Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Ljósið í myrkrinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 2. tölublaði Húsa og híbýla 2020

Ljós er sennilega eitt það mikilvægasta í tilveru okkar en án þess væri bara myrkur, eðlilega. Til eru ótal orðatiltæki um ljós og þau eru yfirleitt jákvæð, ljósið í myrkrinu, láta ljós sitt skína, fá grænt ljós, varpa ljósi á eitthvað og sjá ljósið, svo fátt eitt sé nefnt. En það er ekki eintóm jákvæðni í kringum ljós því eflaust muna einhverjir eftir því þegar skær flúorljósin voru kveikt klukkan þrjú á böllunum í gamla daga og andlit sem höfðu virst ótrúlega hugguleg og lokkandi fyrir nokkrum sekúndubrotum breyttust í einni andrá og við blöstu rauðsprengd og þreytt augu, sveitt enni, fílapenslar á nefi og jafnvel eitthvað fleira sem ekki verður farið út í hér. Flúorljós á stórum vinnustöðum geta líka varpað óþægilegri birtu, mér dettur fyrst í hug frystihús og spítalar og þótt ótrúlegt megi virðast þá er birta á sumum veitingastöðum ónotaleg og ekki nægilega vel hönnuð.

Ljós er í senn bæði gott og vont, ef of lítið er af því sjáum við ekki neitt en of mikið ljós getur verið truflandi og ósjarmerandi. Lýsing skiptir gríðarlega miklu máli fyrir öll rými og því veldur það mér stundum hugarangri að ekki sé meira hugað að lýsingu, jafnvel í dýru og flottu húsnæði. Eitt gott dæmi eru mátunarklefar í verslunum en hvergi er lýsing eins mikilvæg og einmitt þar enda mátar fólk til að sjá hvort það líti nógu vel út í flíkunum. Ef lýsingin kemur beint niður og myndar skugga á andlitinu verðum við ekki bara óánægð með okkur heldur minnka líkurnar á að við kaupum eitthvað. Auðvitað eru ekki allir mátunarklefar svona en allt of margir og þess vegna tek ég sérstaklega eftir mátunarklefum með góðri lýsingu, ég er sennilega mátunarklefalýsingarnörd, ef út í það er farið. Það hefur líka vakið athygli mína að í vel lýstum mátunarklefum taka fleiri upp símann og mynda sig, ekki ég … en kannski einhver sem ég þekki.

Ljós er stundum til trafala og getur valdið erjum á milli fólks, til dæmis á vinnustöðum. Sumir vilja hafa voða kósí og dimmt en það hentar ekki öllum, mig syfjar til dæmis agalega ef ég byrja vinnudaginn í myrkri á meðan aðrir fá höfuðverk af vinnustaðaljósunum, og þá getur orðið pirringur, sérstaklega í opnum vinnurýmum, sem ég kalla yfirleitt uppfinningu djöfulsins en það er önnur og lengri saga. Já, það getur verið vandlifað í henni veröld. Ekki misskilja mig, ég elska notalega litla birtu frá kertum og lömpum og heima hjá mér eru dimmerar á nánast öllum ljósum, en ég þarf góða birtu til að geta unnið. Þegar ég er til dæmis að taka til og sýsla á heimilinu þá er allt upplýst og svo kemur eiginmaðurinn heim og gengur um húsið og slekkur, ekki til að spara, heldur af því að hann vill hafa dimmt og rómantískt, hann er jazzpíanisti, það skýrir kannski eitthvað. Í nokkur skipti hefur hann meira að segja slökkt öll ljósin í herberginu sem ég er í og þegar ég hef látið í mér heyra reynir hann að redda sér og segir: „En þú ert ljósið í myrkrinu, elskan,“ þá sé ég náttúrlega málin í nýju ljósi; eða ekki.

Þetta tölublað Húsa og híbýla er stútfullt af fjölbreyttum og ólíkum innlitum en að auki lögðum við áherslu á ljós og lýsingu enda birta sérlega mikilvæg   fyrir öll rými en líka fyrir hjónabönd.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -