Föstudagur 3. maí, 2024
4.8 C
Reykjavik

Breyttir tímar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Pistill / Goddur

Það getur verið erfitt að vakna í myrkri mitt í þungum lægðarmiðjum rétt eftir áramót. Ég nota oft morgunútvarpið til að vekja mig. Í svefnrofum og móki í byrjun þessa árs heyrði ég þar talað um fólk sem hefði frábæra yfirsýn, væri skjótt að hugsa, sjái aðalatriðin fljótt og vel. Komi sér hratt inn í mál en eigi kannski í erfiðleikum með að forgangsraða einföldum hlutum en geti aftur á móti framkvæmt algjör tímamótaverk. Það geti sökkt sér ofan í hluti, grúskað og gleymt sér, sé algerlega magnaðir samstarfsfélagar, mjög skemmtilegir og gríðarlega fróðir og kunni margt. Hafi áhuga á mörgu. Já, séu bara meiri háttar fólk að vinna með. Það eigi auðvelt með að finna til með öðrum, hafi mikla tilfinningagreind, þóknist ekki en eigi gott með að þjónusta, geti mjög auðveldlega sett sig í spor annarra. Hafi ríka réttlætiskennd, vilji gjarnan láta gott af sér leiða, bregðist sterkt við því sem er í gangi, finnist mikið til koma. Mörg lifni við þegar þau byrji að tala og við hrífumst auðveldlega með þeim. Auðvitað verði þau pínu heltekin stundum en það sé stundum einmitt gott.

Bíðum við. Staðreyndin er nefnilega sú að þessi lýsing smellpassaði eitthvað svo fallega við mitt eigið draumaland. Ég sá fyrir mér bestu kennara sem ég hef haft um ævina og bestu nemendurna sem ég hef kynnst á 30 ára starfsævi sem kennari sjálfur í skapandi greinum. Ég hugsaði um uppáhaldsskólann minn austur á Seyðisfirði, Lungaskólann. Skrýtið hvað margir nemendur þar eru akkúrat svona. Skóli sem hefur engan áhuga á vandamálum nemenda bara styrkleika. Að finna þá, hlúa að þeim og fóstra. Þar er náð tökum á því sem stöðluð skólastarfsemi kann ekki eða ræður ekki við. Nemendur í Lungaskólanum eru á öllum aldri og koma ekki frá neinum einum stað. Taka ekki inntökupróf, taka ekki próf og fá engar gráður. Ég man t.d. eftir einum nemanda sem var kominn vel yfir þrítugt. Hún var læknir og foreldrar hennar voru læknar. Það var aldrei annað í boði í hennar uppeldi en að verða læknir. En hana langaði aldrei til þess og henni leið ekki vel í starfi. Hún hafði allan sína ævi gengið með skáld og rithöfund í maganum og kom í Lunga-skólann til að öðlast styrk og stuðning til þess að framkvæma sinn draum.

Sannleikurinn er sá að kassahugsun og baunatalning er talin eðlileg í vestrænum skólakerfum. Að ekkert sé til nema hægt sé að mæla það eða spegla. Frávik frá þeim eiginleikum hafa verið greind og þau skilgreind sem sjúkdómur. Fólk sem fær greiningu er vængstýft og sett á lyf sem hönnuð eru fyrir kassahugsandi aðstandendur. Skólakerfið og heilbrigðiskerfið er meðvirkt lyfjafyrirtækjunum sem stórgræða á þessum greiningum. Konan sem kom inn í draumaland mitt var að lýsa ADHD en hafði uppgötvað aðra hlið sem greinendur horfa lítið til líklega vegna hagsmunatengsla. En sem betur fer eru tímarnir að breytast hugsaði ég. Það er greinilegt að fólk er að vakna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -