Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Anna minnist fyrstu daga faraldursins á Tenerife: „Þetta voru æsilegir dagar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir minnist þess er hún festist næstum því á Íslandi vegna útgöngubanns vegna Covid-faraldursins fyrir þremur árum.

Hin bráðfyndna Anna Kristjánsdóttir skrifar daglega dagbókarfærslu og birtir á Facebook við fádæma vinsældir lesenda en á þessu byrjaði hún er hún flutti til Tenerife fyrir þremur árum. Í nýjustu færslunni rifjar hún meðal annars upp marsmánuð fyrir þremur árum er Covid-faraldurinn var farinn að láta á sér kræla svo tekið væri eftir. Hafði hún átt pantað flug til Íslands en ákvað að fara ekki. Sem var sennilega fyrir bestu því líklegast hefði hún orðið föst á Íslandi en fluginu til baka var aflýst. Viðurkennir hún að þó hún hafi verið óhrædd hafi hún verið með smá kvíðahnút í maganum. Hér fyrir neðan má lesa færsluna í heild sinni:

„Dagur 1308 – Enn um sumarið.

Ég skrapp á Klausturbar í gær, enda pönnukökudagur. Abbadísin hún Herdís hundskammaði mig fyrir að segja að sumarið væri komið. Það er rétt komið vor og varla meira en það sagði hún enda margir kaldir dagar framundan. Ég skammast mín alveg oní tær og iðrast orða minna. Það breytir ekki því að 26. mars næstkomandi verður klukkunni flýtt og þá verður sumartími og við getum byrjað að brosa í átt að sólinni og sumrinu.
Sævar ábóti söng fyrir mig og þá lagði ég á flótta, enda sá ég fram að skíttapaðan leik í handbolta og vildi vera eins fjarri og mögulegt var til að sleppa við táraflóð Íslendinganna er leikurinn tapaðist. Jæja, ýmislegt fór öðruvísi en ætlað var. Til hamingju Íslendingar.
Í dag er sá þrettándi, reyndar mánudagur (eitthvað annað en föstudagurinn þrettándi sem var tvisvar í janúar) og í hugann koma minningar frá því fyrir þremur árum og smitum vegna Cóvið fór snarfjölgandi á Spáni sem og hér og rætt um það í alvöru að loka landinu og setja á útgöngubann. Á þessum tíma átti ég pantað far til Íslands, hafði ætlað að skreppa þangað í fáeina daga, en sá fram á að ef ég færi, myndi ég þurfa að eyða öllum tímanum á Íslandi í sóttkví og ég hætti við ferðina, enda ljóst að ef ég hefði farið, hefði ég ekki komist til baka eftir að fluginu til baka var aflýst. Þetta voru æsilegir dagar og enginn vissi hvað framtíðin bæri í brjósti sér, kjötkveðjuhátíðinni í Los Cristianos aflýst og enginn vissi hve veiran væri alvarleg, hvort þetta þýddi jafnvel endalok mannkyns og fyrstu einstaklingarnir voru byrjaðir að deyja.
Ég var samt óhrædd þó kannski með örlítinn kvíðahnút í maganum. Ég var jú búin að lifa lífinu, með fjölbreytta lífsreynslu að baki, en sá jafnframt fram á að ef að útgöngubann brysti á, gæti ég bætt slíku við afrekaskrána á efsta degi og ég ætlaði sko ekki að missa af því.
Í dag er ég reynslunni ríkari.
—–
Ég set inn færslu dagsins dálítið snemma og tilkynni hér með að ég verð bíllaus næstu tvo dagana hið minnsta. Hún Mjallhvít mín er að fara í dekurmeðferð sem endar með árlegri+
skoðun. Ég er viss um að Höski vinur minn og Maggi mágur verða ánægðir með þetta, enda gamlir skoðunarmenn hjá Frumherja. Reglunni skal haldið áfram þótt búið sé í öðru landi, að láta skoða bílinn á réttum tíma.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -