Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Merkúr í afturhvarfi – Tímabilið þegar allt fer úrskeiðis

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gengur allt á afturfótunum hjá þér þessa dagana? Kannski finnst þér eins og enginn skilji þig, eða að þú lendir stanslaust í vandræðum í samskiptum. Ef til vill fara samningar út um þúfur, ferðalög ganga ekki eftir eða fara hrapallega úrskeiðis, tæknin bregst þér hvað eftir annað og tæki bila. Mikilvæg gögn týnast eða lenda í röngum höndum.

Nokkrum sinnum á ári fer plánetan Merkúr í „afturhvarf“ eða „viðsnúning“. Séð frá jörðu virðist okkur þá plánetan snúa við á braut sinni um sólu. Allar pláneturnar snúast rangsælis um sólina en nokkrum sinnum á ári, í nokkrar vikur í senn, virðist Merkúr snúast réttsælis. Í rauninni er um að ræða ákveðna sjónhverfingu; Merkúr er ekki raunverulega að fara aftur á bak. Hins vegar fer plánetan fram úr jörðinni fjórum sinnum á ári og afstaða hennar gagnvart jörðinni breytist.

Hvernig sem vísindin útskýra fyrirbærið og hvað sem það heitir, getur það haft töluverð áhrif á okkar daglega líf, samkvæmt stjörnuspekinni.

Samskiptaplánetan

Samkvæmt stjörnuspeki er Merkúr sú pláneta sem hefur mest áhrif á samskipti okkar. Merkúr hefur mikið að gera með tjáningu, hvernig við lærum, störfum og eigum samskipti við annað fólk. Merkúr stjórnar hinu talaða og ritaða orði. Sömuleiðis hefur hann töluverð áhrif á tæki og tækni, sem og ferðalög.

Þegar Merkúr er í afturhvarfi getur því allt sem hefur með þessa hluti að gera, farið forgörðum. Fólk er í daglegu tali oft farið að kenna þessu fyrirbæri um margt sem aflaga fer. Samskipti verða oft ruglingsleg, rifrildi og misskilningur eykst, munnlegir samningar ganga ekki eftir, tölvur og tæki bila, internetið virðist ekki geta verið til friðs, síður liggja niðri, viðkvæmur tölvupóstur sendist óvart á ranga aðila og svo mætti lengi telja.

- Auglýsing -

Þegar þessi grein kemur út erum við einmitt stödd í einu slíku afturhvarfi Merkúrs. Þetta afturhvarf stendur frá 14. janúar til 3. febrúar. Þetta fer því að styttast í annan endann.

Yfirleitt er talað um að svokölluð skuggatímabil geti fylgt afturhvarfinu og því getum við fundið fyrir örlitlum áhrifum þess rétt áður en það hefst og í stuttan tíma eftir að því lýkur. Þetta er einungis fyrsta afturhvarf Merkúrs af fjórum árið 2022. Hin tímabilin eru:

10. maí–3. júní

- Auglýsing -

8. september–2. október

29. desember–18. janúar 2023

 

Ástarsambönd í brennidepli

Þar sem plánetan Venus er líka í afturhvarfi núna ýtir það undir flækjur tengdar ástarsamböndum. Þar sem Venus stjórnar ástinni og Merkúr samskiptum er þetta því líklega ekki besti tíminn til að eiga mikilvæg, alvarleg og magnþrungin samtöl í parasamböndum okkar.

Venus hefur líka mikið með fjármuni að gera og því er líklega farsælast að rukka ekki gamlar skuldir eða halda stóra fundi er varða starfsframa. Það er auðvitað ekkert bannað undir sólinni, en það er þá réttast að búa sig undir að hlutirnir gangi ekki endilega eins og þú hefðir helst viljað.

 

Vatnsberar og steingeitur finna fyrir mestum áhrifum

Þegar Merkúr er í afturhvarfi færist hann aftur á bak í stjörnumerkjum í afstöðu sinni til jarðarinnar. Í því afturhvarfi sem við erum nú stödd í byrjaði Merkúr því í stjörnumerki Vatnsberans en færðist svo nýverið, þann 25. janúar, í merki Steingeitarinnar. Þetta þýðir að búast má við að afturhvarf Merkúrs hafi hvað mest áhrif á fólk í þessum tveimur merkjum og fólk sem er með Merkúr í sínu eigin stjörnukorti í Vatnsbera eða Steingeit. Öll áhrif afturhvarfsins verða með öðrum orðum sterkari fyrir þetta fólk.

 

En hvernig komumst við í gegnum svona tímabil?

Við gerum það auðvitað nú þegar, nokkrum sinnum á ári, en til þess að sigla á sem farsælastan hátt í gegnum afturhvarf Merkúrs er best að nýta tímann í sjálfsskoðun, fara vandlega yfir öll samskipti og sitt eigið samskiptaform, lesa vel yfir allan tölvupóst og passa að allir samningar og samkomulög séu afar nákvæm og gefi ekkert rými fyrir misskilning eða glufur.

Ef fólk er til dæmis að gera tilboð í húsnæði er best að hafa kauptilboðið nákvæmt niður í öreindir, passa upp á allar klausur, lesa vel yfir allt sem kemur frá hinni hliðinni og umfram allt – gera ítarlega ástandsskoðun með hjálp fagmanns á eigninni. Skoðið vandlega samskipti fólks í húsinu ef um er að ræða fjölbýli, farið yfir hússjóð og fáið fundargerðir og upplýsingar um viðhald. Allt eru þetta hlutir sem stjörnuspekin segir okkur að kraftur Merkúrs geti haft áhrif á.

Passið að lesa ávallt smáa letrið, útskýrið ásetning og meiningu ykkar vandlega fyrir fólki til þess að forðast misskilning, ekki kaupa dýr raftæki nema með tryggri ábyrgð og gerið ráð fyrir seinkun, aflýsingu og veseni á ferðalögum. Takið afrit af öllum mikilvægum gögnum.

Tímabilin þegar Merkúr er í afturhvarfi geta raunar verið góður tími til þess að velta fyrir sér hvernig við komum fram og hvernig við bregðumst við óvæntum flækjum og vandamálum. Það má læra sitthvað á þessum tíma.

Og ef allt fer í klessu – þá geturðu alltaf kennt Merkúr um það.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -