Fimmtudagur 12. september, 2024
8.8 C
Reykjavik

Uppskriftin að fallegri viðarplötu í eldhúsinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Viðarborðplötur í eldhúsum eru góð leið til þess að fá meiri hlýleika inn á heimilið. Gott er að velja gegnheilar plötur en þær endast lengi og þola vel meðhöndlun. Það er þó ýmislegt sem þarf að hafa í huga varðandi viðhald á slíkum plötum og þurfa þær góða umhirðu svo þær endist sem best.

 

Þar sem viðarborðplötur eru til staðar er áhættusamt að kaupa undirlímdan vask. Flestir borðplötuframleiðendur ábyrgjast ekki plöturnar þar sem slíkur vaskur er en aukin hætta er á sprunguskemmdum. Raki á greiðari leið inn í skurðsárið og eru dæmi um að plötur hafi klofnað eftir endilöngu. Besta lausnin er að velja sér vask sem situr ofan á borðplötunni. Einnig ætti síður að velja blöndunartæki sem festast beint ofan í borðplötuna sjálfa. Óhreinindi geta safnast fyrir umhverfis tækin og litabreytingar komið fram í viðnum.

Hægt er að olíubera viðarplötur eða lakka þær. Kosturinn við olíuna er sá að auðvelt er að viðhalda fallegri áferð. Ef höggskemmdir verða er auðvelt að pússa upp aðeins þann hluta sem er skemmdur og olíubera hann aftur. Komi höggskemmdir í lakk þarf að pússa upp alla plötuna og lakka hana upp á nýtt. Olían er einnig vistvænni kostur.

Ef borðplatan þín er algerlega ómeðhöndluð er nauðsynlegt að olíubera hana vel bæði undir og yfir en mikilvægt er að sama rakastig sé í borðplötunni allri. Ef platan er einungis olíuborin að ofanverðu er hætta á að hún verpist með tímanum og skemmist. Olíubera þarf allt að fjórum sinnum í fyrsta skiptið sem borið er á plötuna. Áður en platan er olíuborin er mikilvægt að engin óhreinindi séu til staðar, því er gott að þrífa flötinn með rakri tusku og leyfa honum síðan að þorna vel áður en hafist er handa.

Algjört lykilatriði er að velja lífræna olíu sem má komast í snertingu við matvæli.

Ekki nota sterk sápuefni við þvott. Viður hefur náttúrulega eiginleika til þess að hrinda frá sér bakteríum svo vatn og mild sápuefni duga vel. Mynd / Úr safni

Ef olíubera á plötu sem hefur verið olíuborin áður er einnig mikilvægt að byrja á því að þrífa burt öll óhreinindi með rakri tusku og fjarlægja bletti séu þeir til staðar. Sum óhreinindi, líkt og fitublettir, nást ekki alltaf af einungis með tusku og því er gott að nota sandpappír og juðara en einnig til þess að rjúfa yfirborðið og opna viðinn svo hann taki betur við olíunni.

Þegar viður er pússaður er gott að hafa það sem reglu að strjúka alltaf í sömu átt og viðaræðarnar liggja. Eftir að platan er pússuð er mikilvægt að strjúka yfir flötinn með þurri tusku í sömu átt og æðarnar í viðnum liggja til þess að varna því að ryk safnist fyrir í samskeytum og misfellum (þar sem viðarfyllir hefur verið notaður) séu þær til staðar. Að þessu loknu er ekkert því til fyrirstöðu að byrja að olíubera. Gott er að nota sápulausan svamp í verkið og ekki á að spara olíuna í fyrstu umferð og viðurinn ætti að drekka olíuna vel í sig. Mikilvægt er að láta plötuna þorna vel á eftir. Þegar hún erorðin þurr eru skrefin endurtekin en þó með aðeins fínni sandpappír en við fyrstu umferð.

Ef bleyta sest ofan á yfirborðið er mjög mikilvægt að þurrka hana burt sem fyrst en bleyta getur skilið eftir sig bletti.

- Auglýsing -

Alltaf er mikilvægt að hreinsa burtu ryk sem safnast fyrir við pússun því annars geta kekkir myndast í olíunni og yfirborðið orðið hrjúft. Þessi skref eru endurtekin eins oft og þurfa þykir. Við síðustu umferð er best að nota tusku í stað svamps. Um leið og viðurinn er orðinn mettaður hættir hann að drekka í sig olíuna og litlir pollar geta myndast ofan á yfirborðinu. Þá er mikilvægt að þurrka yfirborðið með þurri tusku og fjarlægja alla umfram olíu. Sé vandað til verksins er auðvelt að viðhalda fallegri áferð og olíubera þarf sjaldnar. Viðarplötur sem vel er hugsað um endast kynslóðir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -