Miðvikudagur 22. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Matarsamviskubit og sniglar úr nærumhverfinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 12. tölublaði Gestgjafans

Hefð er fyrir því að horfa í baksýnisspegilinn þegar árið er að renna sitt skeið og margir velta fyrir sér hvað sé fram undan. Ég ætla svo sem ekki að setja mig í neinn völvugír í þessum pistli þótt ég verði að viðurkenna að það væri eflaust gaman að vippa sér í svartan skósíðan kjól, setja á sig hringa og hálsfestar, horfa í kúluna og spá fyrir um jarðskjálfta og hvassviðri. Ég hef reynt að temja mér að staldra ekki of lengi við fortíðina heldur horfa fram á við en auðvitað færir hvert ár okkur mikilvæga reynslu. Árið 2019 fóru nokkrir veitingastaðir og eitt flugfélag á hausinn, nýir staðir voru opnaðir, uppskeran var góð og sumarið dásamlegt í alla staði. Lúsmýið lék landann grátt, spilling hjá flaggskipi íslenskrar útgerðar kom Íslendingum í opna skjöldu og Gordon Ramsey fékk sér að borða á Laugaveginum en þetta er bara lítið brot af því sem gerðist.

Eitt af því sem mér hefur þótt standa upp úr í matarheiminum er hversu margir eru farnir að hugsa um að borða úr nærumhverfinu, það eru nefnilega ekki lengur bara fínir veitingastaðir sem nýta íslenskt hráefni heldur einnig almenningur. Um daginn var ég til dæmis að taka utan af mangó þegar mér var bent á að þessi ávöxtur hefði nú ansi mikið sótspor. Ég var með nagandi samviskubit yfir því að hafa ekki bara notað íslensk jarðarber í mangósalsað mitt. Auðvitað verðum við samt að vera raunsæ en það er gott að vera meðvitaður og velja heimaræktað þegar það er hægt. Í raun er það skemmtileg áskorun fyrir okkur Íslendinga að reyna að nýta sem mest af innlendu hráefni. Sagan sýnir okkur svo sannarlega að margt er hægt að leggja sér til munns en það reynir oft á að setja sumt hráefni í nýjan búning eða búa til spennandi afurð og þá getur verið skemmtilegt að líta  til fortíðar með nýstárlegum augum.

Meginþemu Gestgjafans eru matur, vín og ferðalög. Ef ég ætti að velja eitt einkennandi atriði í hverjum flokki sem staðið hefur upp úr á árinu þá væri það; borðað úr nærumhverfinu fyrir matinn, náttúruvín fyrir vínið og kolefnisjöfnun fyrir flugið. Það er þó síður en svo eitthvað nýtt af nálinni að borða úr nærumhverfinu því það hefur mannkynið gert í gegnum aldirnar þótt eitthvað hafi vissulega verið aðkeypt eins og sykur, kaffi og korn. Gott dæmi eru sniglar sem Frökkum og fleirum þykir í dag herramanns matur. En sagan segir að Frakkar hafi víst ekki byrjað að borða snigla til að gæla við bragðlaukana heldur var það gert í algerri neyð. Hungursneið var í landinu og uppskerubrestur vegna mikilla rigninga og vosbúðar sem var hins vegar gósentíð fyrir sniglana og reyndar froska líka. Auðvitað voru sniglar nánast óætir nema drekkja þeim í smjöri, steinselju og hvítlauk og af honum var nóg. Neyðin kennir naktri konu að spinna. Og munum að fleira er matur en feitt kjöt.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -