Höfundur / Henry Alexander, heimspekingur
Vorið 2019 fékk ég símtal þar sem ég borðaði hádegismat úti í sólinni. Á línunni var Roald Viðar útgáfustjóri Mannlífs. Eftir skjall um að ég hefði áhugaverða sýn á hluti og tilveruna spurði hann mig hvort ég vildi gerast rödd á heimasíðunni sem þessi pistill birtist á. Ég var svo sem ekki afhuga þessu en vildi fyrst kyngja matnum sem ég var með uppi í mér. „Getum við ekki bara verið í bandi seinna“, spurði ég. „Jú ekkert mál, sendi þér bara línu á Messenger“ var svarið. „Um, ég er ekki með svoleiðis – er ekki á Facebook. En ég nota tölvupóst…“
Þögnin sem kom á hinn enda línunnar gat bara verið merki um tvennt. Annað hvort var Roald sjálfur að kyngja hádegismat eða hann var í óða önn að velta fyrir sér hvernig hann gæti komið sér út úr þessu tilboði. Mig grunar að hið seinna hafi átt við. Líklega var hann að velta því fyrir sér hvað hann ætti að gera við pistlahöfund sem gat ekki deilt eigin pistlum. „Shit, þessi á ekki séns í meira en svona fimm læk“, hugsaði hann með sér. Til að brjóta upp þessa vandræðalegu þögn sagði ég: „OK, segjum það bara – ég skal skila pistlum tímanlega.“
Fyrstu ummerkin um að það væri farið að draga nær endalokum Facebook var haustið 2018. Margir eru sammála um að langt viðtal við Mark Zuckerberg í The New Yorker hafi markað vatnaskil. Þar kynntust lesendur bráðungum manni sem var orðinn valdamesti maður heims en kærði sig líklega ekki um það. Nokkrum árum seinna var Mark farinn að kalla á meira eftirlit frá stjórnvöldum en þá var hann líklega endanlega búinn að gera sér grein fyrir að forsendurnar sem lágu til grundvallar á uppgangstímum fyrirtækisins voru brostnar. Ábyrgðin sem hann bar hafði orðið honum ljós og mottóið „Move Fast and Break Things“ var kannski bara pínu hallærislegt.
Sjálfur byrjaði ég að tala um Facebook sem hugmynd sem gengi ekki upp í kringum 2011. Í kennslu við HÍ mætti mér taugaveiklunarhlátur í hvert sinn sem ég spurði nemendur hvort þau hafi yfirleitt hugleitt viðskipti sín við þetta bandaríska einkafyrirtæki. Flest héldu þau örugglega að ég væri að grínast en þau sem tóku til máls vildu meina að það væri ekki hægt að vera án aðgangs. Það væri bara eins og að segja sig úr samfélaginu. Með ákveðnum greini.
Það var ekki fyrr en eftir Cambridge Analytica og kosningar ársins 2016 sem mér fannst ég fá einhver hljómgrunn hjá nemendum og þau voru farin að taka undir þau atriði sem ég lagði í þá daga mestu áhersluna á, en það voru persónuverndarsjónarmið, áhrif á hefðbundna fjölmiðla og lýðræði.
Seinna hafði fagleg athygli mín reyndar fremur beinst að Facebook sem samfélagi þar sem tiltekið siðferði yrði að fá að verða til. Endalausar tilraunir fyrirtækisins til að ráða til sín fleira fólk sem svo tæki ákvörðun um hvað ætti að leyfast og hvað ekki voru dæmdar til að mistakast. Ef þetta einkafyrirtæki átti að verða stærsta samfélag manna sem nokkurn tímann hafði verið til þá hefði þetta samfélag þurft að lúta sömu lögmálum og önnur. Nefndir semja ekki siðareglur.
Endalok Facebook komu reyndar ekki einungis til vegna þess að fólk hafði áhyggjur af þeim hlutum sem ég var að velta fyrir mér. Og ég var svo sannarlega ekki einn um. Endalokin voru í raun bara hefðbundin og fyrirsjáanleg þar sem löngu tímabær inngrip eftirlitsaðila og sú harðnandi samkeppni sem fylgdi í kjölfarið ráku Facebook út í tilraunir sem fólki geðjaðist ekki að. Dauðadæmd tilraun með Libra gjaldmiðilinn var bara eitt dæmi.
Almennt held ég að sívaxandi siðvöndun gagnvart notendum samhliða prinsippleysi í rekstri hafi verið eitthvað sem viðskiptavinir hafi átt of auðvelt með að sjá í gegnum. Þegar svo einokunartilburðir urðu flóknari uxu upp sífellt fleiri samskiptamiðlar sem smá saman fóru að skapa raunverulega valkosti. Síðasti naglinn var líklega þegar Bandaríkin og Evrópusambandið tóku höndum saman og tryggðu að fram kom vettvangur á Netinu þar sem ólíkir samskiptamiðlar gátu átt í samskiptum sín á milli.
Ég byrjaði á að segja frá því að ég hafði lofað Roald að skila pistlum inn tímanlega. Ætli það sé nokkuð of snemmt að skila þessum inn tveimur árum of snemma?