Sunnudagur 15. september, 2024
6.6 C
Reykjavik

Andri lýtalæknir spyr: Hvar er þín fita? Inni eða úti?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ein af algengustu aðgerðum sem fólk kemur til lýtalæknis og vill fá er fitusog. Það eru ekki allir sem henta vel fyrir þessa meðferð, sumir engan veginn, aðrir betur. Og ekki er óalgengt að lýtalæknirinn þurfi að taka fram hnífinn til að minnka húðina ofan á svæðinu sem er búið að sjúga. Fituna sem kemur út er svo hægt að nota til ýmissa hluta.

Til útskýringar á því hvernig líkaminn geymir fitu er gott að líta á kviðinn sem dæmi:

Fitan á kviðnum liggur á tveimur meginstöðum. Annars er um að ræða fitu sem er inni í kviðnum, þ.e. innan við kviðvöðvana, í kringum þarma og líffæri kviðarins. Hins vegar er um að ræða fitu sem er utan við kviðvöðvavegginn, þ.e. milli húðar og vöðvalagsins. Sú fita sem hægt er að komast að með tólum og tækjum lýtaskurðlæknis er einungis sú sem liggur utan við kviðvegginn. Það er ekki hægt að spretta upp kviðnum til að sækja fituna sem liggur í kringum þarma og lifur.

Sumir einstaklingar, oft karlmenn, hafa þunnt lag af fitu milli húðar og kviðveggs, framan við vöðvalagið. Þeirra útstæði kviður er vegna fitusöfnunar innan í kviðnum (stundum af minna mælskum kallað „bjórvömb“), sem ekki hægt að laga með skurðaðgerð. Þessir einstaklingar þurfa því að reima á sig íþróttaskóna, ganga á fjöll og borða gulrætur. Aðrir einstaklingar, og þá er oft um að ræða konur, hafa bæði talsverða umframfitu og umframhúð framan við kviðvegginn. 

Þetta er fitan og húðin sem hægt er að klípa í, sem er laus utan á kviðveggnum. 

Nokkuð auðvelt er að komast að þessum vef sjúga og skera hann burt og á þann hátt fá kviðvegginn sléttari en hann var áður. 

- Auglýsing -

Karlmenn hafa að sjálfsögðu líka svona fitu. Þetta er bara mismunandi frá einstaklingi til einstaklings. Hvernig fólk er skapað hvað þetta varðar liggur eingöngu í genunum. 

Hver á ekki vin eða vinkonu sem er þannig gerð að hún / hann virðist illa geta safnað á sig fitu undir húðina, sama hvað viðkomandi borðar. Sviiiiindl, finnst okkur hinum stundum. En það sem máli skiptir eru genin sem við erum fædd með. Sumir eru einfaldlega þannig gerðir að þeir hafa „hraða brennslu.“ Þetta fólk virðist, þegar það er yngra, geta borðað hvað sem er, og mikið af því, án þess að það sjáist á yfirborðinu. Fyrir þá sem þetta gildir um; um að gera að njóta, því þetta varir ekki að eilífu. Síðar í lífinu halda þessir einstaklingar ekki algerlega formi líkama síns. Hins vegar njóta þau enn þess að hafa þau gen sem þau eru fædd með. 

Allir meira og minna safna á sig fitu á vissum skeiðum lífsins, gjarnan milli 30 og 60 ára. Ef einstaklingurinn hefur gen sem gera að fitan safnast lítið saman undir húðinni per se, safnast hún í staðinn fyrir inni í kviðnum. Kviðurinn bungar þá út (bjórvömb hjá körlum, gott nafn óskast hjá konum). 

- Auglýsing -

Þessi fita er ekki eins og sú sem safnast saman undir húðinni hjá hinum sem safna henni undir húð. Þegar skurðlæknir kemur inn í kviðinn sést að hún er gulari, lausari í sér og auðveldara er að mylja hana sundur í hönskunum. Það sem verra er, það er einmitt þessi fita sem er sú óholla og getur stuðlað að hjarta- og æðasjúkdómum, auk margra annara sjúkdóma. 

Hugsun náttúrunnar með þessu „líffæri,“ er að hafa vef innan í kviðnum sem getur skriðið á stað þar sem virk sýking er til staðar. Þannig má sjá að það er þessi fituvefur sem skríður og einangrar botnlangann í langt genginni botnlangabólgu. Þó svo þetta sé kannski í nútímanum og á Vesturlöndum ekki lengur svo verðmætt, var þessi eiginleiki líkamans gríðarlega mikilvægur fyrr á tímum og er ennþá á öðrum og minna þróuðum svæðum heimsins.

Niðurstaðan er sú að það eru bæði kostir og gallar við að hafa mikla fitu innan undir húðinni vs. að hafa hana innan í kviðnum. Þeir sem hafa hana undir húðinni eru óheppnir að því leyti að hún sést meira, en heppnir að það er hægt að komast að henni og fjarlægja hana. Hinir eru heppnir að hafa fitu sem sést minna, en óheppnir að það er ekki hægt að fjarlægja hana með skurðaðgerð.

Hvort er betra er smekksatriði að hluta til. En hvor tegundin maður er getur enginn ráðið. Það liggur í genunum sem við erum fædd með og getum ekki breytt.

Hvað hægt er að gera hjá þeim sem eru skurðtækir, þ.e. með fitusogi og ef til vill brottnámi á húð er rætt um í næsta pistli eftir viku.

Fyrir nánari upplýsingar um hvað hægt er að gera í þínu tilviki, heimsæktu reyndan lýtalækni til ráðgjafar.

Andri Már Þórarinsson, MD, PhD, Lýtaskurðlæknir

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -