Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Ljósið sem breytti sögunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Artichoke-ljósið sem er hannað af Poul Henningsen kom fyrst á sjónarsviðið árið 1958. Fram að því hafði almenningur litið á lýsingu eingöngu sem birtugjafa en óhætt er að segja að Artichoke hafi brotið blað í hönnunarsögunni. Ljósið var upphaflega hannað fyrir veitingahúsið í Langelinie pavillonen skammt frá Litlu hafmeyjunni í Kaupmannahöfn en bygging útsýnisskálans átti sér langan aðdraganda.

Við Löngulínu hefur staðið útsýnisskáli allt frá árinu 1884 þegar upphaflegi skálinn var byggður. Á efri hæðinni var aðstaða fyrir Konunglega danska siglingaklúbbinn en á neðri hæðinni veitinga- og kaffihús. Árið 1901 var skálinn rifinn og nýr og stærri skáli byggður sem þjónaði sama tilgangi og varð hann strax mjög vinsæll viðkomustaður borgarbúa. Sá skáli var hins vegar sprengdur í loft upp í heimsstyrjöldinni síðari og var skeggrætt um í tíu ár eftir að stríðinu lauk hvort byggja ætti nýjan skála sem nákvæma eftirmynd þess gamla eða byggja nýjan í takt við nýjar stefnur og strauma í arkitektúr eftirstríðsáranna.

Poul ásamt hönnun sinni, Artichoke-ljósinu og PH-loftljósinu frá 1925.

Niðurstaðan varð sú að efnt var til hönnunarsamkeppni árið 1955 um byggingu nýs skála þar sem arkitektum var gefið fullt listrænt frelsi til þess að koma með nýjar hugmyndir.
Arkitektarnir Eva og Nils Koppel, sem höfðu meðal annars starfað saman á teiknistofu Alvar Aalto í Finnlandi áður en þau stofnuðu sína eigin stofu í Kaupmannahöfn, báru sigur úr býtum. Byggingin var hönnuð í anda ameríska módernismans og Mies van der Rohe. Eftir sigurinn í samkeppninni höfðu Eva og Nils samband við Poul Henningsen og báðu hann um að hanna ljós sérstaklega fyrir veitingahús útsýnisskálans en Poul var þegar orðinn þekktur fyrir hönnun sína á PH-loftljósinu frá árinu 1925. Eftir þriggja mánaða hönnunarvinnu og tilraunir leit Artichoke dagsins ljós og var nýja bygging þeirra Evu og Nils opnuð í febrúar 1958.

Veitingastaðurinn við Langelinie í dag.

Artichoke-ljósið líkist ætiþistli á hvolfi og dregur það nafn sitt af því en Poul vildi líka að ljósið nyti sín á daginn þegar ekki væri kveikt á því. Hann hugsaði því ljósið sem nokkurs konar skúlptúr sem setur sterkan svip á rýmið sem því er ætlað. Var þetta alger nýlunda á þessum árum að tefla saman notagildi og list á þennan hátt. Ljósið var upphaflega hannað úr kopar og samanstendur það af 72 laufum þar sem hvert og eitt lauf er handgert.
Ljósaperan sjálf er falin frá öllum hliðum til þess að minnka sjónrænt áreiti. Efnisvalið var ekki handahófskennt heldur vildi Poul ná fram mjúkri og hlýrri bleiktóna birtu sem gerði matarupplifun gestanna sem besta en einnig vildi hann skapa notalega stemningu án þess að trufla magnað útsýnið frá veitingastaðnum yfir Eyrarsundið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -