Fimmtudagur 12. september, 2024
4.8 C
Reykjavik

Hið góða orðspor Íslands

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að lesa íslenska fjölmiðla og Facebook-færslur Íslendinga í kjölfar uppljóstrana Kveiks og Stundarinnar um ógeðfellt framferði og ólögmæta viðskiptahætti Samherja í Namibíu er eins og að lenda í tímavél. Það gæti jafnvel hvarflað að manni að fjölmiðlar og álitsgjafar á Facebook hafi einfaldlega grafið upp gamlar fréttir og færslur síðan í apríl 2016 þegar Panamaskjalahneykslið skók þjóðina. Orðræðan er nákvæmlega sú sama. Stjórnmálamenn eru daprir, þeim er brugðið, það þarf að rannsaka þetta ofan í kjölinn og bregðast við og bjarga hinu góða orðspori Íslands. Facebook-færslur og bloggpistlar snúast annars vegar um kröfur um afsögn ráðherra, hvatningar til þess að „eitthvað“ verði gert, skammir til stjórnmálamanna og skömmina yfir því að vera Íslendingur og hins vegar um „aðför“ fjölmiðla að „góðum“ mönnum, óáreiðanleika uppljóstrarans og svo framvegis.

Við þekkjum þessa orðræðu einnig í kjölfar annarra hneykslismála. Það er ár síðan Klaustursmálið vakti svipuð viðbrögð, svo dæmi sé tekið, þar á undan var það Wintris-málið, enn fyrr framferði útrásarvíkinga sem leiddi til hrunsins  og áfram mætti telja. Við vitum öll til hvers sú umræða leiddi. Æsingurinn og upphrópanirnar geisuðu um stund en ekkert breyttist. Það fuku engir hausar, enginn var kallaður til ábyrgðar, nema til málamynda, spillingin fékk að blómstra áfram. Það er eins og þjóðinni sé fyrirmunað að stíga skrefið til fulls að hrista af sér spillingarokið. Kannski það sé inngróið í þjóðarsálina að sætta sig við það að þeir sem hafa peningavaldið megi og geti komist upp með hvað sem er. Og það er einmitt í því skjóli sem þeir skáka. Treysta því að æsingurinn gangi yfir, fólk fari að æsa sig yfir einhverju öðru og þeir geti óáreittir haldið sínu striki. Iðrun eða yfirbót er ekki á dagskrá.

„Annar frasi sem stjórnmálamenn hafa á hraðbergi er að þetta mál geti skaðað „hið góða orðspor Íslands“. Í hvaða heimi býr þetta fólk?“

Annar frasi sem stjórnmálamenn hafa á hraðbergi er að þetta mál geti skaðað „hið góða orðspor Íslands“. Í hvaða heimi býr þetta fólk? Í kjölfar allra þeirra hneykslismála sem rakin eru hér að ofan að viðbættri veru Íslands á gráum lista vegna skorts á aðgerðum gegn peningaþvætti, dóm Mannréttindadóms Evrópu um lögbrot ráðherra í starfi, nokkrum dögum eftir útilokun íslenskra millifærslna hjá CDB-bankanum, halda menn áfram að tönnlast á hinu góða orðspori Íslands. Fer ekki að koma tími til að vakna upp af þeim draumi og horfa á stöðuna eins og hún er í stað þess að fara í vörn og ásaka „útlendinga“ um að misskilja stöðuna á Íslandi eins og gert var í kjölfar færslu Íslands yfir á gráa listann? Það hlýtur öllum sem hafa augun sæmilega opin að vera ljóst að hið góða orðspor Íslands er löngu fyrir bí. Og verður ekki endurreist með því að henda fram sömu gömlu innihaldslausu frösunum en halda svo bara áfram að hjakka í sama farinu. Nú verður fjandakornið að grípa til aðgerða en ekki orða.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -