Fimmtudagur 25. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Lækkaðu í útvarpinu svo ég sjái betur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Vá, hversu miðaldra?“ var spurning sem skaut upp kollinum þegar ég stóð mig að því að slökkva á útvarpinu í bílnum þegar ég var að leita að réttu heimilisfangi. Símasandi þáttarstjórnandinn lét dæluna ganga um allt það sem engu máli skipti. Ég var að verða of sein, villt og ofan á allt fáránlega gömul – að mér fannst.

Símahnappur í stýrinu, bakkmyndavél, GPS, skjár í mælaborðinu, skjáir í höfuðpúðunum, hleðsludokka, USB, Bluetooth, AUX-tengi og glasahaldari. Allt er þetta að verða staðalbúnaður í nýjum bílum. Þegar ég lærði á bíl þá þótti það draumur ef bíllinn var með geislaspilara og enn betra ef það var NMT-bílasími. Töffararnir í bænum voru með bassakeilu í skottinu. „Æi, loftnetið á bílnum er brotið“ – Jæja, þá rúntaði maður í þögninni eða gróf upp útjaskaða kassettu með tónlist sem var stolin frá útvarpinu. Rólegt og rómantískt var uppáhalds.

Heilinn okkar er þeim hæfileikum gæddur að geta unnið úr fleiri verkefnum en einu í senn – þó með takmörkunum. Þannig getum við setið, andað, hugsað, keyrt bíl og hlustað á útvarp. Niðurstöður rannsókna hafa jafnvel sýnt að hlustun á útvarp meðan á akstri stendur getur verið gagnleg – og hjálpi okkur við að halda einbeitingu og vöku á lengri vegalengdum. Allt fer þetta þó eftir því hvaða svæði heilans er í notkun. Þannig getum við móttekið nýjar upplýsingar í gegnum hlustun í bíltúrnum, en allt fer í köku ef við ætlum að lesa á sama rúnti.

Að bæta við þriðja verkefninu skapar umferðarteppu í höfðinu á okkur, eins og t.d. það að reyna að rata í nýju hverfi eða bakka í stæði. Framheilinn tekur völdin og síar frá það sem hann telur hafa minnsta vægið. Það sem okkur þótti fyrir skemmstu hljóma sem góð tónlist í eyrum verður að sísuði, fróðleikur fréttaþular eða frásögn samferðamanns verður að ærandi truflun og kaffið í fína glasahaldaranum má bara kólna. Sjónin þrengist og við þögnum. Slökktu á þessu gargani.

Ég fann heimilisfangið og náði á réttum tíma, en að erindi mínu loknu gat ég illa hrist af mér þessi bitför elli kerlingar. Drifin áfram af örvæntingu og þörf fyrir að afsanna háværa aldursfordóma mína, lagðist ég í örlitla rannsóknarvinnu: Af hverju þurfum við sem manneskjur að lækka til að sjá betur.

Sannkölluð gleðitíðindi voru að komast að því að aldurinn hefur ekkert með málið að gera. Heldur má þakka heilanum – sem er framþróaðri og fullkomnari en nýjasta og fínasta rennireið götunnar. Meira að segja er heilinn viðbragðsfljótari, traustari, og fullkomnari en allar komandi kynslóðir hvers lags ökutækja … nú eða öskrandi útvarpstækja.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -