Mánudagur 14. október, 2024
3 C
Reykjavik

Ljósið í myrkrinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvert er inntak jólanna?

Varla verslunaræði. Ekki er það stress á hæsta stigi. Og ég trúi því ekki að þau gangi út á það að uppfylla nautnir í mat og drykk.

Fæðing frelsarans á ekki að vera tengd sterkum böndum við allt ofantalið. Það finnst mér í það minnsta ekki.

Það er ekkert að því að gera vel við sig og sína um jólin og njóta þess að vera í fríi.

En eftir að hafa heyrt jólalög í meira en mánuð, séð og heyrt jólaauglýsingar í næstum tvo mánuði, ásamt því að finna hvernig stressið í samfélaginu eykst með hverjum deginum sem líður, og nær hámarki á Þorláksmessu, er ég ekki viss um að fólk almennt sé á sama máli og ég.

Eða hvað? Viljum við virkilega svona? Viljum við stress og vitleysu? Vona ekki.

- Auglýsing -

Jólin á Íslandi hafa lengi verið kölluð hátíð kaupmanna og þau eru það sannarlega – því miður. Ekki vil ég kaupmönnum neitt illt en öllu má nú ofgera. Það vantar allt hóf í tengslum við jólin hjá alltof mörgum íbúum þessa ágæta lands.

Vil að jólin séu mínimalísk hátíð þar sem notaleg samvera við fólk sem manni þykir vænt um og elskar er aðalatriðið.

Ég er ekkert að tala um að flytja aftur í moldarkofana og gefa kerti og spil sem jólagjafir, eða láta börnin fara að leika sér með legg og skel og búa til byssur úr sviðakjömmum.

- Auglýsing -

Draga frekar andann djúpt – slaka á og hætta að taka þátt í einhverju heimskulegu neyslukapphlaupi sem ekkert skilur eftir sig nema tómleika og tóma buddu.

Allt óhóf skilur eftir sig sviðna jörð – hver svo sem neyslan er. Það er staðreynd.

Við Íslendingar þurfum að hugsa okkar gang hvað jólin varðar. Inntak þeirra – kærleikurinn í tengslum við fæðingu frelsarans – er mörgum týnt og það er miður.

En inntakið er ekki glatað. Og eintakið, Íslendingurinn, er heldur ekki glatað.

Við munum sjá ljósið áður en langt um líður.

Gleðileg jól.

Hér má lesa nýjasta blað Mannlífs á vefformi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -