Föstudagur 11. október, 2024
2.4 C
Reykjavik

Reiðarslag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari

Óumflýjanlegt gjaldþrot WOW air er reiðarslag fyrir íslenskt samfélag. 1.100 starfsmenn WOW standa frammi fyrir skyndilegum atvinnumissi og röskun hefur orðið á fyrirætlunum þúsunda flugfarþega. Gjaldþrotið hefur áhrif á fjölda fyrirtækja sem annaðhvort hafa átt í viðskiptum við WOW eða reitt sig á farþega þeirra. Þetta eru fjármálafyrirtæki, hótel, hópferðafyrirtæki, bílaleigur, verslanir, flugvallarþjónusta, og svo mætti lengi telja.

Ekki bara áttu mörg þessara fyrirtækja beinar kröfur á WOW heldur mun stórfelld fækkun ferðamanna skila sér í verri afkomu. Þetta er líka högg fyrir neytendur sem hafa vanist því að geta bókað sér flug til Evrópu á þriðjungi þess verðs sem það kostar að fljúga til Akureyrar. Þetta hljómaði of gott til að vera satt og það var það líka. Rekstrarumhverfi flugfélaga hefur hríðversnað og WOW hefur undanfarin misseri verið að borga með hverjum farþega sem félagið hefur ferjað.

Á næstu vikum og mánuðum munum við svo sjá víðtækari áhrif af gjaldþroti WOW. Samkvæmt hagspá Arion banka mun það hafa í för með sér 16 prósenta fækkun erlendra ferðamanna til landsins og allt að 2 prósenta samdrætti í landsframleiðslu. Samfellt 7 ára hagvaxtarskeið er á enda. Hætt er við að atvinnuleysi fari hratt vaxandi og að krónan veikist með tilheyrandi verðbólguskoti. Blessunarlega hafa stjórnvöld og heimilin í landinu búið vel í haginn þannig að það ætti ekki að taka langan tíma að snúa vörn í sókn. En árið verður svo sannarlega þungt hjá mörgum.

„Verkalýðshreyfingin verður einfaldlega að lesa landslagið rétt, draga úr kröfum sínum og blása til sóknar þegar betur árar.“

Fall WOW  mun einnig hafa víðtæk áhrif á yfirstandandi kjaraviðræður. Verkalýðshreyfingin hefur hingað til kosið að beina spjótum sínum að ferðaþjónustunni og ekki hlustað á varnaðarorð atvinnurekenda sem hafa sagt að staðan í þeim geira sé hreint ekki góð. Gjaldþrot WOW hefur slegið mörg vopn úr hendi verkalýðshreyfingarinnar og hætt er við að það fjari hratt undan þeim meðbyr sem hún hefur notið þegar fréttir fara að berast af fjöldauppsögnum og gjaldþrotum. Verkalýðshreyfingin verður einfaldlega að lesa landslagið rétt, draga úr kröfum sínum og blása til sóknar þegar betur árar.

Loks verður að hrósa ríkisstjórninni fyrir að standast þrýsting um að grípa inn í og koma WOW til bjargar. Fréttir síðustu daga hafa leitt í ljós að staða WOW var orðin með öllu óbærileg. Heildarskuldir félagsins námu 24 milljörðum króna og þrátt fyrir að kröfuhafar hafi fallist á afskriftir voru útistandandi skuldir það miklar að gríðarlegt fjármagn hefði þurft til að koma félaginu í rekstrarhæft ástand. Ekkert í ytra umhverfi flugfélaga bendir til þess að bjartari tímar séu fram undan og það hefði verið vítaverð meðferð á almannafé að leggja ógjaldfæru og nær eignalausu félagi til fjármuni sem nær öruggt er að myndu aldrei endurheimtast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -