Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Er þetta frétt?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Er þetta frétt?

Flestir sem á annað borð lesa athugasemdir (og skrifa jafnvel) við fréttirnar kannast örugglega við setninguna, spurninguna: Er þetta frétt?

Með setningunni er verið að spyrja um hið óspyrjanlega (mögulega er þetta orð ekki til), hvað á erindi í fjölmiðla, hvað á erindi til almennings og hvað ekki?

Og hvað það sé nákvæmlega sem þarf í uppskriftina og baksturinn til að eitthvað verði góð og gegnheil, gefandi og geggjuð frétt, sem uppfyllir alla staðla þeirra kröfuhörðustu og þeirra sem vita mest og best.

Ég veit alveg árans svarið, og það veist þú líka.

Eina fréttin sem uppfyllir allt þetta, og gott betur, er fréttin sem VAR lesin.

- Auglýsing -

Lærðu fjölmiðlafræði, stundaðu klettajóga og kauptu þér lítið land til að rækta ullarsokka á.

Þá veistu.

Fjölmiðlar og blaðamennska, bakarí og apótek, appelsínur og ógeðslegt avókadó með pöddur í farteskinu sem eru enn verri og hættulegri en móðirin sjálf, Alien, innan í sér.

- Auglýsing -

Þetta er allt hið sama; nema að langflestir myndu alltaf lesa greinina um ógeðslega avókadóið sem einhver keypti í Hagkaupum í Garðabæ kortér yfir ellefu á rigningarþungu þriðjudagskvöldi í einhverjum köldum mánuðinum.

Það vilja allir lesa um ógeðslegt avókadó sem var á boðstólum í Hagkaupum í Garðabæ. Um framhjáhald og skilnað, ný pör og ofbeldi, um allt það vonda og ógeðslega sem fólk gerir, og líka, en bara stundum, eitthvað jákvætt.

Við fjölmiðlafólk erum eiturlyfjasalar; seljum alkahólistum viskí og vodka, pillusjúklingum stesolid og stilnocht, og kókhausum reddum við dúnmjúku diskói með gleðibrosi gaddfreðnu og tökum enga ábyrgð á vímunni eða afleiðingum hennar.

Höldum ekki úti meðferðarstöð.

Þeir sem halda að það sé göfugt allan daginn að vera blaðamaður hafa alveg rétt fyrir sér; svo lengi sem einhver nennir að lesa. Og það nenna sko margir að lesa. Við erum þjónar fólksins í landinu og þetta fólk étur og drekkur og rekur mikið við, og vill svo meira. Ábót á ábótina; óseðjandi og löngu hætt að vera dagfarsprútt þetta fólk:

Ég og þú?

Já.

Og hvað vill fólk lesa? Er þetta frétt, nei, ég meina, pistill?

Allt. Bara ekki allir. En flestir.

Allar fréttir eru vel heppnaðar að öllu leyti séu þær lesnar. Svo einfalt er það. Sá er góður blaðamaður sem skrifar greinar sem eru lesnar, og þær eru frábærar ef margir lesa þær, þið vitið hvað ég meina.

Þið elskið okkur svo lengi sem fréttir eru skrifaðar og lesnar. Hlægið stundum og grátið; sumir hneykslast og enn aðrir fýra sér upp í feitri frænku og finnst bara allt geggjað. Svo, einn og einn, sem spyr:

Er þetta frétt?

Svarið er já, ef hún er lesin.

Pistill þessi birtist í nýjasta tímariti Mannlífs sem hægt er að nálgast ókeypis í Bónus, Hagkaup og N1, á höfuðborgarsvæðinu. Lesa má vefútgáfu blaðsins hér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -