Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Skömminni skilað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir / Magnús Guðmundsson

Það er ekki á hverjum degi sem raunverulegar hetjur af holdi og blóði stíga fram fyrir skjöldu. Manneskjur sem eru reiðubúnar til þess að stíga fram fyrir skriðdreka almenningsálits og rótgróinna fordóma og hvika hvergi. Það gerðist þó á þriðjudagskvöldið í fréttaþættinum Kveik á RÚV sem að þessu sinni fjallaði um fátækt og var í umsjón Láru Ómarsdóttur. Það var hverjum sem á horfði og hlustaði af athygli og samúð ógleymanlegt og hafi þau öll ævarandi þakkir fyrir.

Fátækt er viðbjóður og það er með hreinum ólíkindum að þúsundir þurfi að búa við slík kjör í einu ríkasta landi veraldar. Að börn þurfi að vinna þegar þau eiga að vera að læra heima eða leika sér. Að foreldrar þurfi að standa í röð eftir nauðsynjum. Að veikir einstaklingar þurfi að leita á náðir gistiskýla, sofa í bílum eða jafnvel á götunni. Að húsnæði sé lúxus, matur ölmusa, lífið eilífur barningur og hver dagur kvíðvænlegur. Þetta er sá veruleiki sem okkur var sýndur á þriðjudagskvöldið en þetta er líka veruleiki sem við getum breytt ef viljinn er fyrir hendi.

„Fátækt er viðbjóður og það er með hreinum ólíkindum að þúsundir þurfi að búa við slík kjör í einu ríkasta landi veraldar. Að börn þurfi að vinna þegar þau eiga að vera að læra heima eða leika sér.“

Það er reyndar ólíklegt að sú breyting komi að ofan og að við stóra fundarborðið í stjórnarráðinu muni stjórnarflokkarnir sameinast um að útrýma fátækt á Íslandi. Stjórnvöld hafa hins vegar sett sér það vesældarlega markmið að fækka fátækum um helming fyrir 2030 sem því miður hljómar eins og fíkniefnalaust Ísland árið 2000 gerði á sínum tíma.

Hljómar eins og hjáróma og falskt fyrirheit sem er hætt við að þurfi að víkja fyrir hinni löngu viðbrenndu lygi um að það sé engum hægt að hjálpa fyrr en búið er að lækka auðlindagjald, afnema hátekjuskjatt og helst hækka þingfararkaup og þannig mætti áfram telja. Hvað sem því líður hefur skömminni verið skilað til þeirra sem deila og drottna og þar mun hún liggja þar til breyting verður á.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -