Mánudagur 16. september, 2024
4.3 C
Reykjavik

Er ekki brjálað að gera?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun
Eftir / Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni.

Um daginn rakst ég á gamla vinkonu úr háskóla, sem ég hafði ekki séð í að minnsta kosti áratug. Við fórum að ræða saman um þetta klassíska; starfið, fjölskylduna, stjórnmálin, en svo leiddist samtalið á óvæntar en mjög áhugaverðar brautir. Þessi vinkona mín býr og starfar erlendis, er háttsettur sérfræðingur hjá alþjóðlegri stofnun, á meðan eiginmaður og börn búa og starfa á Íslandi. Hún sagði mér að þetta fyrirkomulag hefði opnað augu sín fyrir vinnuþrælkun kvenna á Íslandi. Núna hefði hún nefnilega, í fyrsta skipti síðan fyrir barneignir, tíma fyrir sjálfa sig. Hún gæti farið í vinnuna, unnið eins og brjálæðingur þegar þess þyrfti, komið heim, gert ekki neitt, farið í ræktina, farið í bíó, farið í spa, keypt sér eitthvað í kvöldmatinn, sem hana langaði í, og þar fram eftir götunum. Þriðja og stundum fjórða vaktin væru ekki lengur á hennar herðum.

Vinkona mín tók það fram að Ísland væri sannarlega framarlega í jafnréttismálum, þegar kemur að formlegu lagalegu jafnrétti karla og kvenna. Það væri hins vegar ofið inn í samfélagsgerðina, og ósagt, að þriðja og fjórða vaktin væru á ábyrgð kvenna.

Við þurfum kannski að velta því fyrir okkur hvort jafnréttisparadísin Ísland hafi sett helmingi landsmanna ómanneskjuleg skilyrði. Þögla fyrirvara sem segja að konur fái leyfi til að vinna utan heimilisins, svo lengi sem þær klúðri ekki hinum vöktunum. Og séu mjóar, smart, hressar, skemmtilegar og sætar.

Seinna þennan sama dag hitti ég nokkrar vinkonur til viðbótar, sem hafa hlotið framgang í sínum störfum, og sagði þeim af samtalinu um vinnuþrælkun íslenskra kvenna í jafnréttisparadísinni Íslandi. Það kom mér á óvart þegar þær tóku undir, allar sem ein. Það kom mér minna á óvart þegar þær sögðu að þær myndu aldrei geta sagt þetta opinberlega, vegna þess að þá myndi fólki finnast þær vera svo vanþakklátar. Tilfinningin væri alltaf sú að þær ættu að vera þakklátar fyrir að fá að vinna utan heimilis, fyrir að fá að taka þátt í opinberri umræðu og jafnvel hljóta framgang á sínum sviðum. Ef þær myndu kvarta undan vinnuálagi þá kæmi það niður á tækifærunum. Enda væru þær þakklátar fyrir að hafa fengið tækifæri sem mæður og ömmur þeirra hefðu bara látið sig dreyma um. Og svo nennir enginn að hlusta á röflandi kerlingar. Þið vitið, týpurnar sem ég og vinkona mín köllum gjarnan ábúendur að Bitru.

Í hugtakinu ofurkona felst ekki bara viðurkenning á vinnuþrælkun kvenna heldur er þrælkunin beinlínis lofuð. Flest erum við enda alin upp við þá æðstu dyggð að vera dugleg. „Er ekki brjálað að gera?“ er spurning sem ég fæ reglulega frá eldri fjölskyldumeðlimi. Hingað til hefur spurningunni verið svarað játandi, enda gleður það viðkomandi, og er ekki lygi. Það er kannski kominn tími til að hugsa svarið upp á nýtt?

- Auglýsing -

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu. >

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -