Fimmtudagur 5. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Hugmyndavinna oft vanmetin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 10 tbl. Húsa og híbýla

Haustið vekur upp blendnar tilfinningar, sumum finnst erfitt að sjá á eftir sumrinu á meðan aðrir hlakka til að takast á við þennan árstíma. Þótt laufin falli og náttúran leggist í dvala þá lifnar margt annað við eins og hið fjölskrúðuga íslenska félags- og menningarlíf. Margir byrja á námskeiðum, fara í ræktina og svo hefjast allir klúbbarnir að ógleymdum skólunum.

Rútínan er kærkomin en hún kemst á með stundaskrám haustsins enda gott að hafa lífið í föstum skorðum, þó með hæfilegu æðruleysi. Þetta haustið hlakka ég mest af öllu til að geta, vonandi, farið á tónleika eða í leikhús en fátt er eins upplífgandi og gott fyrir sálartetrið. Haustferð á fallegt hótel úti á landi er líka mikið tilhlökkunarefni en fjölbreytileiki í góðri gistingu á Íslandi er orðinn mikill.

Í gegnum tíðina hafa tónleikar veitt mér innblástur og margar góðar hugmyndir kviknað undir taktvissu tónaflóði hvort sem er í klassískum-, jass- eða poppstíl. Orðið hugmynd er
ekkert annað en mynd í huganum, eitthvað sem við sjáum fyrir okkur. Öll sköpun byrjar og
byggir á hugmyndum og einmitt þess vegna er hugmyndavinna svo mikilvæg. En hún er allt of oft vanmetin enda virðist fólk ekki vera að „gera neitt“ þegar hugmyndavinna á sér stað, en það sýnir glöggt vanþekkingu á hugtakinu skapandi hugsun.

Gott er að vera meðvitaður um hvar og við hvaða aðstæður við fáum snjallar hugmyndir. Tónlistin hjálpar mér að koma hugmyndum mínum á flug í ákveðnum verkefnum en ég nota aðrar aðferðir í önnur eins og að grúska í bókum og blöðum, skoða myndir, fara í gönguferð eða ræða um verkefnið við einhvern, það gerist nefnilega svo margt með samtali. Ákveðið skipulagsæði grípur oft um sig á haustin og ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver tegund af forðasöfnun fyrir veturinn? En það er allt önnur saga. Gott skipulag byggir á góðum hugmyndum og snjöllum ígrunduðum lausnum og betra að ana ekki út í framkvæmdir nema með gott plan.

Ég man eftir því í æsku hvað það var mikilvægt að vera með gott skipulag á servíettusafninu, ef maður litaraðaði vel og lagði aðra hverja servíettu í sitthvort hornið á skókassa þá gekk miklu betur að býtta við félagana, og svo skipti lögun skókassans líka máli. Það var svo toppurinn á tilverunni að klæða kassann með hillupappír en ef hann var mynstraður þá truflaði það fegurðina í servíettunum svo þetta gat stundum verið heilmikið mál og pælingar. Litir, mynstur og flokkun skipta máli en svo eru það líka praktísku hlutirnir eins og aðgengi að hlutum. Einu sinni tók hávaxnasti fjölskyldumeðlimurinn á mínu heimili upp á því að setja fartölvuna sína ofan á plastkassa í efriskápnum, því þar fann hana enginn, mjög sniðugt. Tja, nema þegar ég teygði mig í plastkassann og tölvan kom fljúgandi á fullri ferð í andlitið á mér. Ég hálfrotaðist og fékk skurð á ennið við þetta skipulagsslys sem auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir með svolítilli fyrirhyggju og hugsun.

- Auglýsing -

Í 10. tölublaði þessa árs tók ég viðtal við Friðrik, eiganda Hótel Rangár, og viðurkenni að ég heillaðist af eljunni og dugnaðinum sem er á bak við uppbyggingu þessa skemmtilega hótels. Eitt af því sem vakti sérstaka athygli mína var að Friðrik talaði alltaf um að margar hugmyndirnar að hönnuninni hefðu kviknað í samvinnu og samtali við starfsfólk og iðnaðarmenn. Annað sem ég hjó sérstaklega eftir í þessu viðtali var að hótelið hefur verið byggt upp í áföngum þar sem hverju smáatriði hefur verið gefinn gaumur og tími. Útkoman er því ekki bara falleg heldur svífur sérlega góður og notalegur andi yfir öllu. Þá er ekkert annað eftir en að leggjast undir feld og huga að skipulagi heimilisins hvort sem það er gert á tónleikum, á fallegu hóteli eða í því umhverfi sem ykkar hugmyndir fara á flug, en höfum hugfast að betri er fljúgandi hugmynd en fljúgandi tölva.

Tryggðu þér áskrift að Hús og híbýli í vefverslun

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -