eru áberandi í öllum þeirra verkum þar sem leitast er við að finna hinn fullkomna litatón til þess að undirstrika mýkt og hlýleika sérhvers verkefnis.

  Texti / Katrín Andrésdóttir
  Myndir / Frá framleiðanda

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is