Þriðjudagur 21. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Sögufrægt hús á Akureyri glætt nýju lífi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gamla Apótekið sem stendur við Aðalstræti 4 er eitt glæsilegasta hús Akureyrar og stendur það ofar en flest önnur hús í nágrenninu. Grunnflötur hússins er 135 fermetrar og er það byggt í dönskum timburhúsastíl. Húsið á sér mikla forsögu.

Gamla Apótekið, eitt glæsilegasta hús Akureyrar, var hannað og byggt árið 1859 af Jóni Chr. Stephánssyni, sem hafði varið tíma í Danmörku við að læra listina við byggingu timburhúsa. Eftir Danmerkurdvölina lá leið hans norður á land þar sem apótekarinn á Akureyri fól honum það verk að byggja nýstárlegt hús sem væri ætlað að hýsa apótek bæjarins. Á meðan apótekið var starfrækt bjó lyfjafræðingurinn Jóhann Thorarensen á efri hæð þess ásamt fjölskyldu sinni, en í dag hefur þetta reisulega hús við Aðalstræti verið glætt nýju lífi.

Gamla Apótekið hefur, eins og fjölmörg önnur sögufræg timburhús á Íslandi, gengið í gegnum ýmislegt á síðari hluta 20. aldar og var það til að mynda múrhúðað, sem olli því að það fór smám saman að fúna og síga. Árið 2006 hlaut byggingin friðun frá Minjastofnun, sem í kjölfarið festi kaup á henni og hófst þá gríðarmikil endurbygging. Eftir að endurnýjunin hófst tók hún betri hluta tveggja ára og var húsið meðal annars fært tímabundið á hafnarsvæði Akureyrar meðan nýr grunnur var steyptur. Síðla sumars 2017 lauk framkvæmdum í húsinu og var það tilbúið að gegna nýju hlutverki.

Rík áhersla á lestur og samveru

Í dag starfrækir hönnuðurinn Sigríður Sigurjónsdóttir og fjölskylda hennar eins konar gistihús í Gamla Apótekinu sem ber nafnið Place to Read eða Staður til lesturs, en fjölskyldan keypti húsið af Minjavernd eftir endurbætur þess. Húsið er hugsað sem griðastaður, fullkominn til afslöppunar í fallegu umhverfi þar sem stutt er í bæði menningu og náttúru. Rík áhersla er á lestur og er afar veglegt og fallegt bókasafn í einu herbergi hússins sem gestir eru hvattir til að nýta sér. „Húsið er sérstaklega innréttað með það í huga að þar sé gott að vera og lesa og höfum við fjölskyldan fyllt bókasafnið með okkar uppáhaldsskáldsögum, gjafabókum, barnabókum og tímaritum.“

- Auglýsing -

Húsið hefur verið hólfað niður í þrjár íbúðir, sú stærsta er á fyrstu hæð og tvær smærri eru á efri hæðinni. Hver íbúð er búin arni og fyrir utan húsið er eimbað, heitur pottur og sturta undir berum himni.

Hvaðan kviknaði hugmyndin að Place to Read? „Hugmyndin hafði blundað í mér lengi. Við Halldór vitum fátt betra en að setjast niður með góða bók og gefa okkur tíma til að lesa og svo höfum við allt of mikinn áhuga á húsum. Árið 2011 var Ísland heiðursgestur á bókmenntahátíðinni í Frankfurt og á sama tíma jókst ferðamannastraumur til landsins svo um munar. Engin önnur þjóð les jafnmikið eða gefur út jafnmikið af bókum miðað við fólksfjölda og Íslendingar. Bókmenntirnar eru jú okkar helsti menningararfur. Lestur og bókmenntir eru rótgrónar í land og þjóð. Það er svo augljóst að byggja á þessu. Í raun gæti Ísland markaðssett sig sem land til að koma og lesa bækur. Ekkert annað land hefur gert það. Vont veður og rigning er plús. Í öllu áreitinu sem fylgir tæknivæðingunni er það orðinn alger lúxus að setjast niður og lesa bók. Okkur langaði að skapa stað þar sem maður yrði hreinlega feginn þegar veðrið er vont og gæti notið þess að vera inni í dásamlegu húsi og lesið bækur.“

„Í öllu áreitinu sem fylgir tæknivæðingunni er það orðinn alger lúxus að setjast niður og lesa bók.“

- Auglýsing -

Hvert sóttuð þið innblástur þegar kom að því að innrétta og velja húsgögn í húsið?

„Við sóttum innblástur í húsið sjálft. Við reyndum að finna hluti og liti sem áttu heima í húsinu. Sumir hlutirnir fundust í húsinu, eins og gamlar flöskur úr apótekinu sem upprunalega var rekið í húsinu. Gamlar dásamlega fallegar hurðir sem fundust inni í vegg og við notum sem stofuborð. Vinnuborð sem smiðirnir hjá Minjavernd smíðuðu og notuðu við störf sín eru nú eyja í eldhúsinu og vinnuborð í þvottahúsinu. Í húsinu eru verk eftir marga íslenska hönnuði og myndlistarmenn. Rúmin eru íslensk og framleidd af RB rúmum og heiti potturinn er einnig íslensk framleiðsla frá Trefjum og er hvoru tveggja frá Hafnarfirði. Eina sem var snúið var að finna fallega svefnsófa sem pössuðu í húsið en þeir voru að lokum pantaðir frá bandarísku fyrirtæki sem heitir Restoration Hardware. Þetta snerist um að hlusta á húsið. Okkur þótti skemmtilegast að velja bækurnar en hver einasta bók er sérstaklega valin. Þetta eru bækur sem við höfum lesið og höldum upp á og eins bækur sem okkur langar til að lesa. Flestar bækurnar eru á ensku en þó einhverjar á íslensku, þýsku og frönsku.“

Texti / Elín Bríta
Myndir / Auðunn Níelsson og Íris Ann Sigurðardóttir

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -