Sunnudagur 16. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Gáfur og skynsemi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Lýð Árnason. Höfundur er læknir.

Þegar maður skaut upp rakettunum um áramótin átti árið að verða gleðilegt. Enda einn eftirsóknarverðasti eiginleiki mannkyns að horfa fram á við, björtum augum. En svo hrynur allt.  Óvæntur vágestur úr landi sólarinnar mætir á svæðið og rústar öllu sem er og átti að vera. Flug og ferðalög breytast í sjálfskipað stofufangelsi, knús og kossar í hugskeyti og olnbogaskot, samkomur og leikhúsferðir í snjókomur og svalasöng. Og jarðarfarir fara fram í einrúmi.

Mannkynssagan er öll svona, hæðir, lægðir, stríð, friður og gúrkutíð. Kynslóðir núsins muna bara gúrkutíð nema sú sem er að kveðja. En lengi skal manninn reyna og nú er komið að okkur, bómullarkynslóð hins vestræna heims.  Við erum þó ekki að ganga í gegnum hungursneyð eða harðræði og drepsóttin er líkast ekki eins skæð eins og margar fyrri. En svo sannarlega erum við að upplifa skyndilegt uppbrot á daglegum venjum. Það merkasta er nándin. Henni erum við svipt og sums staðar eru mannamót takmörkuð við tvo sem þýðir bara eitt: Aðlögun. Aðlögunarhæfnin er sjálfgefinn verðlaunapeningur og það er hún sem á að hefja okkur upp yfir aðrar dýrategundir og það er hún sem gerir mannkynið að sigurvegara heimsins. Með hana að vopni höfum við, með örfáum undantekningum, tekið plágunni með yfirvegun og stóískri ró. Hún gengur yfir eins og annað.

Fyrir utan aðlögunarhæfnina er annar bjargvættur sem er afsprengi gáfnafars okkar manna. Það er alheimsnetið.  Það bjargar okkur frá spilakvöldum og húslestrum. Þar getum við fundað og ferðast sem aldrei fyrr, unnið og spunnið, spjallað og skjallað, sofin sem vakin. Í raun getum við nánast allt eins og áður því hvaða munur er á því að sitja í hægindastól heima með skjá eða í kreppusæti flugvélar með skjá? Við nánari umhugsun er heimasetan betri, þarf ekki einu sinni að slökkva á Netinu við lendingu. Í útlandinu er vissulega gaman að senda af sér myndir í nýju umhverfi en að öðru leyti gerir skjárinn það sama og í hægindunum heima. Hugsanlega er svo tilstandið að koma sér í og úr vinnu lítið annað en tilfærsla á milli skjáa. Kannski er einfaldara að flytja bara vinnuskjáinn heim í eitt skipti fyrir öll. Og allar yndisferðirnar til útlanda, opinberar sem einkareknar, mætti endurskoða þær?

Kórónuveirufaraldurinn sýnir feitt fram á yfirburðagáfur mannkyns. Við munum snúa niður þessa pöddu og vinna fullnaðarsigur með bóluefni áður en langt um líður. Gáfur eru þó ekki það sama og skynsemi því skynsemin krefst fórna, hún er afsláttur, lærdómur, nægjusemi. Það verður því fróðlegt að fylgjast með úrvinnslunni þegar plágan er að baki, verður allt eins og áður eða tekst okkur að vinsa úr kjarnann frá hisminu?

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu. >

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -