Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Börn haga sér betur þegar þeim fer að líða betur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Íris Eik Ólafsdóttir, fjölskyldufræðingur, réttarfélagsráðgjafi og sáttamiðlari hjá Samskiptastöðinni.

Á þessum óvissutímum eru fjölskyldur mikið saman og fer rútínuleysi misvel í okkur, þráðurinn getur orðið styttri og krefjandi hegðun meira áberandi. Ef börn eru að missa stjórn á skapi sínu er fyrsta skrefið að skoða rútínu barnsins og spila þar stór hlutverk nægur svefn, matur og skjátími. En hvernig tökumst við á við krefjandi hegðun barna?

Halda ró sinni.  Það mikilvægasta sem við gerum þegar barn lætur illa er að halda ró okkar. Það getur verið meira en að segja það því slík hegðun getur kveikt á ýmsum tilfinningum hjá okkur sjálfum eins og reiði, pirring, leiða, vonbrigði eða vonleysi. Einnig eigum við það til að notast ósjálfrátt við þær aðferðir sem voru notaðar á okkur þegar við vorum börn þrátt fyrir að vera upplýst um að aðrar aðferðir séu vænlegri til árangurs.  Það er mikilvægt að við náum að beita öðrum viðbrögðum en verða reið. Hugó Þórisson barnasálfræðingur sagði:  „Ef skammir dygðu væru ekki til óþæg börn“. Við þurfum að setja mörk og reyna að vera skýr og ákveðin, en forðast að fara inn í sömu tilfinningar og barnið.

Lesum í líðan barna.  Ef börnum líður illa eiga þau það til að koma sér í vandræði frekar en að takast á við þær aðstæður sem valda þeim vanlíðan. Reynum að átta okkur á hvað er að gerast í huga barna með því að skoða ástæðurnar bak við óhlýðnina.  Ef barn á erfitt með tilfinningar þá er gagnlegt að vera forvitin um hvað sé að trufla það frekar en að láta tilfinningar þess taka okkur úr jafnvægi. Við þurfum að spyrja okkur: Hvað er að hrjá barnið? Hafa verið breytingar sem gæti verið að valda óöryggi? Með þessu hjálpum við barninu að bera erfiðar tilfinningar og létta á spennu sem hvílir á því. Einnig er mikilvægt að skoða hvort barnið sé að fá nægan tíma með foreldrum.

Huga að eigin líðan.  Þá er mikilvægt að huga að eigin líðan og gera allt sem við getum til að passa að við séum ekki að fást við börn með tóman tankinn. Sérstaklega þurfum við að vanda okkur þegar við erum illa fyrir kölluð, þreytt eða lasin. Einstaklingar sem eru t.d. að glíma við langvarandi veikindi eða kulnun að einhverju tagi glíma yfirleitt við skert álagsþol og geta verið verr í stakk búnir til að takast á við krefjandi hegðun barna. Setjum súrefnisgrímuna á okkur sjálf og sinnum sjálfsrækt. Þá skipta þættir eins og hreyfing svefn, mataræði og slökun mestu máli fyrir heilsu okkar og álagsþol.

Verkfæri til að róa sig niður.  Það koma tímabil hjá flestum að vera orkulaus en hafa engan annan kost en að sinna börnum sínum. Þá er mikilvægt að hafa komið sér upp einhverju verkfæri sem hægt er að grípa til þegar við finnum að hegðun barna okkar hefur kveikt á óþægilegum tilfinningum hjá okkur sjálfum. Alveg eins og reykskynjari lætur vita af hættu þegar reykur fer á stjá, þá þurfum við að þjálfa okkur í að nota tilfinningar okkar eins og pirring eða reiði til að átta okkur á að hætta sé á ferðum og við þurfum að róa okkur niður. Þegar við höfum borið kennsl á að við séum komin úr jafnvægi verðum við að hafa einhverja einfalda aðferð til róa okkur niður svo við reiðumst ekki og völdum enn meiri vanlíðan og skaða hjá börnum.  „Við kennum ekki börnum að haga sér betur með því að láta þeim líða verr. Heldur fara börn að haga sér betur þegar þeim fer að líða betur“. Dæmi um aðferð sem hefur gagnast mörgum er að telja aftur á bak frá fimm (5… 4… 3… 2… 1) og anda djúpt. Hvað myndi henta þér að gera á við svona aðstæður?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -