Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Kostar eina tölu…

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir / Stefán Pálsson

Tjarnargatan er einhver allra fallegasta gata Reykjavíkur. Nyrsti hluti götunnar er ævaforn, enda má telja líklegt að allt frá landnámsöld hafi stígur legið frá gamla Víkurbænum við Aðalstræti niður að Tjörninni.

 

Tjarnargötuheitið kemur fyrst fram um miðja nítjándu öld en það var fyrst í byrjun síðustu aldar sem ráðist var í að leggja götu með fram Tjörninni vestanverðri upp að Skothúsvegi. Hún var loks breikkuð út í Tjörnina árið 1906.

Á fyrstu árum tuttugustu aldar byggðist nokkuð samfelld húsaröð með fram Tjarnargötu. Flest voru þetta reisuleg timburhús, sem þykja bæjarprýði enn í dag. Um var að ræða norsk hús sem stundum eru kölluð „katalóghús“ þar sem þau voru pöntuð eftir norskum vörulistum og komu hingað í forsniðnum einingum. Fyrir vikið var tiltölulega einfalt að taka þau niður aftur og færa milli staða.

Dæmi um slíkt er Tjarnargata 32, betur þekkt sem Ráðherrabústaðurinn. Upphaflega stóð hús þetta að Sólbakka við Önundarfjörð. Þar var það í eigu Norðmannsins Hans Ellefsen sem reisti þar hvalveiðistöð árið 1889. Hvalstöðinni að Sólbakka var lokað árið 1901 í kjölfar eldsvoða, en einnig spilaði inn í að hvalamiðin við Vestfirði voru nánast uppurin vegna rányrkju og norsku hvalfangararnir voru því farnir að færa sig austur á land. Rányrkjan varð að lokum til þess að hvalveiðar voru bannaðar við Ísland.

Þegar stöðinni var lokað ákvað Hans Ellefsen að gefa Hannesi Hafstein húsið. Aðrir segja að hann hafi selt honum það fyrir eina krónu eða jafnvel fimmkall. Húsið varð persónuleg eign Hannesar, sem var í eilífu peningabasli. Síðar keypti ríkissjóður það af honum, öðrum þræði til að afstýra því að fyrsti ráðherra landsins yrði gjaldþrota.

- Auglýsing -

Með öðrum orðum: umsvifamesti og ríkasti athafnamaður landsins gaf áhrifamesta stjórnmálamanni Íslands hús sem bjargaði fjárhag hans. Meltum þá staðreynd í eitt augnablik. Og þetta sama hús er enn í dag vettvangur fyrir mikilvægustu fundi og samkomur íslenska ríkisins. Það er óneitanlega umhugsunarefni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -