Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Músastigar og mínimalísk jól

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 12 tölublaði Húsa og híbýla

Jólin eru uppáhaldshátíð margra enda lýsa þau svo sannarlega upp þennan kalda og dimma árstíma. Æskujólin standa mér skýrt fyrir hugskotssjónum; ég sé snjókorn falla, tré og hús skreytt jólaseríum, logandi kerti og ég finn ilminn af nýbökuðum piparkökum og kakóbolla. Það er einhver ró og tilhlökkun í loftinu, eitthvað seiðandi og töfrandi. Flestir eiga einhverjar góðar minningar um jólin og aðventuna þótt við séum vissulega mismikil jólabörn. Ég var til að mynda rosalegt og fremur ýkt jólabarn og byrjaði að hlakka til um leið og ég sá lauf­­in detta af trjánum í september. Þegar fyrsti snjórinn féll stigmagnaðist spenningurinn og ég gat fyrir alvöru farið að huga að skrautinu, jóladagatalinu, aðventuskreytingunum og smákökubakstrinum að ógleymdum vangaveltum og pælingum um hvaða nammi ætti að setja í útsaumaða jólastrenginn í holinu sem við systkinin slógumst reglulega um.

Jólaskreytingatískan hefur eðlilega þróast og tekið breytingum í tímans rás en umræðan um það hvenær sé eðlilegt að setja skrautið upp getur verið eldfim og sitt sýnist hverjum. Ég man til að mynda vel eftir því hvað margir urðu hneykslaðir og hreinlega reiðir þegar IKEA og Kringlan tóku upp á því að setja jólaskrautið upp um miðjan nóvember, í dag er það reyndar gert enn fyrr og jólaskraut sést víða í verslunum í október. Ég skildi þessa hneykslan aldrei enda hafði ég búið í París þar sem jólaskrautið fór að tínast í stórmarkaðina í lok september. En í dag þykir þetta ekkert tiltökumál og margir setja upp pínulítið jólaskraut í október og bæta svo aðeins við í nóvember og desember.

Við vinnsluna á þessu blaði báðum við fólkið sem við heimsóttum að skreyta heimili sín enda um jólablað að ræða. Jólaskreytingarnar eru margar einstaklega smekklegar en flestallir töluðu um að þeir væru með mínimalískt jólaskraut og skreyttu ekki mikið en sögðust aftur á móti kveikja á kertum á aðventunni. Ég tilheyri þessum hópi og hef í seinni tíð forðast mikið glingur og prjál enda finnst mér fátt eins leiðinlegt og niðurdrepandi og að taka jólaskrautið niður, allt verður svo tómlegt, svo mikill janúar eitthvað.

Þessi jólaskreytingamál voru rædd á kaffistofunni hér á Húsum og híbýlum og allir voru svo sammála um hvað það væri þægilegt að hafa þetta allt svona mínimalískt og einfalt. Fallegur krans, nokkur kerti á bakka, jólasería í glugga og ein stjarna er feikinóg fyrir mig, fyrir utan jólatréð náttúrlega. En svo barst umræðan að börnunum og ég fór að tala um hvað mér fannst gaman að skreyta herbergið mitt með músastigum, gervisnjó, blikkandi seríum, glimmerlengjum og jólasveinastyttum að ógleymdu dagatalinu og jólasveinapappamyndunum sem ég límdi á allar hurðir í húsinu. Það fyndna var að allir á kaffistofunni höfðu svipaðar minningar og allt í einu langaði alla að fara að búa til músastiga úr kreppappír og gera glimmerjólakort. Við vorum því öll sammála um að mínimalísku smekklegu jólin mættu ekki koma í veg fyrir að börnin fái að skreyta heimilið með alls konar missmekklegu jólaföndri og glingri.

Gefum börnunum lausan tauminn og leyfum þeim að búa til frábærar minningar þar sem Arne Jakobssen-, Verner Panton- og Alvar Aalto-hönnunarvörurnar eru vafðar músastigum, glimmerlengjum og jólasveinum. Nú, þegar bráðum er liðið ár frá því heimsfaraldur skall á með breyttri heimsmynd og erfiðleikum, held ég að jólin hafi sennilega aldrei verið mikilvægari fyrir sálartetrið okkar, njótum þeirra í botn. Jólin eru ljósið í myrkrinu.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Veglegt jólablað Húsa og híbýla er komið út – Blaðið sem kemur þér í hátíðarskap

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -