Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Kvíði og þess háttar hvati

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég hef glímt við kvíða mestallt mitt líf. Fyrri part lífsins var ég með öllu grunlaus um að hann fylgdi ekki öllum í þeim mæli sem ég þekki. Vitaskuld sækir kvíðatilfinningin á okkur öll, en ég komst að seinna að því að svefnlausar nætur fyrir píp-test væru ekki normið.

Mér þótti kvíðalausir, satt best að segja, vera vitlausir og kærulausir. Metnaðarleysið algjört. Hvernig gat fólki verið sama um prófið sem það var að fara í? Hvernig gat það verið afslappað yfir að fara með bílinn í skoðun eða mætt lögregluþjónum án þess að svitna?

  • Ég hef legið undir rúmi og lesið um upptöku súrefnis í blóðinu. Þá var ég 10 ára. Þetta skyldi ég læra og geta útskýrt fyrir hverjum þeim sem á vegi mínum varð. Það sem ég grét yfir heimsku minni að kunna efnið ekki almennilega.
  • Ég hef grátið viðstöðulausum gráti af því að mér tókst ekki að halda fótboltanum á lofti oftar en 15 sinnum. Litli bróðir vinar míns átti metið 123 snertingar. Stöldrum við og sjáðu – litli bróðir vinar míns, og það verulega mikið yngri. Skömmin sem því fylgdi var gífurleg.
  • Ég hef upplifað minnisleysi og kastað upp í prófi.
  • Ég hef mætt tuttugu mínútum og sólarhring of snemma á fund.
  • Ég hef fengið þráláta blöðrubólgu vegna þess að ég var í skilum í vinnunni.

Árangursmælingar, sama af hvaða tagi, valda mér ótta. Því þá fæ ég staðfestingu á hversu mislukkaður einstaklingur ég er. Kvíðinn hefur gert það að verkum að ég sé virði mitt sem manneskju minna en þeirra sem í samanburðinum eru betri.

Ég áttaði mig ekki á hvernig kvíðinn flækist fyrir og veldur einkennum sem skerða hæfni. Stelur frá manni orku og einbeitingu. Ég fattaði ekki hvernig kvíðinn er tvíeggja sverð. Í baksýnisspeglinum get ég séð að þrátt fyrir byrðina, að þá gerði hann það að verkum að ég passaði alltaf vel upp á dótið mitt og týndi engu. Hann kenndi mér stundvísi og virðingu fyrir tíma annarra. Kvíðinn sagði mér að læra heima. Hann rak mig til að standa við mitt og skila vinnunni minni.

En kvíðinn og samviskusemin voru nær því að drepa mig. Satt best að segja hef ég farið í gegnum lífið eins og sekur glæpamaður á flótta. Með meðvitund og utanaðkomandi hjálp hef ég áttað mig á spíralnum sem hann leiðir mig í og hvernig hann meiðir mig. Svo í dag vinn ég markvisst að því að losa mig við hann. En að endingu vil ég þó þakka honum fyrir aðhaldið og hvatann, en hann hefur leitt mig lengra en ég hefði nokkru sinnum í eðli mínu nennt.

 

- Auglýsing -

Þennan pistil ásamt ótal öðrum spennandi greinum og viðtölum má finna í nýjasta tímariti Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -