Mánudagur 17. júní, 2024
7.8 C
Reykjavik

Útlönd í Þingholtunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í 114 ára gömlu bárujárnsklæddu timburhúsi í Þingholtunum býr Eva Þrastardóttir. Hún er borgarhönnuður að mennt og starfar hjá einni stærstu verkfræðistofu landsins.  Hún bjó um sex ára skeið í Danmörku, bæði á Jótlandi og Sjálandi, þar sem hún var í námi.  Íbúðin ber þess merki að Eva hefur búið erlendis og minnir hún um margt á Kaupmannahöfn að mati blaðamanns. Húsið sjálft er í raun tvö hús sem byggð voru samsíða. Annar hluti hússins er byggður árið 1900 en hinn árið 1904 og geymir það sex íbúðir í heildina.

Eva er alin upp í Hafnarfirði þar sem fjölskyldan hennar býr enn í dag en hún segir að eftir búsetuna í Danmörku hafi hana heldur langað að búa í miðbænum. Hún hafi heillast mikið af gömlum húsum í Danmörku og séð í þeim sjarmann. Þá nefnir hún loftbitana, gamaldags glugga, brakið í gólfunum í gömlu húsunum sem svo sannarlega hafa lifað með fólkinu sem í þeim bjó.

Mannlífið heillar hana einnig mikið og hún segir að sér finnist gott að keyra í átt að mannlífinu í miðbænum að vinnudegi loknum en Eva vinnur í útjaðri Reykjavíkur. Íbúðin sjálf sem er 60 fm að stærð hefur tekið töluverðum breytingum eftir að Eva festi kaup á henni fyrir tveimur árum síðan. Hún fór af stað í framkvæmdir með ákveðna sýn í huga. Gólfin voru tekin í gegn, pússuð upp og hvíttuð en gólfin eru upprunaleg og jafngömul húsinu og fannst Evu því mikilvægt að halda þeim enda vildi hún að allt það upprunalega sem hægt væri að nýta fengi að vera áfram.

Panellinn var málaður en áður hafði hann verið viðarlitaður sem minnti um margt á sumarhús eins og við Íslendingar þekkjum þau. Eldhúsinu var einnig breytt en Eva fjarlægði efri skápa sem voru komnir til ára sinna en hana hafði alltaf dreymt um opið eldhús eins og hún hafði haft á einum stað í Danmörku þar sem hún bjó um tíma. Gamall skorsteinn setur skemmtilegan svip á eldhúsið en hefur fengið að halda sér þrátt fyrir að vera ekki lengur í notkun enda hafa aðrar leiðir til húshitunar tekið yfir. Því má segja að hann sé fallegur minnisvarði um gamla tíma. Eva segist hafa verið afar heppin í framkvæmdunum en faðir hennar og mágur hafi veitt henni mikla og góða aðstoð.

Upplifun sem minnir á útlönd

Stórir og fallegir gluggar umlykja íbúðina og er útsýni til allra átta. Birtan í íbúðinni er óviðjafnanleg og mannlífið allt um kring. Það er öðruvísi að upplifa borgina úr hærri hæð en hinn gangandi vegfarandi. Mörg húsanna í miðbænum eru áhugaverðust að ofanverðu þar sem stórir gluggar eru einkennandi og fallegir þakkantar. Það vekur upp mikla útlandastemningu hjá blaðamanni að horfa út um gluggana hjá Evu en íbúðin sjálf ýtir undir þá upplifun.

- Auglýsing -

Eva hefur gaman af að blanda saman nýju og gömlu og má í íbúðinni sjá stól með karrígulu áklæði sem langafi hennar átti en stóllinn hefur fylgt Evu frá því að hún var 17 ára og ferðast með henni yfir höfin. Því má segja að stólinn hafi upplifað tímana tvenna sem gerir hann fallegri fyrir vikið. Gömul tekkhúsgögn í bland við ný einkenna stílinn í íbúðinni en Evu hefur tekist afar vel til að blanda þeim saman svo úr verður falleg heild með persónulegu yfirbragði. Plöntur eru einnig eitt af áhugamálum Evu sem gefa heimilinu notalegt yfirbragð.

Það brakar í gólfinu í hverju skrefi á leið út og er blaðamaður sammála Evu um að gömlu húsin séu mest sjarmerandi sem einkennast af miklu lífi og sögu. Við kveðjum Evu og læðuna Móeyju sem nýlega fluttist inn í þessa fallegu íbúð en á þó eftir að kynnst miðbænum og mannlífinu betur. Að lokum hvetur blaðamaður lesendur til þess að horfa meira í átt til himins á ferðum sínum um miðbæinn og einblína frekar á arkitektúrinn þar sem hann mætir himinhvolfinu heldur en þar sem hann mætir jörðinni. Þá gerast töfrarnir.

- Auglýsing -

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -