Mánudagur 4. nóvember, 2024
10.7 C
Reykjavik

Forysta í loftslagsmálum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í loftslagsvikunni sem lýkur senn höfum við verið vakin til vitundar um þann vanda sem okkur er falið að kljást við í loftslagsmálum.

 

Með Parísarsáttmálanum 2015 skuldbundu þjóðir heims sig til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þar með var vandinn viðurkenndur. Í byrjun vikunnar var ráðstefna í New York þar sem ráðamenn og fleiri ræddu stöðu mála og hvatt var til aðgerða. Ný hugsun og nýsköpun grænna lausna mun varða leiðina að takmarkinu um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þar höfum við talsvert fram að færa.

Kolefnishlutlaus iðnaður 2040

Stjórnvöld vísa veginn og stefna þeirra er grundvöllur að ákvörðunum fólks og fyrirtækja. Stjórnvöld hér á landi hafa skýr áform um kolefnishlutleysi árið 2040. Stjórnvöld leysa ekki vandann sjálf heldur þarf gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs til að ná árangri í þessum málum. Atvinnulífið vill sannarlega vinna með stjórnvöldum að kolefnishlutlausu Íslandi 2040 og í því skyni hafa stjórnvöld og atvinnulíf tekið höndum saman og stofnað samstarfsvettvang um loftslagsmál og grænar lausnir. Sér í lagi er bæði vilji og metnaður til þess að íslenskur iðnaður verði kolefnishlutlaus árið 2040. Húsfyllir var á stofnfundi vettvangsins í síðustu viku og er það til marks um mikinn áhuga á loftslagsmálum, vilja og metnað til að ná settum markmiðum.

Ný hugsun varðar leiðina

Vandinn verður ekki leystur nema með nýrri hugsun og nýjum aðferðum. Það er ekki nóg að viljinn til aðgerða sé til staðar, heldur þurfa lausnirnar að vera til. Með hliðsjón af skuldbindingum þjóða heims um að draga úr útblæstri má búast við miklum fjárfestingum í rannsóknum og þróun til að hanna grænar lausnir og finna leiðir til að gera hlutina öðruvísi. Þessar lausnir eru forsenda þess að metnaðarfull markmið náist. Íslenskt hugvit getur svo sannarlega komið að lausn vandans á þennan hátt með því að hanna grænar lausnir.

- Auglýsing -

Látum gott af okkur leiða

Íslenskt hugvit hefur skapað grænar lausnir í orkuiðnaði og öðrum greinum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hér á landi njótum við sérstöðu þar sem við nýtum endurnýjanlega orkugjafa til raforkuframleiðslu og húshitunar en á heimsvísu stafar stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá orku. Þjóðarleiðtogar sem hingað hafa komið á þessu ári hafa kynnt sér grænar lausnir og hrósað okkur fyrir árangur á þessu sviði. Íslensk þekking hefur á mörgum áratugum byggst upp á þessu sviði og er nú útflutningsvara. Með auknum útflutningi grænna lausna aukast ekki einungis tekjur þjóðarbúsins, heldur látum við gott af okkur leiða með því að hjálpa öðrum ríkjum að ná sínum takmörkum í loftslagsmálum, enda er vandinn hnattrænn en ekki bundinn við einstök lönd.  Þannig getur Ísland verið í forystu í þessu mikilvæga máli og lagt sitt af mörkum til lausnar vandans.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -