Fimmtudagur 20. júní, 2024
7.7 C
Reykjavik

Ævintýri á Ítalíu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 8 tölublaði Gestgjafans

Stundum getur lífið verið eins og óraunveruleg bíómynd sem við vitum ekkert hvernig endar og þess vegna þurfum við bara að fljóta einhvern veginn áfram og láta hlutina gerast. Fyrsta upplifun mín af Ítalíu var einmitt svolítið í þessum anda en þá var ég 18 ára og lífið blasti við með öllum sínum ævintýrum og tækifærum. Ég keyrði frá Þýskalandi yfir til Ítalíu með mömmu, pabba og litla bróður mínum og um leið og komið var yfir landamærin varð stemningin önnur, vegirnir urðu rysjóttari og skakkari, landslagið meira suðrænt og afslappað og meira að segja fiðrildin flugu ekki eins beint og í Þýskalandi eða það fannst mér alla vega, það var eitthvað sem heilla­­­ði mig við Ítalíu. Fyrsti viðkomustaðurinn var Garda-vatnið, og hvílík fegurð, vatnið glitraði af endurkasti sólarinnar, leirlitu húsin dönsuðu hægt í takt við vatnið og fjöllin römmuðu landslagið inn á einstakan hátt. Þarna smakkaði ég fyrstu ítölsku pítsuna mína en á henni var skinka, ostur og svartar ólífur sem ég man enn bragðið af þegar ég lygni aftur augunum, hvílíkir töfrar. Þarna urðu líka á vegi mínum leðurblökur og hrikalega sætir ítalskir karlmenn sem flautuðu á eftir mér og ég fékk sting í fullan pítsumagann við að horfa inn í brún augu þeirra, þetta var gaman, það fannst pabba reyndar ekki.

En ævintýrið hélt áfram í Feneyjum þar sem fallegar byggingar og síki glöddu augað hvert sem litið var en þó man ég mun meira eftir bátunum og strákunum en matnum svo hann hefur varla verið góður. En mesta matarævintýrið var í vændum, þó ekki í Feneyjum heldur í litlum bæ rétt við Genóva á ítölsku Rivíerunni, þar sem við heimsóttum viðskiptavin pabba og mömmu sem tók vel á móti okkur. Hann hafði bókað borð á einum besta veitingastaðnum á svæðinu sem var vel falinn og einungis ætlaður Ítölum. Staðurinn var í gamalli ólífuolíuverksmiðju og kúrði á toppi lítils fjalls og því þurftum við að keyra í u.þ.b. 30 mínútur upp hlykkjótta og bratta vegi áður en við komumst á leiðarenda. Þarna var allt mjög gróft og frumstætt en maturinn var algerlega einstakur, það voru bornir í okkur margir litlir og spennandi réttir ólíkir öllu sem við höfðum áður smakkað og við vorum að borða í a.m.k. tvær klukkustundir, eitthvað fyrir mig. Litli bróðir minn var aftur á móti orðinn frekar langþreyttur á að bíða eftir kókinu sem hann hafði pantað fyrir klukkustund en aldrei áður hafði víst nokkur kúnni pantað kók með matnum og því var einn þjónninn sendur niður af fjallinu til að kaupa kók fyrir kauða, það var sem sagt mjög góð þjónusta þarna, en bróðir minn þorði ekki að panta aðra kók þótt hann langaði. Lengi vel var hlegið að þessu í fjölskyldunni og er reyndar gert enn.

Í þessu fallega og sumarlega tölublaði Gestgjafans er meginþemað einfaldur matur frá Ítalíu sem okkur þótti sérlega gaman að vinna enda allir á ritstjórn miklir Ítalíuaðdáendur. Öndvegisþáttur blaðsins er í anda „aperitivo“ sem Ítalir eru svo mikið fyrir en það eru smáréttir sem borðaðir eru um sexleytið með góðum drykkjum og margir þekkja sem búið hafa í landinu. Það er því hægt að töfra fram ítalska veislu á pallinum heima eða bara skella sér til stígvélalandsins og njóta þar. Sameiginlegar minningar úr ferðalögum eru hverri fjölskyldu án efa dýrmætar hvort sem þær varða sæta karlmenn eða kókkaup. Þess vegna ættu allir að ferðast sem víðast og oftast og búa til sín eigin ævintýri, við getum svo bara látið liggja á milli hluta hvers konar ævintýri hver og einn sækist eftir, ég veit alla vega hvað mér finnst áhugavert á Ítalíu. Arrivederci!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Eina fagtímaritið um mat og vín á Íslandi

Gestgjafinn

Tryggðu þér áskrift á 1.790 kr. á mánuði eða kauptu stakt blað á 1.890 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -